Í minni tíð hefur ungt fólk jafnan haft góðar ástæður fyrir því að nenna ekki á kjörstað. Enginn séns að hrifsa völdin af Óla, lítið vit í að ómaka sig. Nú er hann farinn. Það er gomma af frambjóðendum í þetta skiptið, þó að þeir kunni að virðast mishyggilegir. Við erum með allan skalann. Miðaldra pabbar, gamlir gróðapungar, crazy cat ladies og líka bara eðlilegt fólk. Okkur hefur bara vantað einhvern alvöru hvata til að koma okkur í þennan kjörklefa og hann er kominn.
Við höfum öll heyrt hundrað sinnum að kosningaréttur sé ekki sjálfgefinn en við vitum það alveg. Þó að auðvitað sé mikilvægt að heiðra baráttu formæðra okkar með því að kjósa, er það ekki næg ástæða. Við þurfum bara einhvern almennilegan til að kjósa. Núna er þetta samt frekar einfalt reikningsdæmi. Maður þarf ekkert að brenna fyrir þessu. Bara velja þann skásta, þess vegna. Ef þú vilt breytingar, kjóstu það. Ef þú vilt nýjan Ólaf, kjóstu hann.
Á laugardaginn eru í alvörunni fyrstu forsetakosningar í tvo áratugi þar sem okkar kynslóð getur haft áhrif. Ef þér er sama um kosningaréttinn sem þú fékkst í vöggugjöf, fínt, slepptu því þá að mæta. En þá afsalarðu þér líka umkvörtunarrétti á Twitter og Facebook næstu fjögur árin. Bannað að kvarta þegar forsetabréfin verða í comic sans. Bannað að kvarta þegar forsetinn mætir í áramótaávarpið með fyndinn hatt. Bannað að kvarta þegar Bessastaðakirkja opnar og stranglega bannað að kvarta yfir vikulegu tribute tónleikunum á Besstastaðatúni. Bannað að kvarta.
Ólafur hefur setið alla mína ævi og hann hefur aldrei skipt mig eða önnur ungmenni neinu máli. Hann var bara þarna. Nú er öldin önnur, bókstaflega, og mér finnst að allir verði að láta til sín taka. Það er gömul tugga að kjörsókn ungmenna sé ábótavant en sú er raunin. Sérstaklega núna. Við verðum að fatta að það er ekki nóg að væla á Twitter, þó að það sé geggjað. Hér skipta atkvæði okkar raunverulegu máli. Ég sjálfur ætla að kjósa Andra Snæ af því að ég vil sjá eitthvað gerast. Ég skipa þér hins vegar að fara og kjósa það sem þér finnst gáfulegast. Bara að þú fylgir hjartanu og kjósir þann eða þá sem gerir landið okkar að betri stað, því það er í alvörunni ekki langt þangað til við erfum það.