Ég ek um með galopinn glugga í blíðunni hér nyrðra, hleypi inn ferskum vindum og syng hástöfum með Önnu Pálínu heitinni í ljóði Aðalsteins Ásbergs: „Sól mín sól, þú sækir illa að gömlum tröllum, gerir þau að grjóti, græskulaust er það.“ Kosningabaráttan vekur mér bjartsýni og ég finn þörf fyrir að skrifa um útþvælt efnið. Það er gott hvað við erum dugleg að tjá okkur. Þannig hreinsum við til í þjóðarsálinni og leggjum okkar af mörkum til skilgreiningar á þessu örlítið vandræðalega embætti sem okkur þykir svo vænt um.
Velkomin um borð
Starf forseta líkist flugfreyjustarfinu. Flugfreyjan heilsar slétt og felld í vel sniðnum en ópersónulegum búningi og útskýrir öryggisatriði sameiginlegrar vegferðar. Þegar vélin snertir fósturjörðina verður hún sameiningartákn sem býður okkur „velkomin heim“. Hún er erlendum gestum andlit þjóðarinnar enda á hún við þá samskipti á ýmsum tungum. Verði ókyrrð í lofti grípur flugfreyjan hljóðnemann og róar okkur með ræðu sinni. Þótt daglegt amstur snúist mikið um að bera í fólk veitingar og selja íslenska hönnun er flugfreyjan um borð í allt öðrum erindagjörðum. Flugfreyja er öryggisventill. Þegar hætta steðjar að breytist vel greidd flugfreyjan í þrautþjálfaðan bjargvætt. Auk þess er hún tengiliður við flugstjórnarklefann. Myndist gjá milli flugstjóra og farþega gerist flugfreyjan milliliður. Munurinn á starfi flugfreyju og forseta er einkum sá að starf hennar er niðurnjörvað með starfslýsingum en hans er nokkuð ómótað. Forseti gæti jafnvel átt það til að setjast í flugstjórasætið eða reyna að hafa áhrif á val áfangastaða.
Takk Ólafur Ragnar
Það er til siðs að þakka fólki störf í þágu samfélagsins. Ég kynntist Ólafi Ragnari hluta úr degi þegar forsetahjónin komu í fyrstu opinberu heimsókn sína í byggðarlagið. Dóttir mín fékk það ábyrgðarhlutverk að færa forsetafrúnni blómvönd og taka í hönd hennar. Þegar forsetinn rétti líka fram höndina vandaðist málið. Þetta var ekki í verkefnalýsingunni. Sú stutta brást við með því að setja hönd sína með áherslu aftur fyrir bak. Þá var hlegið. Á eftir var boðið til hádegisverðar á hótelinu. Auðmjúk forsetahjónin virtust hrærð og hissa yfir tilstandinu. Ég ylja mér við minningar um fólk sem gaf falleg fyrirheit og hreif okkur hvar sem atkvæðin lentu árinu áður.
Ég veit ekki nákvæmlega hvenær viðhorf mitt tók að breytast. Það var ekki þegar Ólafur Ragnar gerðist flugþjónn í einkaþotum heldur þegar ég smám saman tók eftir að hann var að tapa úr orðaforða sínum fornafni sem okkur hinum gagnast svo ljómandi vel þegar við tölum um okkur sjálf. Einn góðan veðurdag var Ólafur Ragnar hættur að nota orðið „ég“ um egó sitt heldur sagði ævinlega „Forsetinn“ með stórum staf og greini. Þá taldi ég setu hans á valdastóli orðna nægilega langa.
Ég óttast að minningarnar um forsetatíð Ólafs Ragnars verði eins og minningar mínar um verðlagið á Costa Rica. Þar borgaði ég fimmtán dollara fyrir gistingu en sjö dollara fyrir vatnsflösku á flugvellinum á leiðinni heim. Nú yfirfæri ég ósjálfrátt allar minningar um verðlag á Costa Rica á vatnsflöskuokrið. Það er hætta á að síðustu mánuðirnir í valdatíð Ólafs Ragnars verði þeir sem ég man, mánuðirnir þegar hann flaug of nærri sólu í vissu sinni um eigin ódauðleika.
