Kafli úr væntanlegri bók Guðna um forsetaembættið:
Í stjórnarsáttmála nýsköpunarstjórnarinnar var ekki töluð nein tæpitunga. Nú skyldi ráðist í þá sönnu stjórnarbót sem ekki var hægt að hefja þegar Íslendingar þurftu að standa saman um stofnun lýðveldis. Nauðsynlegri endurskoðun stjórnarskrárinnar skyldi lokið sem fyrst þannig að frumvarp yrði samþykkt, þing rofið og kosningar haldnar „eigi síðar en síðari hluta næsta vetrar.“
Auðvelt var að sjá fingraför sósíalista og jafnaðarmanna á sáttmálanum. Setja átti „ótvíræð ákvæði“ um réttindi allra til atvinnu eða framfæris, menntunar og félagslegs öryggis. Allir voru stjórnarflokkarnir sammála um aðra breytingu, jafnan kosningarétt. Í stjórnarandstöðu mæltu framsóknarmenn einnig fyrir breytingum á stjórnarskrá. Ekki vildu þeir þó jöfnun atkvæða. Einmenningskjördæmi voru þeim ofarlega í huga og jafnframt að blásið yrði til stjórnlagaþings, þjóðfundar, sem setti landinu nýja stjórnarskrá. „Pólitískra dægursjónarmiða“ myndi þá ekki gæta og „þjóðin fengi stórbætta aðstöðu til að hafa áhrif á gang málsins“.
Í samfélaginu öllu mátti heyra ákall um nýja stjórnarskrá. Fræðimenn fylgdu fordæmi Ólafs Lárussonar frá 17. júní 1944 og sögðu að hana yrði í það minnsta að taka til „rækilegrar endurskoðunar“ eins og Ólafur Jóhannesson komst að orði. Samtök kvenna vildu að sett yrðu í stjórnarskrána ákvæði um jafnrétti kynjanna. Síðar meir var Stjórnarskrárfélagið stofnað í Reykjavík, félagsskapur áhugamanna um breytingar á stjórnarskránni, og önnur samtök urðu til á landsbyggðinni.
Allir vildu breytingar. Þótt Bjarni Benediktsson megi með réttu kallast aðalhöfundur lýðveldisstjórnarskrárinnar viðurkenndi hann eins og aðrir að henni var ekki ætlað að standa óhreyfð til langframa. Síðla árs 1940 hafði hann sagt „karlmannlegra“ að semja alveg ný grunnlög. Þá gætu Íslendingar leitað fyrirmynda víðar en í Danmörku, til dæmis í Sviss eða Bandaríkjunum þar sem framkvæmdarvaldið laut ekki vilja þingsins. Við svipaðan tón hafði kveðið innan stjórnarskrárnefndarinnar sem gerði drög Bjarna og hæstaréttardómaranna að sínum árin 1942–1943. Að ófriði loknum yrði unnt að afla gagna ytra og gaumgæfa reynslu annarra þjóða sem síðan nýttist við gerð nýs samfélagssáttmála á Íslandi: „Þangað til því verki yrði lokið ætti sú stjórnarskrá sem hér er lögð fram að nægja.“
Allir vildu breytingar. Þótt Bjarni Benediktsson megi með réttu kallast aðalhöfundur lýðveldisstjórnarskrárinnar viðurkenndi hann eins og aðrir að henni var ekki ætlað að standa óhreyfð til langframa.
