Unga parið sem er nýbúið að ráðast í að kaupa sína fyrstu íbúð, kannast við áhyggjurnar. Hjónin sem ákváðu að selja húsið sitt, minnka við sig og kaupa hentuga íbúð, sem er sérstaklega ætluð þeim sem eru að ljúka starfsævinni, þekkja áhættuna.
Leyndir gallar geta kollvarpað öllum fjárhagsáætlunum. Undir loftklæðningunni grasserar heilsuspillandi sveppur. Þakið reynist ónýtt í óveðri, frágangur á vatnslögnum er óviðunandi og þannig má lengi telja. Sumir hinna leyndu galla koma ekki í ljós fyrr en eftir mörg ár og oft á versta tíma.
Það er því rétt og skynsamlegt af unga parinu og eldri hjónunum, að trúa ekki öllu eins og nýju neti, sem seljandinn ber á borð. Þau kynna sér sjálf ástandið, reyna að komast að því hvort og þá hvaða gallar kunni að leynast – oft með aðstoð sérfræðinga með reynslu og þekkingu. Þannig draga þau úr áhættunni og geta verið bærilega áhyggjulaus.
Sem forsetaframbjóðandi er ég að nokkru í svipuðu hlutverki og seljandi fasteignar. Þó er þar einn reginmunur:
Allir mínir gallar liggja fyrir – enginn er leyndur. Reynslan og þekkingin, sem ég bý yfir eftir langa tíð, er opin bók sem er öllum aðgengileg.
Í aðdraganda kosninganna hef ég lagt áherslu á að breyta í nokkru inntaki forsetaembættisins. Ég vil færa forsetann að fólkinu og fólkið að forsetanum – bjóða öllum landsmönnum heim að Bessastöðum – opna Bessastaði. Ég hef haldið því fram að nú sé tími til kominn að forsetinn horfi heim, horfi inn á við og eyði færri dögum í ferðalög til annarra landa.
Allir mínir gallar liggja fyrir – enginn er leyndur. Reynslan og þekkingin, sem ég bý yfir eftir langa tíð, er opin bók sem er öllum aðgengileg.
Á komandi árum verður forsetinn að gæta að innviðum samfélagsins og þá ekki síst hinum andlegu innviðum, fást við óróann og ósættið sem hefur náð að grafa um sig í samfélaginu. Um leið á forsetinn að hafa kjark til að stöðva þöggun og brjóta niður umræðubann um tiltekna þætti í samfélaginu. Forsetinn getur verið í fararbroddi þess að knýja á um umræðu um mikilvæg þjóðfélagsmál, sem leiðir til jákvæðra athafna í þágu lands og þjóðar. Um leið getur forsetinn tryggt að raddir hinna hófsömu og þeirra sem standa höllum fæti, fái að heyrast og verði ekki kaffærðar með hrópum hinna fáu sem hæst hafa.
Verði ég kallaður til þess verks að gegna embætti forseta Íslands, mun ég standa þá vakt af myndarskap, sanngirni, og af yfirvegun enda er ekki margt sem getur sett mig úr skorðum. Reynslan og þekkingin gerir mér kleift að takast á við flestar þær aðstæður sem upp geta komið.
Íslendingar vita hversu mikilvægt það er að forsetinn hafi bæði burði og þor til að taka erfiðar ákvarðanir og verja hagsmuni lands og þjóðar. Á ögurstundu má ekki leyndur galli forsetans koma í ljós.
Á ögurstundu má ekki leyndur galli forsetans koma í ljós.
Hver sem niðurstaðan verður 25. júní, þegar gengið verður að kjörborði, getum við öll tekið undir þessa fallegu heitstrengingu Hannesar Hafstein: