Áhyggjudúkkur á leið í kosningar

Auglýsing

Í upphafi 21. aldar, þegar ártalið 2000-og eitthvað hljómaði ennþá eins og í vísindaskáldsögu, gaf Steinar Bragi út skáldsöguna Áhyggjudúkkur hjá bókaforlaginu Bjarti – sem var þá smartasta bókaforlagið, rétta gallabuxnamerkið fyrir rithöfund að merkja sig með. Og ekki að ástæðulausu því hjá Snæja í Bjarti virtist eitthvað nýtt stöðugt vera í fæðingu og þar var eftirsóknarvert að vera meðan hippalegi forleggjarinn leitaði að klinki í vösunum þegar hann mætti höfundunum sínum á götu. Seinna varð hinn hippalegi Snæji – sem var eitthvað allt annað en hippi – að áberandi farsælum bókaútgefanda í Kaupmannahöfn þar sem hann sölsaði undir sig alþjóðlega metsöluhöfunda af fádæma viðskiptaviti, dönskum forleggjurum til töluverðrar mæðu. 


Allt átti jú eftir að breytast svo mikið, árið 2000- og eitthvað, og eftir á séð virðist manni Steinar Bragi hafa verið að hlæja að hinum grunlausu þegar hann skrifaði Áhyggjudúkkur. Öllum fullorðnu jólabörnunum sem trítluðu græskulaus um í jólainnkaupunum og létu pakka inn jólagjöfunum fyrir sig í íslensku deildinni í Bókabúð Máls og menningar, maríneruð í sykursætri lífssýn áranna níutíu og eitthvað; trúnni á að héðan í frá yrði heimurinn á endalausri uppleið.  

Auglýsing

Hryllingurinn í hversdeginum

Sögusvið bókarinnar er téð bókabúð og næsta nágrenni í mestu jólaösinni, hún gerist á nokkrum klukkustundum og söguhetjurnar eru margar, það er stöðugt farið úr einum kolli yfir í annan í andrúmslofti þrungnu jólastemningu, sódómu, björtum englaröddum og óhugnaði.  Þannig er hún miklu frekar tilfinning en saga. Verkið er blendingur af eins ólíkum skáldsögum og Býkúpunni eftir Camilo José Cela og Aulabandalaginu eftir John Kennedy Toole – en þó fyrst og fremst eitthvað sem gæti aðeins orðið til í kollinum á Steinari Braga; afmörkuðu svæði þar sem einstök samsetning öreindanna lýsir upp hryllinginn í hversdeginum. 

Ef ég fer rangt með eitthvað í lýsingunum á þessari bók er það vegna þess að ég hef ekki meikað að opna hana síðan. Hún fylgir mér samt ennþá svo jólin verða aldrei söm. Hún afmeyjaði jólin – svo þau urðu gredda græðginnar.

Ógnin færist nær

Öll mín unglingsár vann ég í jólafríinu við að afgreiða bækur í Bókabúð Máls og menningar. Jólin voru jólabókaflóðið fyrir mér; stemningin í bókabúðinni seint á Þorláksmessukvöldi. Þangað til Steinar fyllti leiksviðið af fólkinu sem ég kjaftaði góðlátlega við yfir búðarborðið og bauð gleðileg jól – nema í bókinni var það ýmist í kynlífsorgíum, fullt af greddu & græðgi, barnslega hégómlegt eða á tali við afgreiðslumann með sjúklegan áhuga á hinum alræmdu fjöldamorðingjum, West-hjónunum; að því virtist venjuleg hjón í Englandi, Fred og Rosemary, sem dunduðu sér við að myrða fólk mitt í hvunndagsvenjunum. 


