Auglýsing

Ólétt kona stendur fyrir framan Alþingi Íslendinga með börnin sín; tvö við hlið sér, það þriðja er ennþá í maganum. Læknir hefur staðfest það við Stundina að hún þurfi að fara í keisaraskurð svo bæði móðir og barn fái lifað fæðinguna af. 

Hún heitir Regina Osaramaese og hún biðlar til Íslendinga að fá að dvelja áfram á Íslandi og eiga ófædda barnið þar. Stendur úti í veðrum og vindum meðan þingmennirnir þæfa málin, fá köku með kaffinu í mötuneytinu og halda síðan áfram að þræta á móðurmáli sínu, því ástkæra ylhýra sem börnin hennar hafa vaxið upp við, það næstelsta enda fætt á Íslandi. 

Regina bíður þess að einhver svari. Eldri börnin ókyrrast. Hvað eiga þau að bíða þarna lengi? Hún neyðist til að láta þau bíða lengur. Því ef þau gefast upp verða þau send þangað sem enga hjálp er að fá og þar með gæti verið úti um fjölskylduna. Sjálf á hún ekkert heimaland því hún hefur ekki búið í Nígeríu, landinu sem hún fæddist í, síðan hún var sjálf sex ára og flúði þaðan. 

Auglýsing

Einhver veginn svona er þetta. Hún hrópar í þögn. Það svarar enginn. Þögnin er ærandi. 

Bara ef

Regina er ein af mörgum. Sögurnar óteljandi. Sögur af fólki sem á sér hvergi skjól. Sögur af börnum sem deyja – en hefðu ekki þurft þess. Þau hefðu getað lifað, bara ef ... Ef. 

Undanfarið hafa birst óþægilega margar myndir af dánum börnum. Börnum á flótta sem lifa ýmist ekki flóttann af eða þá hinar hræðilegu aðstæður sem oft bíða þeirra loks eftir lífshættulega svaðilför. Það birtast jafnframt myndir af sundurtættum börnum á stríðsátakasvæðum svo engum ætti að dyljast ástæðan fyrir því að forráðamenn þeirra leggja allt þetta á sig í von um að eygja björgun einhvers staðar. 

Börnin flýja ýmsar aðstæður, tilviljun ræður hver þeirra ná öruggri höfn og öðlast aftur eitthvað í líkingu við heimili. Fæst gera það. 

Til hvers að kvelja sig?

Við sem eigum það sameiginlegt að mynda og móta íslenskt samfélag fórnum mörg hver höndum yfir ástandinu í heiminum og kvörtum yfir vanmættinum sem leitar á okkur þegar við skrollum niður Facebook og hrökkvum í kút við að sjá skyndilega mynd af dánu barni innan um tilkynningar um exótísk ferðalög, fermingar og stöðuhækkanir. Við kvörtum og flýtum okkur að skrolla áfram niður svo ekki sé of mikið á okkur lagt. Til að við megum halda geðheilsunni, við eigum jú fullt í fangi með það. Það er ekki eins og við getum ein og sér bjargað heiminum og til hvers þá að kvelja sig með þessum myndum?

Samfélagið yppir öxlum

Við vitum að fleiri börn eiga eftir að deyja á morgun. Börn sem gætu fengið að lifa. Bara ef ... 

Við eigum eftir að halda áfram að skrolla framhjá þeim á netinu því okkur finnst við ekki mega við því að sjá fleiri barnslík. Við skrollum og hnussum: Þetta net! Fullt af öllu, samt engu. Náum jafnvel að telja okkur trú um að dánu börnin séu hugarburður okkar. 

Er þetta ekki bara allt hugarburður? Í það minnsta virðist þetta vera of mikil fjarstæða til að vera satt. Ólétta konan sem stendur með kornung börnin sín fyrir framan Alþingishúsið hlýtur að vera hugarburður. Því annars hefur eitthvað misheppnast herfilega í fermingarfræðslu landans, hvort sem hún er kennd við Kristni eða siðmennt. 

Getur það í alvöru staðist að rúmlega 300.000 manneskjur yppi öxlum andspænis kasóléttri móður sem veit ekki hvort hún og barnið hennar eigi eftir að lifa fæðinguna af? 

Hún biður um hjálp? Líka börnin hennar, þau stara tárvot framan í okkur og spyrja á íslensku, rétt eins og barnið þitt og barnið mitt: Má ég búa áfram á Íslandi?

Svo rangt

Af hverju hjálpar enginn fjölskyldunni? 

Af hverju er ekki einhver læknir búinn að sjá skyldu sína í því að stíga fram og reyna að kyrrsetja þau, fyrst málið er svo brýnt? Ég hefði haldið að læknum bæri meiri skylda til þess að stuðla að því að bjarga lífi barns en Útlendingastofnun að halda áfram skáldlegri túlkun sinni á Dyflinnarreglugerðinni – ef það er hún sem er bitbeinið. 

Ef þeim verður vísað úr landi leyfi ég mér að efast um að ástæðan fyrir slíku óhæfuverki verði góð, þó að embættismenn telji hana, samkvæmt sínum þrengsta skilningi, ríma við lagabókstafinn. 

Það brýtur gegn öllu sem mér var innrætt sem barni að reka þau burt. Það er ósköp einfaldlega svo rangt. Sama hvað lagabókstafurinn segir, þá getur það ekki verið rétt að hjálpa þeim ekki í þessum aðstæðum. 

Segjum sem svo að þetta væri íslensk kona sem stæði ólétt fyrir framan alþingishúsið með tvö börn og sárbændi yfirvöld um keisaraskurð sem læknir hefði úrskurðað að hún þyrfti á að halda. Fólk myndi ekki linna látum af vandlætingu fyrr en það hefði bjargað hinu ófædda barni. En hvað með þetta barn?

Gleymskan

Tilviljun ræður hvar við fæðumst. Barnið í kviði Reginu réð ekki í hvaða skauti það yrði getið. En það vill svo til að það er í kviði konu sem stendur fyrir framan Alþingishúsið og grátbiður um hjálp. Hún biður og bíður – á sama tíma og í sama samfélagi og rekin er þjóðkirkja ásamt hinum ýmsu hugvísindastofnunum svo það fái heitið siðmenntað. 

Á Íslandi er ungbarnadauði einn sá lægsti í heiminum. Í Nígeríu er hann einn sá hæsti. Hvernig getur þá verið rétt að reka ólétta konuna frá Íslandi? Getur einhver útskýrt það fyrir mér?

Það má leika með lagabókstafinn og hnoða hann eftir hentisemi yfirvalda en það breytir því samt ekki að stundum getur það gerst að lögin verði sorglega röng – búsett í Berlín er ég daglega minnt á það, umkringd hinum ýmsu minnismerkjum sem minna okkur á að gleyma aldrei öllum konunum, börnunum og körlunum sem þýsk yfirvöld sáu á sínum tíma ekkert athugavert við að láta deyja.

Góðu fréttirnar

Við býsnumst yfir heiminum, við lesum fréttirnar vanmáttug. Við vitum að við getum ekki bjargað heiminum en við getum bjargað þeim – Reginu og börnunum hennar – og veitt þeim dvalarleyfi, helst ríkisborgararétt. Í augum móðurinnar eru börnin allur heimurinn, í augum barnanna er móðir þeirra heimurinn. Þannig getum við bjargað heilum heimi þó að við björgum ekki öllum heiminum.

Það er í okkar valdi. Góðu fréttirnar eru þær að við erum ekki eins vanmáttug í þessum efnum og við teljum okkur trú um. Við getum ýmslegt. 

Getum bjargað heilum heimi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiSleggjan
None