Einu sinni átti ég land. Ég var bara smástelpa en ég átti mjúka móa sem ilmuðu af blóðbergi og þar mátti gleyma sér heilu dagana meðan lóan og spóinn kölluðust á og Esjan skipti litum. Stundum fór ég út í móa til að leika mér, stundum til að gráta, stundum bara til að sitja uppi á Álfasteini og horfa dreymin yfir Mosfellsdalinn.
Börn sem eiga heima í sveit verða litlir kóngar sem eyrnamerkja sér hvern stein og hverja þúfu. En ég átti þessa móa ekki ein. Sá sem átti mest í þeim var afi minn sem gekk léttstígur út í holtið á hverjum morgni, stiklaði á steinum og talaði við fuglana. Suma daga slóst ég í för með honum og hundinum og þá gengum við upp að steini sem hann kallaði Álfastein og vísaði í beinni sjónlínu út í gamla húsið í Laxnesi þar sem hann hafði búið þegar hann var lítill strákur. Hann sagði mér frá fólkinu sínu þar, pabba sínum sem hafði ræktað landið og hlúð að því og hann sagði mér að í steinum byggi lítið fólk sem gætti landsins og hefði verið svo vænt að skilja þar eftir fullan poka af rauðum og hvítum Bismark-brjóstsykri handa mér því ég væri svo væn að rífa aldrei upp mosa eins og sum óþekk börn.
Og við bruddum brjóstsykurinn, ég, afi minn og tannlausi hundurinn okkar, og allt var lifandi allt um kring; berjalyngið, smásteinarnir og stráin, mosinn og litlu blómin.
Um hádegisbil, nánast á hverjum degi, rauk afi minn síðan upp til handa og fóta þegar hann gekk niður stigann í Gljúfrasteini, nýbúinn að baða sig fyrir hádegismatinn, því alltaf varð honum litið út um gluggann við miðjan stigann og alltaf blasti við honum sama sjón: Hestarnir hans Póra í Laxnesi að naga móana niður í rót.
Hann sagði þetta vera dýraníð og náttúruníð af verstu sort. En hann gat ekkert gert, sama hvernig hann fjargviðraðist og skammaðist og varaði fólk við. Því hestabóndinn var í rjúkandi feitum viðskiptum og sennilega með nógu góð tök á hreppsnefndinni til að þetta fengi að viðgangast ár eftir ár – og enn þann dag í dag.
Um daginn fór ég í fyrsta skipti í mörg ár í göngutúr í holtinu við æskuheimili mitt, nýkomin frá útlöndum.
Það var í einu orði sagt hræðilegt að sjá landið. Þarna voru ekki lengur móar. Þarna var skrælnað lyng í moldarflögum, ryðgaður gaddavír, hrossaskítur. Girðing, sem mig grunaði að væri ef til vill rafmagnsgirðing, risti holtið þvert við hliðina á breiðri reiðgötu sem breiddi úr sér í báða enda, nánast jafn breið og þjóðvegurinn. Hinum megin við girðinguna voru stærðarinnar lúpínubeð sem skriðu yfir moldarflæmin. En mín megin: Ekki neitt.
Mér lá við gráti.
Mikið mátt þú skammast þín, Póri í Laxnessi. Karlkjáni með dollaraseðlana upp úr rassskorunni á reiðbuxunum þínum. Skammastu þín fyrir að eyðileggja náttúru Íslands og skammastu þín fyrir að fara svona illa með hestana þína að bjóða þeim upp á strá og mold. Og skammist þið ykkar líka, þið sem hafði leyft þessu þríhrossi að komast upp með að eyðileggja svona óheyrilega mikið.
En þar sem ég sat þarna, á gamla Álfasteininum okkar afa, varð mér hugsað til Andra Snæs Magnasonar og Margrétar Sjafnar Torp, eiginkonu hans. Í höfði mér bergmálaði vissan um að þetta land þyrfti sér talsmann. Þetta land, Ísland. Því sannleikurinn er sá að svo víða ver enginn náttúruna.
Forseti Íslands getur ekki sagt að hann ætli bæði að vera forseti þeirra sem eyðileggja landið og þeirra sem vilja líkna því. Því landið, landið sjálft, þarf að eiga sér forseta. Forsetinn þarf að vera forseti landsins, ekki bara fólksins.
Þarna á steininum sá ég Margréti Sjöfn fyrir mér. Ekki bara af því að í tígulleika sínum líkist hún álfkonu heldur af því að einu sinni, fyrir mörgum árum, spurði ég hana af hverju hún hefði valið að vera hjúkrunarfræðingur frekar en læknir. Hún sagði að það væri af því að hún vildi hafa sem mesta nálægð við sjúklingana. Líkna þeim. Hún er manneskja sem hefur fylgt ófáum manneskjum síðasta spölinn og lifir fyrir að líkna.
Þau hjónin eru það bæði. Því svo lengi sem ég man eftir Andra Snæ hefur hann barist fyrir því að bjarga Íslandi frá Íslendingum. Körlum og kerlingum eins og Póra í Laxnessi sem eygja ekki náttúruna heldur bara peninga. Það sem hefur lifað og dafnað í þúsundir ára er skemmt á augabragði svo firrt fólk geti keypt sér nýtt sófasett eða farið í skemmtisiglingu, gott ef ekki stofnað póstkassafyrirtæki á suðrænni eyju og sent þangað féð sem ætti með réttu að vera burðarstoð samfélagsins.
Við hin vorum bara ungskáld með hor þegar Andri Snær var farinn að nota hverja dauða stund til að berjast gegn rányrkju. Berjast fyrir börnunum okkar, þá ennþá ófæddum; framtíðinni og landinu. Hann virkjaði fólk til að hugsa, skilja og sjá hvað væri að gerast í kringum það. Hann var aldrei að þessu í pólitísku hagsmunapoti heldur einungis til að bjarga því sem afi hans og amma höfðu kennt honum að væri svo dýrmætt að enginn fengi hönd á það fest.
Hann er ennþá að berjast fyrir því sem á sér fáa talsmenn en heldur okkur á lífi.
Ég hef séð til hans í útlöndum. Að halda fyrirlestra um þetta land sem hann elskar svo mikið að sumir hata hann. Og hann talar máli landsins með eindæmum vel. Frjór og beinskeyttur hugsjónamaður sem veit að réttur náttúrunnar á að vera jafn sjálfsagður og réttur manna. Starf hans í þágu náttúrunnar vegur jafn þungt og allt það sem Vigdís Finnbogadóttir gaf okkur, konum og körlum, með tilveru sinni.
Mig grunar að margir átti sig ekki á hversu mikið Andri Snær hefur nú þegar gefið okkur. Hann hefur, að mínu mati, vakið heilu kynslóðirnar til vitundar um náttúruna og tilverurétt hennar og fengið fólk til að hugsa hlutina upp á nýtt.
Ég veit að það er margt gott að segja um ýmsa aðra frambjóðendur í þessum forsetakosningum. En það væri rangt að kjósa ekki Andra Snæ eftir allt sem hann hefur gert fyrir landið og þá um leið samfélagið, innan lands jafnt sem utan, í bráðum tvo áratugi. Svo rangt.
Þannig er það nú bara.