Eitthvað á þessa leið var bókin. Gott ef það var ekki úlfahjörð á leið til borgarinnar, ógn sem færðist stöðugt nær og bárust óljósar fregnir af í sjónvarpinu. Í dag er ég ekki viss um hvort úlfahjörðin hafi verið í bókinni eða hvort upplifun mín af bókinni bjó til úlfahjörðina. En það breytir ekki því að úlfahjörðin sækir ítrekað á mig. Ég hugsaði um hana í Hruninu þegar lyfjaskortur blasti við eða þegar Icesave vomaði yfir okkur, rétt eins og ég hafði hugsað um hana þegar fregnir af fuglaflensunni tröllriðu okkur.  Tilhugsunin um mögulega ógn veldur kvíða og um leið birtist másandi úlfahjörðin á hraðahlaupum.

Úlfar í Evrópu og Bandaríkjunum 

Úlfahjörðin hefur verið svo ágeng síðustu mánuði að það jaðrar við þráhyggju. Varla að maður opni netið, dagblað eða kveiki á sjónvarpinu að úlfahjörðin birtist ekki í sjónhendingu. Í þýsku fréttunum brosir lagleg frauka – Frauke Petry – með snotra klippingu í smekklegri dragt. Af myndinni að dæma sjarmerandi kona með syfjulegt augnaráð og vinalegt bros en er í raun formaður öfgaflokksins AFD, flokki sem mælti með því að skjóta á flóttafólk við landamærin. Hún brosir því flokkurinn er á hraðri siglingu. Hver veit nema hún gæti orðið kanslari einn daginn? Já, úlfahjörðin er á stöðugri hreyfingu. 


Í Bandaríkjunum er helst í fréttum að hvirfilbylur nálgast: Donald Trump gæti orðið forseti heimsins – þó að opinberanir síðustu daga hafi dregið talsvert úr líkunum á því er möguleikinn ennþá til staðar. 

Mannhatari með alla helstu eiginleika einræðisherra. Í sjónvarpinu eru stöðugt sagðar fréttir af honum um leið og skýringarmyndir af hvirfilbyl, sem tortímir öllu sem á vegi hans verður, sjást smækkaðar í horninu. Hvirfilbyljum á eftir að fjölga, þeir eiga eftir að fara víðar og verða meiri – verði ekkert að gert til að sporna við loftlagsmengun, segja vísindamenn. En Donald Trump hvetur fólk til að hræðast Mexíkana og fólk kennt við trú á Múhameð frekar en náttúruöfl, svipað og Frauke Petry sem gerir Grýlu úr litlu barni á flótta undan dauðanum.

Hvern hefði órað fyrir vinsældum þessara frambjóðenda þegar við skáluðum fyrir því að öld öfganna væri liðin – búin að heyra svo mikið um seinni heimsstyrjöldina að hún var orðin klisja.

Snákaolía

En það eru ekki bara úlfarnir sem hreyfast. Allur heimurinn er á hreyfingu. Valdahlutföll færast til, stjórnskipulag það sem við köllum lýðræði á víða á brattann að sækja og á svo marga vegu, fólksflutningar eru bensín í popúlistapólitík og breytingar sem fylgja bæði samruna menningarheima og ævintýralega miklum tækniframförum virðast valda ótta við að glata því gamla; veröld sem var og fólk þekkti (eða fannst það þekkja). Þessi ótti gerir marga ginnkeypta fyrir grunnhyggnum snákaolíuræðum frambjóðenda öfgaflokka í helstu lýðræðisríkjum heimsins – sem fá endalaust forsíður fjölmiðlanna. 

Heimurinn á morgun verður allt annar heimur en við héldum að hann yrði um það leyti sem Bill Clinton og Monica Lewinsky voru helsta fréttaefni heimsins. Hann er að vissu leyti betri, í fjölmiðlum dagsins í dag birtast greinar um Lewinsky sem fórnarlamb feðraveldis og neteineltis, hugtök sem fæstir þekktu þarna níutíu og eitthvað. En það breytir ekki því að óvissan er svo mikil að okkur sundlar ef við lítum ofan í hyldýpi hennar. Þungavigtar breytingar í heiminum slíkar að þörfin fyrir ábyrgðarfulla, gagnsæja stjórnarhætti helst í hendur við þörfina fyrir vandaða, gagnrýna og margþætta fjölmiðlun og vex með hverjum deginum sem líður.

