Það er bjart yfir nýja forsetanum okkar og fjölskyldu hans. Loksins börn, vor og líf á Bessastöðum og drengileg manneskja í embættinu sem fólk er upp til hópa ánægt með – að minnsta kosti enn sem komið er – líka margir sem kusu einhvern annan en Guðna, eins og þessir sjö, vinir og fjölskyldumeðlimir, sem ég hitti á sunnudaginn og kváðust allir hafa kosið einhvern annan en væru samt hæstánægðir með Guðna. Reyndar er svolítið gaman að þessu dálæti fólks á honum – Guðna sínum.
Við mæðginin röltum að heimili Guðna og Elizu á sunnudaginn þar sem fólk fagnaði fjölskyldunni og einhver hafði á orði að nú vantaði sárlega lúðrasveit. En þó að þarna væri engin lúðrasveit þá sveif fallega alþýðlegur hátíðleiki yfir vötnum og fimm ára sonur minn vandaði sig við að lagfæra hipsterahattinn á hausnum áður en hann klappaði ákaft fyrir framtíðinni, eins og allir hinir.
Ýmsar raddir
Síðasta spölinn í kosningabaráttunni voru ýmsir (m.a. undirrituð) farnir að hafa á orði þeim þætti Guðni óþarflega passívur, hann færi jafnvel dult með skoðanir sínar og steininn tók úr síðasta kvöldið fyrir kosningar þegar mörgum þótti hann fara heldur eindregið jákvæðum orðum um Brexit. Aðrir bentu á að Guðni hefði þurft að sæta ómaklegri gagnrýni Davíðs Oddssonar út af Evrópusambandinu og svarið hefði átt að snúa upp á þá gagnrýni.
Þeir voru líka ófáir sem bentu á bækur hans og fræðimannastörf til marks um að þarna færi engin skoðanadula. Og strax daginn eftir að úrslitin í forsetakosningunum urðu ljós voru einhverjir Facebook-vinir á því að þarna væri Guðni aftur kominn í sitt reffilega frumelement; orðinn gamli, góði Guðni.
Hvernig verða næstu kosningar?
Það verður forvitnilegt að fylgjast með Guðna í þessu starfi sem allir hafa skoðanir á. Hann virðist vera vandaður og hógvær maður með bein í nefinu og jafnvel þó að maður hefði viljað sjá hann grípa boltann á lofti og ræða ýmis mál sem lúta að brýnum umhverfismálum við Andra Snæ og að sama skapi bera á borð margþættari greiningu á Brexit, sem hefur meðal annars verið knúið áfram af varhugaverðum þjóðernisöflum sem eiga rætur sínar í hættulega öflugri undiröldu í stjórnmálum Evrópu, þá er kannski ómaklegt að bauna á fólk á síðustu metrunum í kosningabaráttu sem náði aldrei því marki að verða málefnalega djúp.
Kannski af því að það voru svo margir í framboði en þó helst vegna þess að það er enginn þáttur helgaður stjórnmálum í sjónvarpinu, þáttur þar sem ein spurning leiðir af sér þá næstu – og svo framvegis. Þar sem viðmælendur þurfa að taka fortíðina með í reikninginn þegar þeir tala um framtíðina, kafa á djúpið í svörum sínum og spila rökræðuborðtennis við aðra viðmælendur.
Nú líður (vonandi) senn að alþingiskosningum, þeir sem ég hef spurt síðan ég kom til landsins virðast nokkuð vissir í sinni sök að það verði kosin ný ríkisstjórn í haust. En maður spyr sig. Á að blása aftur til kosninga án þess að forsvarsmenn Ríkissjónvarpsins fari á stúfana til að finna hæft fólk til að stýra alvöru þætti um stjórnmál?
Óttastjórnun
Um daginn hitti ég manneskju sem er vel kunnug innanbúðarmálum í Efstaleitinu og spurði viðkomandi út í þennan átakanlega skort á þætti í öflugasta fjölmiðlinum um það sem þó ræður lífskjörum okkar og framtíð: stjórnmál bæði hér heima og á alþjóðavettvangi.
