Sá sem býður sig fram í embætti forseta Íslands er manneskja sem hefur með sér í farteskinu allt það sem hann eða hún hefur gert. Forseti Íslands er fulltrúi þjóðarinnar og tekur hlutverk sitt alvarlega fær vettvang til að ræða málin og setja þau á dagskrá.
Forseti Íslands á ekki að hafa staðið utan fylkinga, hann á að hafa reynslu af því að starfa með fylkingum sem hafa komið góðu til leiðar á síðustu árum og hann á að greina tækifæri til að bæta samfélagið. Forseti Íslands á að setja hluti í samhengi og tala til fólks á mannamáli og hann á ekki að hefja sig yfir aðra.
Forseti Íslands á að vera meðal fólksins, hann kíkir ekki í heimsókn heldur dvelur meðal landsmanna. Forseti Íslands á að fara á „Aldrei fór ég suður“ en um leið og hann lofar Mugison og pabba hans og alla vini þeirra fyrir framlagið þá spyr hann augljósrar spurningar: Ef einn strákur með gítar hringir í vini sína og skapar allt þetta, hvað gætu 200 stærstu fyrirtæki landsins gert fyrir Ísafjörð? Hvað myndi gerast ef þau kæmu sér saman um að búa til spennandi vettvang eins og Sjávarklasann úti á Granda? Það er hægt að gera kraftaverk þótt maður kunni ekki á gítar. Ef hópur af hugsjónafólki hefur breytt heilu hraðfrystihúsi í skapandi miðstöð á Stöðvarfirði - af hverju getur heill banki ekki haldið úti hraðbanka í bænum?
Forseti Íslands á ekki að taka þátt í pólitísku dægurþrasi, hann á ekki að vera í beinu samtali við þingheim en hann má gjarnan ávarpa stóru myndina. Forseti Íslands á að hafa reynslu af því að fá ólíka hópa til að vinna saman. Byggðamál eru eitt af okkar mikilvægustu málum og við þurfum og viljum halda uppi byggð um allt land. Byggðamál eru mál sem er ekki aðeins á framfæri Alþingis og ráðherra heldur mál sem snertir okkur öll og við verðum að bera ábyrgð á sem þjóð.
Forseti Íslands á að hafa reynslu af skapandi starfi vegna þess að framtíðin byggir í auknum mæli á skapandi greinum eða bættri nýtingu á hráefni sem fellur til hérlendis. Forseti Íslands á hafa gagnrýnt stóriðju og stórfyrirtæki sem hafa valdið tjóni á náttúru landsins um leið og hagnaðurinn lekur úr landi. Fyrri orð og áherslur forsetans veita aðhald en fyrst og fremst er hann jákvæður og leggur áherslu á tækifæri til að skapa meiri verðmæti úr öllu því hráefni sem er skipað óunnið úr landi.
Forseti Íslands á hafa gagnrýnt stóriðju og stórfyrirtæki sem hafa valdið tjóni á náttúru landsins um leið og hagnaðurinn lekur úr landi.
Forseti Íslands skiptir sér ekki af öllu en hann er með sterk gildi sem eru hans siðferðilega undirstaða og hann getur staðið í lappirnar þegar reynir á. Forsetinn á að hafa reynslu af því að berjast fyrir vitundarvakningu hvað varðar læsi og ólæsi barna, hann á að þekkja menningararfinn frá Eddukvæðum til rímnaskálda 17. aldar og rappskálda okkar daga. Forsetinn á að hafa verið í fylkingu þeirra sem vilja bætt lýðræði, hann á að hafa tekið þátt í umræðu um siðvæðingu, gegnsæi og traust í viðskiptalífinu.
Forseti Íslands á að hafa puttann á púlsinum. Hann á að hafa talað máli náttúrunnar og nýsköpunarkrafts mannsins. Hann á að hafa kynnt land og þjóð erlendis. Hann á að hafa talað máli Þjórsárvera þegar þau voru í hættu. Hann á að þekkja og umgangast Sigríðar í Brattholti okkar daga. Forseti Íslands á að hafa áhuga á umhverfismálum enda lifum við einstaka breytingartíma í jarðsögulegu tillliti. Forseti Íslands á að vera í nánum tengslum við okkar fremstu náttúruvísindamenn, jöklafræðinga, grasafræðinga og sjávarlíffræðinga. Hann á að hafa áhuga á starfi þeirra og hann á að taka þátt í að miðla niðurstöðum þeirra til þjóðarinnar og til umheimsins. Hann á að styðja starf þeirra og taka virkan þátt í að efla tengslanet þeirra.
