Ísland á að heita besta landið í jafnrétti kynja. Það segja allavega alþjóðlegir staðlar og stoltir ráðamenn á tyllidögum. Þegar búið er að leggja saman árangur kvenna í stjórnmálum, þátttöku í atvinnulífi, menntun, heilbrigðisþjónustu og efnahagslegan jöfnuð þykjum við best. Samt er einungis búið að brúa rúmlega 80 prósent af kynjabilinu á Íslandi samkvæmt Alþjóðaefnahagsráðinu, svo að í rauninni erum við bara skást.
Staðan er þessi:
Ríkisstjórninni er stýrt af tveimur körlum, og var lengst af skipuð körlum að meirihluta til, þótt nú síðustu mánuði hennar hafi kynjahlutföllin verði jöfn. Forseti Alþingis er karl, og forseti Íslands er karl. Það lítur fátt út fyrir að það muni breytast með kosningunum um helgina.
Kjarninn hefur undanfarin þrjú ár tekið saman stöðu kynjanna í fjármálageiranum, og þar er staðan vægast sagt skökk. Í síðustu úttektinni frá því í vor kom í ljós að af 87 æðstu stjórnendum fyrirtækja í íslensku fjárfestinga- og fjármálakerfi eru sjö konur. 80 karlar, sjö konur. Það þýðir níu prósent konur og 91 prósent karlar.
Ein kona stýrir banka á Íslandi og ein sparisjóði. Ein kona stýrir lánafyrirtæki, tvær lífeyrissjóðum, ein Framtakssjóði Íslands, og einu skráðu félagi á markaði er stýrt af konu. Þetta þýðir meðal annars að engu verðbréfafyrirtæki er stýrt af konu og engu orkufyrirtæki eða óskráðu tryggingafélagi. Sex konur eru stjórnarformenn í skráðum fyrirtækjum og tíu karlar. Svo er forstjóri Kauphallarinnar karl, það eru líka seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og aðalhagfræðingur Seðlabankans. Og þrátt fyrir að lög séu í gildi um að hlutföll hvors kyns í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn væri að minnsta kosti 40 prósent er það langt frá því að vera tilfellið. Í annarri samantekt Kjarnans kom fram að af 982 stjórnarmönnum í 270 stærstu fyrirtækjum landsins væru 665 karlar og 317 konur. Það þýðir 32% konur og 68% karlar. Dæmigerður stjórnarmaður í íslensku atvinnulífi er karlmaður á sextugsaldri.
Óþolandi og óásættanlegt
Jafnrétti hefur nefnilega ekkert verið náð á Íslandi frekar en annars staðar og í gær fengum við enn eina harkalega áminningu um það. Hjá Bandalagi háskólamanna jókst kynbundinn launamunur nefnilega milli ára. Árið 2016 er það veruleikinn hjá háskólamenntuðum konum. Þær eru að dragast aftur úr þegar allir héldu að þróunin væri öfug. Það er svo óþolandi að það nær engri átt.
Það sem meira er, launamunurinn minnkar hjá einkafyrirtækjum og sjálfstæðum atvinnurekendum en eykst hjá ríkinu og sveitarfélögum, reyndar með Reykjavík sem undantekningu. Stærstu vinnuveitendur landsins, og þeir sem ættu í raun að vera í fararbroddi þegar kemur að þessum málum, meta karla meira en konur.
Það er ofboðslega auðvelt og gaman að hreykja sér af jafnréttisárangrinum á tyllidögum, vera He for She og einn fremsti karlfemínisti heimsins og ég veit ekki hvað og hvað. En þetta er samt staðan hjá ríkinu. Karlar fá hærri laun en konur af því að þeir eru karlar.
Þegar þeir sem bera ábyrgð á lagasetningu sem á að tryggja jafnrétti gera ekki betur en þetta, hvað þá? Við vitum líka að lagasetning dugar ekki til, annars væri jafnrétti löngu náð, það þarf viðhorfsbreytingu til að þetta lagist. En þá komum við að því: hvaða trúverðugleika hafa þessir aðilar þegar þeir hvetja aðra til dáða?
Launajafnrétti eitt stærsta jafnréttismálið
Jafnrétti á vinnumarkaði, þar með talið launajafnrétti er eitt stærsta jafnréttismálið. Launajafnrétti teygir anga sína svo víða, því peningar skipta gríðarlegu máli í samfélaginu. Ójafnrétti í launum getur skapað valdaójafnvægi, hvort sem er inni á vinnustöðum, á heimilum eða bara í samfélaginu.
Bara svo eitt dæmi sé tekið er launajafnrétti forsenda þess að við getum bætt foreldrajafnrétti á Íslandi. Ef við hættum að borga konum minna en körlum eru líkur á því að karlar hætti að sleppa fæðingarorlofinu sem þeir eiga lögverndaðan rétt á. Ef karlar verja meiri tíma með börnunum sínum græða allir. Ef foreldrar bera jafnari byrðar á heimilinu eru líka meiri líkur á því að konur þurfi ekki í eins miklum mæli að vera í hlutastörfum, sem bæði hefur áhrif á óleiðréttan launamun og leiðréttan því ábyrgð kvenna gagnvart heimili er iðulega notuð sem afsökun fyrir lægri launum.
Nú þurfa stjórnvöld og sveitarfélög að svara til saka. En það er ekki nóg. Það verður að gera eitthvað í málunum. Því stjórnvöld geta malað um jafnréttismál eins og þau vilja og montað sig af árangrinum á tyllidögum, en á meðan svona er staðið að jafnréttismálum hjá þeim sjálfum verður þetta tal aldrei neitt annað en innantómt og innistæðulaust hjal.