Með síaukinni áherslur á endurnýjanlega orkugjafa, samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og orkuöryggi, hafa orkukerfi sem byggja á samþættingu mismunandi orkugjafa fengið aukinn byr í seglin. Á COP21 í París í desember síðastliðnum, náðist t.d. sögulegur árangur í vitundarvakningu þjóða sem ekki er þörf á að útlista hér. Jarðhitinn getur leikið hér mjög mikilvægt hlutverk ásamt vind-, vatns-, sjávarfalla- og sólarorku.
Ísland er ein af þeim þjóðum sem nýtt hefur jarðhita hvað lengst og hefur tekist með eftirtektarverðum hætti að gera það á mjög fjölbreytilegan máta. Hugdjörf notkun affallsvatns jarðhitavirkjunarinnar í Svartsengi, sem varð að Bláa Lóninu er gott dæmi sem allir þekkja, sem og fjölbreytileg notkun jarðhitans í öllum Auðlindagarðinum á Reykjanesi og víðar. Hvergi annars staðar heiminum er jarðhiti eins stór hluti af frumorkunotkun heillar þjóðar og hér. Mörg okkar hafa því alist upp með jarðhitanum og kannski aldrei þekkt neitt annað en ofgnógt af heitu vatni. En það er þó eins með jarðhitann og annað að hann er ekki óþrjótandi auðlind. Með aukinni áherslu á náttúruvernd og arðgreiðslur orkufyrirtækja eykst krafan um betri nýtingu þeirra svæða sem tekin hafa verið fyrir og hugmyndaauðgi um hvernig auka megi orkuframleiðslu svæðanna með því t.d. að bora dýpra eða beita nýjum aðferðum. Nýverið fékkst t.d. 20 milljón evra styrkur úr Rannsóknaáætlun Evrópusambandsins í verkefnið DEEPEGS sem miðar einmitt að djúpborun á Reykjanesi og í suður Frakklandi.
Það er við þessar aðstæður sem nýsköpun og frjó hugsun þrífst best. Undanfarin tvö ár hefur Arion Banki, Landsvirkjun, GEORG og Nýsköpunarmiðstöð staðið fyrir viðskiptahraðlinum Startup Energy Reykjavik og mun gera það í þriðja sinn nú í haust. Markmið hraðalsins er að leggja þeim lið sem vilja framkvæma viðskiptahugmyndir á sviði orkumála í sinni breiðustu mynd. Valdar hugmyndir fá 5 milljónir kr. í hlutafé og hjálp við að setja hugmyndina fram í 10 vikna þjálfunarbúðum. Opnað hefur verið fyrir umsóknir á heimasíðu hraðalsins og hvetjum við alla til að sækja um sem hafa áhuga á að láta gott af sér leiða, og um leið ganga á vit skemmtilegs ævintýris undir styrkri leiðsögn fagmanna.
Upplýsingar um Startup Energy Reykjavik er að finna á heimasíðu hraðalsins eða hjá starfsfólki Icelandic Startups og Iceland Geothermal
Höfundur er rekstrarstjóri GEORG -Rannsóknaklasa í jarðhita, sem er einn af bakhjörlum og eigendum Startup Energy Reykjavik