Forsetinn á að hafa reynslu af því að berjast fyrir vitundarvakningu hvað varðar læsi og ólæsi barna, hann á að þekkja menningararfinn frá Eddukvæðum til rímnaskálda 17. aldar og rappskálda okkar daga.
Forseti Íslands á að vera skapandi manneskja, hann á að hafa tekið áhættur í lífinu og fært mál af jaðrinum inn á miðjuna eða jafnvel lengra. Forseti Íslands á að hafa áratuga reynslu af því að tala við börn landsins um menntun, lýðræði og náttúru. Forseti Íslands á að kunna að segja ævintýri, hann skilur að ást á landinu skilar sér - ef við sáum fræjum þar, uppskerum við ríkulega í framtíðinni.
Forseti Íslands á að þora að segja upphátt hvar Ísland á að standa í samfélagi þjóðanna. Við viljum vera rödd sem talar fyrir mannréttindum, fyrir náttúruvernd, fyrir lýðræði en til þess að rödd okkar sé sönn og hrein þarf undirstaðan heima að vera sterk og viljinn til að gera betur. Forseti Íslands á að hrósa fólki fyrir það sem er vel gert en skilja að allur árangur byggir á því að við getum alltaf gert betur. Við eigum margt sem við getum státað okkur af og við eigum ótal spennandi möguleika í framtíðinni. Forseti Íslands á að skilja vonarglampann í augum útlendinga þegar þeir tala um þjóðfundinn og vinnu okkar við að bæta lýðræðið og auka vald fólksins með ritun nýrrar stjórnarskrár. Hann skilur að þar höfum við hlutverki að gegna sem innblástur fyrir aðra og bætt lýðræði á heimsvísu. Forseti Íslands sér tækifæri til að taka þátt í þjóðfundum um allt land þar sem fólk kemur saman og ræðir framtíðina.
Forseti Íslands á að koma hlutum í verk og hann á að hafa staðið fyrir stórum viðburðum, eins og stórtónleikum til góðgerðarmála eða hafa sýnt þrautseigju við rekstur nýsköpunarmiðstöðvar. Forseti Íslands á að vera vel tengdur erlendis og hann á að geta hnippt í gott fólk þegar Ísland þarf á góðum stuðningi að halda.
Forseti Íslands á að vera nátengdur við náttúru og sköpunarkraft landsins. Hann á að greina möguleika til að skapa meiri verðmæti til sjávar og sveita, hann á að þekkja bændur, kennara, eldri borgara og sjómenn, náttúru og nýsköpunina og hann á að draga til landsins fólk sem getur auðgað okkur á öllum þessum sviðum.
Forseti Íslands á að vera hugsjónamanneskja, forsetinn á að vita að heimurinn er í stöðugri þróun og að við getum alltaf gert betur. Forsetinn á að benda á að við getum gert betur í umhverfismálum, betur í menntamálum, betur í mannréttindum og sjálfsögðum réttindum fatlaðra. Hann á að styðja góð mannúðarmál og frjáls félagasamtök um allt land. En forsetinn á líka að elska Ísland eins og það er með öllum sínum kostum og göllum, allri sinni fegurð en líka það sem er eilítið á skjön, eilítið skakkt og snúið.
En forsetinn á líka að elska Ísland eins og það er með öllum sínum kostum og göllum, allri sinni fegurð en líka það sem er eilítið á skjön, eilítið skakkt og snúið.
Ég býð mig fram með alla ofangreinda reynslu í farteskinu, sem eiginmaður, faðir, sonur og barnabarn. Ég býð fram krafta mína, áhuga og hugsjónir varðandi menningu og læsi, umhverfis og menntamál, tengsl mín við fólk um allt land og um allan heim, tengingar við vísinda og fræðaheiminn og framtíðarsýn sem á að vera okkur til góðs.
Forseti Íslands á að vera eins og viti, hann á að halda ákveðnum gildum á lofti hvernig sem viðrar í pólitík en hann á líka bara að vera mannskja. Hann á að vera einn af okkur.