Nýsköpunarstjórnin sat ekki við orðin tóm. Skipuð var tólf manna ráðgjafarnefnd til stuðnings stjórnarskrárnefnd Alþingis sem hélt áfram störfum. Gunnar Thoroddsen, nú bæði lagaprófessor og þingmaður, var ráðinn framkvæmdastjóri hennar og hélt sumarið 1945 í tveggja og hálfs mánðar rannsóknarferð um Evrópu með Völu eiginkonu sinni, dóttur Ásgeirs Ásgeirssonar. Þeir Gunnar skiptust á skoðunum um stjórnarskrármál. Ásgeir skrifaði tengdasyni sínum: „Annaðhvort verður stjórnarskrárbreyting að vera bara það nauðsynlega – eða þá verulega radikal svo skapi nýja trú hjá fólkinu.“ Í Danmörku fann Gunnar vel hve köldu andaði í garð Íslendinga. Í Frakklandi kynnti hann sér sögu sundrungar árin milli stríða, með aragrúa smáflokka á þingi og lausung í landsmálum. Stöðugleikinn í Sviss höfðaði frekar til hans og hið sérstaka stjórnskipulag þar, vald kantónanna, tíðar þjóðaratkvæðagreiðslur, fastar reglur um fjögurra ára kjörtímabil og skiptingu ráðuneyta milli stjórnmálaflokka. Vildu menn ekki ganga svo langt velti Gunnar Thoroddsen fyrir sér hvort lögfesta bæri völd forseta til að skipa eigin stjórn ef í nauðir ræki og skýra ákvæði um þingrof til að forðast illdeilur.
Gunnar kom heim. Ekkert gerðist. Efnahagsmál áttu hug forystumanna nýsköpunarstjórnarinnar og þeir þurftu að glíma við herstöðvakröfur Bandaríkjanna. Þeim hefði líka reynst örðugt að ná sáttum um þær viðamiklu breytingar sem boðaðar voru í stjórnarsáttmála. Eitt var að lofa öllu fögru í þeim yfirlýsingaflaumi, annað að láta verkin tala.
Þegar „Stefanía“ tók við völdum kvað við sama tón. Sú stjórn lofaði að „beita sér fyrir því að lokið verði endurskoðun stjórnarskrárinnar og setningu nýrrar stjórnarskrár eftir því sem frekast er unnt“. Skipuð var ný stjórnarskrárnefnd. Enn á ný urðu efndir engar.
Eitt var að lofa öllu fögru í þeim yfirlýsingaflaumi, annað að láta verkin tala.
Hvað olli stöðnuninni? Í fyrsta lagi var þörfin aldrei brýn. Annir dagsins áttu hug ráðamanna. Í öðru lagi gátu stjórnmálamenn í meirihluta á Alþingi vel við unað. Í þriðja lagi stóð krafan um einingu í vegi fyrir breytingum. Þótt fulltrúar allra stjórnmálaflokka segðust vilja endurskoða stjórnarskrána deildu þeir vitaskuld um hverju ætti að breyta og hvernig. Svo lengi sem einhugur var forsenda aðgerða myndi ekkert gerast. Loks átti Gunnar Thoroddsen kollgátuna þegar hann sagði áratugum síðar að sinnuleysið hefði ráðist nokkuð af „því ósýnilega, ósjálfráða viðhorfi stjórnvalda að oft sé þægilegra að gera ekki neitt heldur en að fá deilur um stórmál“.
Endurskoðun stjórnarskrárinnar hlaut að snerta forseta Íslands. Um þau mál var Sveinn Björnsson fáorður í embættistíð sinni. Þeim mun meiri þungi var því í ummælum hans, þá sjaldan þau féllu. Í nýársárvarpi 1949 vék Sveinn að því öngstræti sem Íslendingar hefðu ratað í. Vandfundinn er magnaðri áfellisdómur yfir bráðabirgðastjórnarskránni frá 1944:
„Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. Er lýðveldið var stofnað var þess gætt að breyta engu öðru í stjórnarskránni en því sem óumflýjanlegt þótti vegna breytingarinnar úr konungsríki í lýðveldi. Mikil þróun hefir orðið á síðustu öldinni með mjög breyttum viðhorfum um margt. Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“
Svo mörg voru þau orð. Sveinn Björnsson lifði ekki þann dag að Íslendingar settu sér nýja stjórnarskrá. Hann lést úr hjartaslagi 25. janúar 1952, 71 árs gamall. Við tók leit að nýjum forseta sem gæti gegnt skyldum embættisins með sama sóma og flestum landsmönnum fannst Sveinn hafa gert. En hverjar voru þær skyldur? Hvert var hlutverk forseta? Hvaða kostum þyrfti hann að vera búinn? Við þessu fengust ekki einhlít svör. Gilti þá einu hvort menn rýndu í stjórnarskrá landsins eða reynslu liðinna ára.