Þessi ágæti aðili setti upp kyndugan svip og lækkaði eilítið róminn þegar hann svaraði eitthvað á þessa leið: Það verður bara að segjast eins og er, að það er svo mikill ótti hér innanhúss við enn eina árásina á Ríkisútvarpið að mönnum finnst ekki á það hættandi að byrja núna með slíkan þátt.
Ef satt skal segja hef ég aldrei heyrt brýnni ástæðu fyrir slíkum þætti. Því hvað er eggið og hvað er hænan? Ef stjórnvöld þagga óbeint niður í allri alvöru umræðu í Ríkisútvarpinu hver á þá að standa vörð um ólíkar en gagnrýnar raddir þjóðar og pallborð þeirra? Ágerist þá ekki bara óttastjórnun yfirvalda þangað til sér ekki fyrir endann á henni?
En sem betur fer eru kosningar í haust – og við erum loksins búin að fá nýjan forseta sem markar endalok tímabils þar sem gamlir kóngar virtust öllu ráða – svo ég ætla að leyfa mér að vera vonglöð.
Stærsta gjöfin
Samt, á sama tíma, vonast ég svo innilega til þess að þeir sem fara með stjórnina í Ríkisútvarpinu rífi sig úr viðjum hinnar ósýnilegu ritskoðunar, kalli til sitt hæfasta fólk, bæði utan stofnunarinnar og innan hennar, og búi til nýjan þátt um stjórnmál til að senda út að minnsta kosti einu sinni í viku, bæði fyrir og eftir kosningar. Öðruvísi verða þessar kosningar aldrei vitrænar og það er ekki seinna vænna en að byrja núna.
Ríkisútvarpið hefur þá einu skyldu að þjóna þjóðinni og þetta er stærsta gjöfin sem það getur gefið henni, hlutlaus vettvangur þar sem ólíkar raddir kryfja allt sem viðkemur lífskjörum hennar og sambandi við umheiminn.
Þeir sem vita ekki betur en að saka röddina okkar, Ríkisútvarpið, um hlutdrægni afhjúpa fátæklega heimsmynd. Þeir hinir sömu ættu að gefa því séns að nýta fleiri tungumál í daglegu lífi og venja sig á að hlusta á umræðu í skandinavískum, þýskum og breskum sjónvarpsþáttum. Vitrænar umræður sem þaulreyndir spyrlar leiða og leyfa þá öllum röddum að heyrast og afhjúpa sig um leið.
Gallinn er bara sá að í hvert skipti sem maður horfir á góðan umræðuþátt á danskri eða þýskri sjónvarpsstöð hellist yfir mann eymslatilfinning yfir því að Íslendingar skuli vera sviknir um annað eins.
Við höfum nóg af vatni og fiski til að vera heilbrigð en við þurfum líka að vera heilbrigð í hugsun og til þess að vera það þurfum við að lifa við upplýsta, líflega, djarfa, leitandi, fjölbreytta, hugaða, margslungna og lýðræðislega umræðu alla daga, alltaf.
Fullnægja hugans
Reyndar er nóg af fólki hér á landi tilbúið til að segja að það hafi heyrt allt sem það þurfti að heyra í nýliðnum kosningum, samtíning úr hinum og þessum miðlum, og að það fái ábyggilega að heyra nóg fyrir næstu. Við allt það ofur nægjusama fólk vil ég segja: Þið vitið ekki af hverju þið missið! Hugurinn fær ekki fullnægju nema upplifa örvun úr ólíkum áttum á sama augnablikinu, nokkuð sem sjónvarpið getur miðlað á einstakan hátt.
En, nóg um tuð, við státum af glænýjum forseta, íslenska karlalandsliðið í fótbolta er búið að fanga undurfagrar stjörnur á himinhvolfinu sem engan óraði fyrir að væru innan seilingar, bráðum verður ný ríkisstjórn kosin, úti er fallegasti tíminn á árinu og fuglarnir vekja okkur – það vantar bara bitastæðan þátt um stjórnmál í Ríkisútvarpinu.
Og það sem allra fyrst, því nú eru nýir tímar. Vor á Bessastöðum.