Dallas í hverri viku

Mitt í allri þessari óvissu hefur kastljós flestra íslenskra fjölmiðla, dag eftir dag, beinst að innanflokksátökum í Framsóknarflokknum. Litlum flokki í eilífri oddastöðu. Sem þrátt fyrir smæð sína hefur plægt jarðveginn fyrir svo inngróna hagsmunapólitík að það mun taka næstu kynslóðir áratugi að hreinsa burt arfann, fái þær tækifæri til þess. 

Auðvitað klikkum við áköf á þessar fréttir og fylgjumst með litríkum karakterum í Framsókn af svipaðri græðgi og foreldrar manns biðu eftir næsta Dallasþætti þegar ég var lítil. Það er jú og verður alltaf spennandi að fylgjast með meingölluðu fólki með of mikla peninga og of mikil völd. 

Við verðum að vita allt um Sigmund Davíð og fylgismenn hans norður í landi hjá flokki sem hefur verið stjórnað úr einhverju kaupfélagi, að mati jarðbundnasta fólks. Fylgismenn hans eru enda áhugaverðir, fólk sem virðist hafa lesið yfir sig af Íslendingasögunum – ef það hefur þá yfir höfuð lesið eitthvað annað en lesendabréf Morgunblaðsins. 

Fólk í fréttum

Maður les stanslaust um þetta fólk og veit innst inni (þrátt fyrir Davíð Oddsson og allt það) að árið níutíu og eitthvað hefði hugmyndin ein þótt fáránleg að stjórnmálamenn sem höguðu sér svona skringilega, svo vægt sé til orða tekið, gætu orðið eins voldugir í unga lýðveldinu og raun bar vitni á nýliðnu kjörtímabili. 

Les fregnir af pólitík eins og dálkinn Fólk í fréttum – því þetta er nánast orðið hið eitt og sama. Skemmtifréttir af fólki að gera lygilega fáránlega hluti. En fréttirnar eru ekki bara fréttir, þær eru þess megnugar að búa til heimsmynd og skapa þannig veruleika. Það veit til dæmis Pútín og nýtir sér fjölmiðla óspart til að lita heimsmynd borgaranna, bæði í Rússlandi og utan þess. Og það veit líka Donald Trump.

Endalaus fréttaflutningur af Framsókn skrumskælir veruleikann svo að okkar margslungna samfélag virðist hringsnúast um flokkinn – og gerir það á endanum. Allt verður ankannalegt og kosningarnar framundan martraðakenndar, rétt eins og jólainnkaupin eftir lesturinn á Áhyggjudúkkum. 

Allt getur gerst

Raunar er stjórnmálamenningin orðin frekar furðuleg eftir kjörtímabil þar sem fáránleg spillingarmál stjórnmálamanna hafa fengið að dumma á lágum hita og fólk í ríkisstjórnarflokkunum hefur ítrekað sagt hluti sem sæma ekki ráðamönnum í lýðræðisríki – ýmislegt sem stenst ekki nánari skoðun – en samt fengið að komast upp með það. Fyrir vikið hætta stjórnmálin að meika sens. Þau verða rugl. Og eftir nokkrar vikur getur allt gerst. Allt. 

Áhyggjudúkkurnar gætu vaknað upp í martröð, mitt í öllum dægilega vanaganginum, við það að tvö eftirlæti fjölmiðlanna – sem eiga það sameiginlegt að víla ekki fyrir sér að hagræða staðreyndum á opinberum vettvangi – verði orðin nægilega vel nærð af athyglinni til að fagna sigri: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson orðinn fjármálaráðherra. Og Donald Trump forseti Bandaríkjanna. 

Þá verða úlfarnir komnir til byggða. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiSleggjan
None