Nýsköpun er undirstaða framþróunar í öllum atvinnugreinum. Í orkuiðnaði hefur umhverfið fyrir frumkvöðla sjaldan eða aldrei verið betra og þar er Startup Energy Reykjavik viðskiptahraðallinn í lykilhlutverki. Landsvirkjun er stoltur bakhjarl verkefnisins, ásamt Arion banka, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og GEORG, rannsóknarklasa í jarðhita. Á undanförnum tveimur árum hafa 14 verkefni tekið þátt í Startup Reykjavik Energy og árangurinn verið framar björtustu vonum, en Icelandic Startups og Iceland Geothermal reka hraðalinn.
Orkuiðnaðurinn stendur á tímamótum. Sterkir innviðir, ör tækniþróun og öflug innlend þekking auk vaxandi eftirspurnar eftir íslenskri raforku skapa fjölmörg tækifæri fyrir hugvitsama frumkvöðla. 100% endurnýjanleiki í íslenskri raforkuvinnslu færa landinu enn frekari möguleika sem önnur lönd búa ekki við.
Undanfarin 50 ár hafa Landsvirkjun, Landsnet og önnur fyrirtæki í orkuiðnaði byggt upp innviði til að þjóna kröfuhörðum alþjóðlegum viðskiptavinum og almenningi í landinu. Virkjanir, raforkuflutningskerfi, útflutningshafnir og fleiri innviðir hafa stórbætt aðstæður til þess að framleiða fjölbreyttar og verðmætar útflutningsvörur hér á landi.
Samhliða hefur hér jafnframt orðið til mikil og sérhæfð þekking á öllum þáttum raforkuvinnslu. Þessi þekking skapar nú grunn fyrir vaxandi þekkingarútflutning þar sem Íslendingar taka þátt í ýmsum framkvæmda- og þróunarverkefnum á sviði endurnýjanlegrar raforkuvinnslu víða um heim.
Á undanförnum árum hefur ásókn íslenska raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum aukist til muna og nú er svo komið að eftirspurn er orðin meiri en framboð. Mörg alþjóðleg fyrirtæki eru áhugasöm um að hefja fjölbreytta starfsemi hér á landi með nýtingu íslenskrar raforku, auk annarra strauma frá jarðvarmavirkjunum.
Þrátt fyrir miklar framfarir undanfarinna ára má gera betur. Hægt er að draga lærdóm af þeim árangri sem náðst hefur í sjávarútvegi, þar sem útflutningsverðmæti byggð á annarri takmarkaðri auðlind hafa stóraukist undanfarin á. Nýsköpun í vinnslu, vöruþróun, flutningum, öflugri sölu- og markaðssetningu og fullnýtingu hafa skapað tækifæri tengd fiskveiðum fyrir fjölmörg fyrirtæki og frumkvöðla. Nú er svo komið að tæknin sem hefur orðið til við að þjónusta sjávarútveginn er sjálf orðin stór útflutningsvara.
Landsvirkjun vill stuðla að því að hér sé sterkt stuðningsnet fyrir frumkvöðla í greininni sem vilja byggja á þeim mikla árangri sem hér hefur náðst. Við sjáum mikil tækifæri í eflingu nýsköpunar í orkuiðnaði hér á landi og styðjum háskólana til þess að efla nám og rannsóknir á endurnýjanlegum orkugjöfum – enda er menntun og þekking undirstaða öflugs nýsköpunar- og þróunarstarfs. Landsvirkjun rekur þannig Orkurannsóknasjóð og er þátttakandi í klasasamstarfi Iceland Geothermal, auk þess að standa að Startup Energy Reykjavik.
Með þessum stuðningi vill Landsvirkjun hvetja frumkvöðla í orkutengdri nýsköpun til að stíga fram og koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Framtíðin er björt og tækifærin eru víða.
Höfundur er framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.