Fyrir 20 árum þegar Vigdís var að stíga til hliðar eftir farsæla forsetatíð, hugsaði ég að þetta væri starf fyrir mig. Heimsækja samfélög út um allt land, leggja áherslu á allt hið góða og sýna fólki alls staðar væntumþykju og virðingu. En þá var þetta eitthvað svo fjarlægt að ég afgreiddi hugmyndina sem fjarstæðu.
Svo leið tíminn. Ég giftist, eignaðist barn með geðraskanir og annað barn líka. Það var dýrmæt reynsla að ala upp barn sem passaði ekki inn í kerfið, en líka sársaukafullt að horfa upp á útskúfun þess af hálfu jafnaldra og úrræðaleysi skólakerfisins.
Það er gífurlega styrkjandi að þurfa að berjast fyrir barnið sitt. Stundum gekk illa og ég gafst upp á kerfinu. En kerfið kom líka á móts við okkur og veitti okkur dýrmætan stuðning. Þessi reynsla gaf mér innsýn í líf geðfatlaðra og löngun til að stuðla að betra samfélagi fyrir alla.
Ég brenn af þeirri hugsjón að samfélagið verði einn daginn þannig að allir fái að blómstra, að allir fái menntun við hæfi og störf þar sem þeir geti látið ljós sitt skína, þótt þeir glími við fatlanir, skerðingar eða afleiðingar slysa eða sjúkdóma. Við getum byggt upp hvert annað, hjálpað hvert öðru að öðlast traust og trú á sjálft sig, komast út úr öngstræti og öðlast trú á lífið á ný.
Ég býð mig fram því mig langar að leggja mitt af mörkum til að stuðla að betra samfélagi. Til að breyta samfélaginu þurfum við öll að leggjast á eitt. Við þurfum öll að finna innri styrk og trúa á að hvert og eitt okkar geti breytt einhverju. Ef allir hugsa að þeir geti engu breytt, breytist ekkert. En ef allir hugsa, hvað þeir geti gert til að breyta samfélaginu, tekst okkur að gera samfélagið betra. Þú skiptir líka máli.
Ég elska fólk og að heyra sögur þess. Ég hlusta af einlægni á sorgir og áföll, sigra og hugsjónir fólks. Mér finnst gaman að setja afleiðingar í samhengi við orsakir og hjálpa fólki þannig að skilja sig betur. Ég fór sjálf að líta inn á við, endurskoða sjálfsmynd mína og komst að því að ég er sko alveg nógu góð fyrir hvað sem er. Málið er ekki að breyta sér fyrir starfið heldur finna rétta starfið fyrir sig.
Forseti þarf ekki að vera hagfræðingur, stjórnmálafræðingur eða frægur til að vera nógu góður. Aðalatriðið er að hún eða hann elski þjóðina og vilji gera allt sem í hennar eða hans valdi til að þjóna henni sem best. Ef forsetinn er ekki tilbúinn til að þjóna fólkinu í landinu á hann ekkert erindi á Bessastaði. Ef manneskja getur ekki þjónað getur hún heldur ekki verið leiðtogi.
Ég fór sjálf að líta inn á við, endurskoða sjálfsmynd mína og komst að því að ég er sko alveg nógu góð fyrir hvað sem er. Málið er ekki að breyta sér fyrir starfið heldur finna rétta starfið fyrir sig.
Ég lærði þjóðfræði því þar er m.a. fjallað um sögur þjóðarinnar. Þjóðsögurnar, Íslendingasögurnar og ævintýrin segja svo mikið um hvað mótaði okkur sem þjóð. Hvernig við óttuðumst myrkrið þegar ekkert var rafmagnið. Hvernig við útskýrðum samfélagslegar hrasanir með álfasögum og tröllasögum. Þetta eru sögur af forfeðrum okkar, sumar í stílfærðum búningi, en segja miklu meira en hinar opinberu dómabækur eða manntöl.
Við höfum í margar aldir þurft að berjast við náttúruna. Það var ekkert pláss fyrir tilfinningar þegar lífið snerist um að lifa af. Barnadauði var mikill og ekki mátti fólk láta sorgina buga sig, því það þurfti að sjá um hin börnin og búið.
Það er því ekkert skrítið að við séum fyrst núna að leyfa okkur að hafa tilfinningar. Ég veit að rökhyggjufólk er ekkert hrifið af tilfinningum og myndi helst vilja vera án þeirra. En við hin sem upplifum alls konar tilfinningar þurfum ekki að skammast okkar fyrir þær. Tilfinningar gera samfélagið mannlegra. Nú höfum við öll tækifæri til að vinna úr erfiðleikunum og verða sterkari. Nú getum við skipt út ótta fyrir hugrekki.
Ég er fylgjandi náttúruvernd, lífrænni ræktun, sjálfbærni og dýravernd. Mér finnst að við séum ekki hafin yfir náttúruna, heldur erum við hluti af henni og eigum að sýna henni virðingu. Einnig vona ég að við sem neytendur verðum sífellt meðvitaðri um að styðja við matvælaframleiðslu sem er umhverfisvæn, mannúðleg og sjálfbær. Að við komum fram við dýr af mannúð og virðingu, því þau geta kennt okkur svo margt.
Nú höfum við öll tækifæri til að vinna úr erfiðleikunum og verða sterkari. Nú getum við skipt út ótta fyrir hugrekki.
Við erum að ganga í gegnum miklar breytingar þar sem við höfum tækifæri að endurskoða öll kerfi samfélagsins. Við héldum þjóðfund þar sem við lögðum línurnar að hinu nýja samfélagi, þar sem fólk skipti meira máli en peningar og að samfélag skipti meira máli en hagvöxtur og hagræðing. Við kusum fólk til að semja nýja stjórnarskrá samkvæmt vilja fólksins, þar sem kveðið er á um dreifingu valdsins á fleiri herðar og meira vald til fólksins.
Ég veit að við getum búið hér til samfélag þar sem ríkir samkennd, virðing og traust og þar sem allir fá tækifæri til að blómstra. Ég veit líka að einhvern tímann komum við nýju stjórnarskránni í gegn. Ég hef mikla trú á íslensku þjóðinni.
Í framtíðinni getum við orðið boðberar friðar í heiminum. Við erum herlaus þjóð sem hefur ekki hagsmuni af stríðsrekstri og við viljum vera friðsöm. Við þjálfum menn til að bjarga, ekki til að drepa. Forseti hefur aðgang að öllum þjóðarleiðtogum heims og öllum fjölmiðlum og gæti hlustað á sjónarmið allra stríðandi aðila.
Fyrsta skrefið til alls er að hlusta. Mig langar að hlusta á þjóðina og sjá hana eflast og dafna. Mig langar að byggja upp traust fólks á að við getum búið til betra samfélag. Við erum fámenn þjóð, boðleiðir stuttar og ef einhver getur það, erum það við.
Við þjálfum menn til að bjarga, ekki til að drepa.
Við erum öll dýrmæt, einstök og mikilvæg í samfélaginu. Ef allir væru eins væri samfélagið leiðinlegt. Svo í stað þess að búa til eina samfélagsgerð sem hentar bara ákveðnum einstaklingum, eigum við að breyta samfélaginu þannig að það sé pláss fyrir alla. Við getum þetta saman.