Þrátt fyrir að Ísland sé í 4. sæti um þessar mundir yfir lönd þar sem lífsgæði eru mest þá á ógnvænleg þróun sér stað hér á landi. Margir taka kannski ekkert eftir henni en hún snertir aðra hins vegar djúpt. Kvíði, þunglyndi, fjötrar fíkna, vanlíðan og sjálfskaði eru vaxandi vandamál í þjóðfélagi okkar sem fjöldi barna og unglinga glíma við. Úrræðin eru takmörkuð og allt of langir biðlistar eftir hjálp. Ég trúi því að það sé ekki síst vegna þessara mála sem ég er komin í framboð til forseta því ég veit hvar lausn er að fá.
Í gegnum aldirnar hefur trúin verið haldreipi fólks í raunum og erfiðleikum, í glímunni við harða vetur með nístandi kulda, myrkur og einangrun, auk drepsótta, eldgosa, fjárfellis, hungurs og sjúkdóma. Prestar og trúarskáld blésu kjark og hughreystingu í brjóst landsmanna. Trúin var eina haldreipið, vonin að Guð myndi hjálpa, skerast í leikinn á einhvern hátt og bjarga málum. Öll börn lærðu bænir og Biblíuvers þar sem ömmur og afar gegndu mikilvægu hlutverki. Mikilvægi kristninnar í landinu með sínum góðu gildum má glöggt sjá á þjóðsöngnum okkar Ó Guð vors lands, fánanum, kirkjum og bænahúsum víðs vegar um landið, hátíðisdögum okkar, tímatali, skírnum og fermingum.
En hvað hefur breyst? Af hverju kastar þjóðin trúnni á Guð þegar lífsgæðin í landinu eru orðin svo góð sem raun ber vitni? Glíman við hungrið, kuldann og myrkrið eru löngu gleymd og Guð orðinn óþarfur í allri velsældinni. En er hann óþarfur? Þurfum við ekki bara á honum að halda á annan hátt? Sálmarnir Ó, Jesú bróðir besti og Ó, þá náð að eiga Jesú, einkavin í hverri þraut... hafa lifað með þjóðinni og minnt hana á að við eigum traustan vin í Guði. Ég spyr því: Er það venjan þegar manni gengur betur, að yfirgefa vini sína sem hafa reynst manni vel í afstöðnum erfiðleikum? Nei. Af hverju þá að yfirgefa Guð?
Er það venjan þegar manni gengur betur, að yfirgefa vini sína sem hafa reynst manni vel í afstöðnum erfiðleikum? Nei. Af hverju þá að yfirgefa Guð?
Nú er svo komið að kristin trú og uppfræðsla hefur með skipulögðum hætti verið afnumin víða úr skólum landsins. Gídonfélagið sem hefur starfað hér á landi í 70 ár og gefið skólabörnum Nýja testamenti í áratugi er nú ekki lengur boðið velkomið í marga skóla og í stað kristinfræðikennslu er komin trúarbragðafræði. Fyrir mér er þetta eins og bjóða upp á tungumálafræði í stað íslenskukennslu, svo mikilvægt er að við höldum kristnu arfleifðinni okkar. Eða viljum við hætta að vera kristin þjóð? Börn sem ekki hafa þennan trúargrunn eru miklu móttækilegri fyrir alls kyns áhrifum. Er það virkilega það sem við viljum, að börnin okkar verði trúlaus eða skipti yfir í aðra trú? Þegar kristna trúargrunninn vantar, vantar sömuleiðis tenginguna við gildin sem þetta þjóðfélag byggist á. Ef enginn Guð er til í huga fólks, hvernig eigum við þá að fá bjargfastan grunn til að standa á? Hvar ætlum við þá að leita hjálpar þegar vindurinn skekur okkur?
Ef enginn Guð er til í huga fólks, hvernig eigum við þá að fá bjargfastan grunn til að standa á? Hvar ætlum við þá að leita hjálpar þegar vindurinn skekur okkur?
Ég tel Ísland á það alvarlegum tímamótum að róttæka beygju þurfi til að leiðrétta stefnuna. Við sem þjóð þurfum að vakna upp og taka ákvörðun um hvort við ætlum að vera kristin þjóð eða ekki. Börnin okkar hafa mjög takmarkaða þekkingu á kristinni trú og mörg hver hafa aldrei fengið að kynnast henni. Er það ásættanlegt? Ætlum við að tapa rótum okkar si svona? Og hverju missa börnin okkar af þegar þau hafa ekki þennan trúargrunn til að standa á?
Vitneskjan um að Guð sé kærleiksríkur faðir sem þau hafa ótakmarkaðan aðgang að og geta leitað til í öllum kringumstæðum er afar mikilvæg og getur sannarlega spornað gegn kvíða, myrkfælni, þunglyndi og fíkn og skipt sköpum á ögurstundum í lífi þeirra. Jesús sýndi okkur hvernig Guð faðir er. Hann getur læknað sjúka, leyst þá sem bundnir eru og fyrirgefið syndir. Hann mætir þeim sem eru í þörf og þjáningum og gengur ekki framhjá neinum sem þarfnast hjálpar. Guð er það sem þjóðfélag okkar þarf fyrst og fremst á að halda. Hvort sem það er hægri eða vinstri stjórn eða hvort stjórnarskránni verður breytt á þennan háttinn eða hinn þá mun það varla leysa fólk úr þjáningum. Það eina sem virkilega getur hjálpað er að þjóðin snúi sér til Guðs af heilum huga. Við það myndi fara af stað ótrúleg keðja þar sem friður, vellíðan, lækning og lausn kæmi inn í líf fólks.
Winston Churchill stóð fyrir því að kalla Breta til bæna til verndar þjóð sinni klukkan níu á hverju einasta kvöldi frá 1940 og þar til stríðinu lauk. Á sama hátt yrði það eitt fyrsta verk mitt sem forseta að opna Bessastaðakirkju og kalla fólk saman til bæna fyrir þjóðinni. Við þurfum að biðja fyrir ungu kynslóðinni sem heyir þessa glímu. Bænin er máttug og getur gert kraftaverk. Sem móðir tala ég af reynslu. Sjálf á ég son sem leiddist um tíma út í neyslu kannabisefna og upplifði í kjölfarið mikinn kvíða og þunglyndi. Í hans tilfelli skipti miklu máli að hann hafði þennan trúargrunn frá barnæsku og með markvissri bæn fyrir honum og með því að standa á fyrirheitum Biblíunnar greip Guð inn í líf hans og honum var borgið. Ég veit ekki hvar ég hefði staðið eða hvernig ég hefði snúið mér í málinu ef ég hefði ekki átt þetta samband við Guð sem er mér dýrmætara en allt annað. En mér nægir ekki að sonur minn hafi bjargast. Ég vil sjá öll börn og ungmenni komast út úr vanda sínum og veit ekkert betra og máttugra en Guð með sinn kærleika og kraft sem getur sannarlega umbreytt aðstæðum.
Winston Churchill stóð fyrir því að kalla Breta til bæna til verndar þjóð sinni klukkan níu á hverju einasta kvöldi frá 1940 og þar til stríðinu lauk. Á sama hátt yrði það eitt fyrsta verk mitt sem forseta að opna Bessastaðakirkju og kalla fólk saman til bæna fyrir þjóðinni.
Í Jesaja 29.11 stendur: Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig, segir Drottinn. Ég mun snúa við högum yðar...
Ég trúi að Guð hafi frábæra áætlun með þessa þjóð og við höfum val um að ganga inn í þá áætlun.