Frá því Björt framtíð tók sæti í meirihluta bæjarstjórnar í Hafnarfirði hefur bragur bæjarfélagsins breyst til muna. Lögð er mikil áhersla á að koma til móts við fjölskyldufólk, gera bæinn mun meira aðlaðandi en á sama tíma að taka skynsamlegar ákvarðanir í fjármálum bæjarins.
Að reka bæjarfélag er svolítið eins og að reka fjölskyldu, það getur verið flókið, persónulegt og þarf að taka tillit til margra ólíkra einstaklinga. Þegar taka þarf erfiðar ákvarðanir, með áherslur á það fjármagn sem til er þá eru þessar ákvarðanir oft ekki til þess fallnar að gleðja alla en lögð er áhersla á að þær séu þannig úr garði gerðar að meirihluti bæjarbúa finni að verið sé að vinna í þeirra þágu.
Þann 1. janúar árið 2016 bjuggu 28.189 einstaklingar á öllum aldri í Hafnarfirði, af þessum fjölda eru 7.754 börn á aldrinum 0 til 18 ára, sem gera um þriðjung bæjarbúa. Börnin eru jú framtíðin. Það eru til ýmsar leiðir til þess að styrkja stoðir framtíðarinnar og koma til móts við fjölskyldufólk í firðinum okkar fagra. Mesti sigurinn á síðustu árum tel ég hafi unnist nú nýverið þegar starfshópur um gjaldskrár fékk í gegn tillögur sínar um breytingu á systkinaafslætti þvert á skólastig úr 30% fyrir annað, 50% fyrir þriðja og 100% fyrir fjórða í 50% fyrir barn númer tvö, 75% fyrir þriðja og áfram 100% fyrir fjórða barn. Þetta er kjarabót sem kemur sér vel fyrir hafnfirskar fjölskyldur og tekur þessi breyting gildi þann 1. september 2016. Einnig var tekið stór skref síðasta haust þegar ákveðið var að hækka niðurgreiðslur til dagforeldra, hækka ekki gjaldskrár leikskóla (annað árið í röð) og frístundaheimila ásamt því að lækka inntökualdur í leikskóla niður í 18 mánuði. Ekki má heldur gleyma fræðslusjóðnum sem settur var á laggirnar svo starfsfólk leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar gæti menntað sig á sínu sviði, því gott starfsfólk er gulli betra.
Einnig hafa íþrótta- og frístundamál barna bæjarins verið í milli endurskoðun, nú hafa flestöll íþróttafélög bæjarins skrifað undir nýja rekstrar- og þjónustusamninga við bæinn þar sem áhersla er á gagnsæi og samstarf milli allra aðila. Tryggja verður jafnan aðgang allra barna að frístundastarfi og lagði starfshópurinn um gjaldskrár einnig til að frístundastyrkur fyrir hvert barn sem sækist eftir honum hækki til muna eða í 3000 kr á mánuði. Hækkunin er töluverð eða úr 1.700 kr á mánuði fyrir 6–12 ára og 2.205 kr. á mánuði fyrir 13–16 ára. Er þetta fyrsta hækkunin á frístundastyrknum síðan hann var settur á laggirnar árið 2007. Jafnframt verða aldursmörk um frístundastyrk hækkuð um tvö ár, frá 6 ára til 18 ára aldurs í stað 16 ára. Meginmarkmið þessara breytinga á frístundastyrknum er að tryggja jafnan aðgang allra barna og auka þátttöku þeirra í skipulögðu tómstundastarfi. Einnig lögðu fulltrúar Bjartar framtíðar í starfshópnum til að fræðsluráð endurskoði fyrirkomulag frístundastyrkja með það að leiðarljósi að mæta ólíkum þörfum barna og ungmenna bæjarins. Þá verði sérstaklega horft til þess hvort ekki sé orðið tímabært að víkka út skilyrðin fyrir frístundastyrk, börn bæjarins geti stundað hverja þá tómstund sem þau lystir og nýtt styrkinn sinn til meðal annars skapandi greina.
Það má ávallt bæta um betur og tel ég að unnið sé af því að rétta stöðu fjölskyldufólks í Hafnarfirði á einn eða annan hátt, sumt er hægt að gera strax á meðan annað þarf að fá tíma og tækifæri til þess að koma í framkvæmd. Ég tel að með fyrirgreindum breytingum hafi hag fjölskyldufólks verið sinnt til muna. Bærinn er allur að styrkjast og vaxa í rétta átt, sýnir það sig meðal annars í hækkun á fasteignamati innan bæjarlínunnar, bæði hefur fasteignamat í Hafnarfirði hækkað sem og í flestum hverfum Hafnarfjarðar. Voru hækkanir frá 7% og upp í 11% fyrir einstaka hverfi. Þetta sýnir og sannar að Hafnarfjörður er á góðri leið með að verða einn besti bærinn á landinu til að búa í. Margar hendur geta unnið gott verk.