Ásmundur Friðriksson og Brynjar Níelsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sátu hjá þegar ný útlendingalög voru samþykkt á Alþingi í síðustu viku. Þeir voru einu þingmennirnir sem ekki greiddu atkvæði með nýju lögunum, sem annars voru samþykkt í þverpólitískri samstöðu.
Brynjar sagði við atkvæðagreiðslu í þinginu að það væri alveg augljóst að í frumvarpinu væri margt „mjög gott, sérstaklega sem snýr að réttindum útlendinga, stjórnsýslunni og öðrum mikilvægum atriðum.“ Hann sat hjá vegna þess að honum þótti málið hafa fengið litla sem enga umræðu í þinginu, sem væri ekki gott í máli sem væri gjörbylting og risamál. „Við ætlum að afgreiða þetta hér á síðasta degi, það er ekki mikill bragur á því.“ Ekki væri búið að gera neina úttekt á samfélagslegum áhrifum breytinganna, og Ísland væri að fara aðra leið að mörgu leyti en aðrar þjóðir.
Ásmundur var ekki á alveg sömu slóðum í rökstuðningi sínum. Hann sagði að vel eigi að taka á móti þeim sem komi til Íslands í „réttmætum erindum“. Umsækjendum um hæli standi til boða húsnæði, lágmarksframfærsla og nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, þar á meðal vegna geðraskana. „Þetta er auðvitað vel boðið og mun betri kjör en við Íslendingar búum sjálfir við. Hér er húsnæðisskortur, við erum að samþykkja hér lög í þinginu um almennar íbúðir, að byggja 2.300 íbúðir fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna. Eldri borgarar fá ekki inn á dvalarheimilum og þeir sem þar búa búa við þau kjör að fá dagpeninga, rúmar 60 þúsund krónur á mánuði og þurfa að borga læknisþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Varla eru það þau kjör sem við ætlum að bjóða þeim útlendingum sem hingað vilja koma.“
Svo mörg voru þau orð. Ásmundur ætti að hafa það í huga, að Ísland er algjörlega háð útlendingum, og benda hagspár til þess að mörg þúsund útlendingar í viðbót þurfi að flytja til landsins til þess að manna störf. Það er staðan. Eftir tvö ár er gert ráð fyrir að innflytjendur verði tíu prósent íbúa landsins.
Það er algjör óþarfi hjá Ásmundi að bera útlendinga saman við Íslendinga með þessum hætti sem hann gerir, og ýta undir þau viðhorf að útlendingar séu að koma hingað til að taka tækifærin af Íslendingum. Það er þveröfugt. Þeir koma hingað til að leggja sitt af mörkum, skapa tækifæri og vinna störf sem mikil þörf er á að þeir sinni. Rannsóknir hafa sýnt það endurtekið, að útlendingar eru upp til hópa dugnaðarforkar í vinnu sem halda meðal annars uppi fyrirtækjum víða um landið, meðal annars í sjávarútvegi.
Ásmundur ætti að hugsa sinn gang, og velta heildarsamhengi hlutanna fyrir sér. Ísland þarf miklu fleiri útlendinga, eins og staða mála er núna, og þeir eiga að fá fullan rétt til þess að verða sínir gæfusmiðir.