Takk frambjóðendur
Líklega mun ég styðja breytingar um aukinn fjölda undirskrifta að baki forsetaframbjóðenda. Samt finnst mér eitthvað fallega íslenskt við að stelpan í næsta húsi bjóði sig fram. Ég vil þakka frambjóðendum fyrir að nenna að leggja meira á sig en við hin til umræðunnar um þróun forsetaembættisins og þar með lýðræðisins. Ég þakka sérstaklega þeim sem ekki styðjast við öflugar maskínur fyrir að sýna okkur hvernig hægt er að komast með málstað sinn nálægt stórum gjallarhornum samfélagsins. Þá vil ég þakka trúðnum sem afhjúpar valdið í þessari baráttu. Sem sönnum trúði er Elísabetu Jökulsdóttur dauðans alvara. Hún leiðir okkur fyrir sjónir hvernig eflast má og styrkjast með því að horfast í augu við fortíðina. Af henni geta margir lært eins og ég kem að síðar.
Ferskur andblær fylgir Andra, Guðna og Höllu þegar þau tala af vinsemd og virðingu um og við hvert annað. Ég vildi að þau væru öll með yfir fimmtíu prósenta fylgi í skoðanakönnunum. Gætu þau ekki tekið að sér embættið í sameiningu? Þau yrðu frábær forseti, Guðni með þekkingu sína á fortíðinni, Andri sem kann að lesa í framtíðina og Halla, hinn þrautþjálfaði fundarstjóri. Þau yrðu aldrei ein á forsetavaktinni. Af hverju búum við til embætti sem sagt er að þurfi ofurmenni til að sinna? Hvers vegna stofnum við yfirhöfuð til starfa sem eru svo ábyrgðarfull að freista þarf umsækjenda með ofurlaunum, hlunnindum, kaupaukum, eftirlaunum og fallhlífarsamningum? Af hverju er slíkum störfum ekki einfaldlega skipt á milli fleiri?
Eitthvað svo eldjárnskt
Hvernig á ég að ráðstafa utankjörfundaratkvæði mínu? Mér líður eins og ég sé að ákveða hvað eigi að vera í matinn í fjölskylduboðinu. Sumir eru hættir að borða kjöt og vilja ekki Davíð en aðrir eru ekki byrjaðir í veganfæðinu og fúlsa við Andra. Guðni er hlaðborð þar sem flestir finna eitthvað við sitt hæfi. Ég sá honum bregða fyrir á Akureyri um daginn. Fas hans minnir á Obama, þann fallega mann. Það er eitthvað alþýðlegt og eldjárnskt við Guðna Th. Jóhannesson.
Já, hjarta mitt tekur að hallast að Guðna. Það sem hann segir höfðar til heila míns en framsetningin til hjartans. Það fallega við forsetakjör er að það má velja með hjartanu. Ég er ein þeirra sem hreifst af Guðna eftir umtalaðan Kastljósþátt. Ég horfði hissa á jakkafataklæddan karlmann þora að sýna í beinni að hann var undrandi og særður eins og við hin. Seinna sá ég sama hrekklausa undrunarsvipinn þegar honum var borið á brýn að hafa kallað okkur fávísa alþýðu. Skýringin fannst í gömlu myndbandi þar sem Guðni í hlutverki fræðimanns tekur sér orðin í munn í aðstæðum þar sem allir heyra gæsalappirnar. Talandi um orðnotkun held ég að múlattaummæli Davíðs séu heldur ekki eins fordómafull og þau hljóma. Líklega hélt um pennann skáld sem stenst ekki að nota sterk orð en sér ekki alltaf fyrir afleiðingarnar.
Takk Davíð
Ég vil taka upp hanskann fyrir Davíð Oddsson eins og hann gerði einu sinni fyrir mig. Ég stóð á tröppum húss í miðbænum þegar ég missti annan leðurhanskann. Bar þar að ritstjóra Morgunblaðsins sem rétti mér hanskann og sagði kurteislega: gjörðu svo vel ungfrú. Ég sagði takk en bætti við í huganum: gamli maður. Þegar ég horfði á eftir honum velti ég fyrir mér af hverju mér finnast þau níu ár sem aðskilja okkur í aldri vera ljósár. Líklega stafar það af háum valdaldri hans. Hann hefur alltaf verið til sýnis opinberlega. Ég var bara barn þegar hann birtist á fjölunum í hlutverki kóngs og síðan hefur hann verið í hlutverki valdsmanns í hverju stykkinu á fætur öðru. Aumingja blessaður maðurinn, hugsaði ég þegar ég horfði á eftir honum hoknum af gömlu valdi, ekki vildi ég skipta við hann um fortíð.
