Nýtt fangelsi á Hólmsheiði hefur formlega verið tekið í notkun, en ríflega þrjú ár eru liðin frá fyrstu skóflustungu. Heildarkostnaður við verkið nam um þremur milljörðum króna. Fangelsið er tæknilega fullkomið gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi með sérstakri deild fyrir kvenfanga. Alls eru 56 fangaklefar í fangelsinu.
Óhætt er að fagna þessum tímamótum, en ástandið í fangelsismálum landsins hefur verið skammarlegt fyrir þjóðina um árabil. Langir biðlistar hafa verið eftir því að taka út refsingu, vegna lélegs aðbúnaðar. Nú ætti að vera hægt að vinna á þessum vanda, og byggja upp betra kerfi í fangelsismálum.