En ég vil þakka Davíð hugrekkið að ganga sjálfviljugur fyrir landsdóm og auðvelda þjóðinni uppgjörið við sig. Davíð er af sumum sagður fórnarlamb hatursorðræðu. Það er röng orðnotkun af því að hatursorðræða er faghugtak um þá refsiverðu iðju að kynda undir hatri á minnihlutahópum. Það er ekki refsivert á Íslandi að gagnrýna valdhafa þótt vissulega sé hvimleitt hve oft eru notuð til þess hatursfull orð. En það er heldur ekki bannað að hata þótt fæstir kjósi að burðast með þá erfiðu tilfinningu að gamni sínu. Hatur samfélagsins í garð Davíðs er kýli sem þarf að stinga á. Þjóðinni líður ekki betur með það en honum sjálfum.
Sjálf íþyngi ég mér ekki með skoðunum á eðli Davíðs og sómakennd, framkomu og gjörðum en hjarta mitt veit að Davíð hefur vondan málstað að verja, nýfrjálshyggjuna sem kviknaði eins og engisprettufaraldur og eirir engum jöfnuði. En ég er bjartsýn í sólinni og spyr hve langt sé síðan þessi ósköp dundu yfir. Innan við þrjátíu ár! Og hvað er langt síðan stefnan strandaði með hruni? Innan við tíu ár! Það er stuttur tími í lífi þjóðar. Innan skamms verða þessi þrjátíu ár innan sviga í Íslandssögunni. Við furðum okkur á hvernig þetta gat gerst og setjum á svið söngleik eins og þann um Hundadagana og konung þeirra á landinu bláa.
Gömul tröll og ljósið
Sól mín sól, þú sækir illa að gömlum tröllum, syng ég akandi meðfram Dimmuborgum. Hingað streyma hundruð þúsunda til að sjá nátttröll sem þekktu ekki vitjunartíma sinn. Við vísum ekki í aldur og kyn þegar við nefnum orðin gamlir valdakarlar heldur til viðhorfa sem orðið hafa ljósinu að bráð.
Ég hélt að tilgangur Davíðs með framboði sínu væri að gera þjóðinni kleift að fyrirgefa honum. Ég bjóst ekki við að hann sækti sér ráðgjafa í Jötunheima heldur hélt ég að hann fyndi fólk eins og Elísabetu Jökulsdóttur sem gæti samið fyrir hann eftirfarandi ræðu: „Vissulega gerðust hræðilegir atburðir á vakt minni. Ég hef að sjálfsögðu grannskoðað þátt minn í atburðarásinni og dregið af honum lærdóm. Því kem ég ferskur inn í þessa baráttu.“ Með þessum orðum hefði Davíð opnað samtal við þjóðina. Í staðinn sjáum við mann sem segir að helsti kostur sinn sé að við þekkjum galla hans. Eiginkona hans lýsir yfir á forsíðu blaðs að hún hafi aldrei sóst eftir neinu. Er hún að ráðleggja okkur að vera jafn lítilþæg og kjósa Davíð sem hefur upplýst að hann nenni ekki að sinna flugfreyjuhlutverki forseta á alþjóðavettvangi heldur ætli að hanga á Bessastöðum og bjóða þangað fimmta hverjum manni úr símaskránni að skoða sig?
Framtíðin byrjaði með blíðunni í vor. Ég gleðst í birtu og yl, set punktinn fyrir aftan efnið og ég held til utankjörfundar að ráðstafa þessu atkvæði sem er eitt það dýrmætasta sem ég á. Ég er búin að ákveða hvað ég ætla að kjósa og ekki að kjósa. Gleymið ekki að mæta á kjörstað!