Niðurstaða Brexit-kosninganna í síðustu viku eru ein mestu pólitísku tíðindi sem orðið hafa í Evrópu áratugum saman. Fyrir Bretland munu afleiðingarnar verða miklar. Efnahagslega eru þær þegar farnar að birtast á mörkuðum, í lægra gengi pundsins og ákvörðunum stórra fjármálafyrirtækja í City í London um að flytja þúsundir starfa annað. Vísindasamfélagið er í öngum sínum og nýsköpunarfyrirtæki framtíðar verða að öllum líkindum frekar stofnuð á Írlandi en í Bretlandi.
Samfélagslega birtast þær í árásum á fólk af erlendu þjóðerni og einni skýrustu sundrungu sem vestrænt þjóðfélag hefur orðið fyrir í lengri tíma. Stór hluti þeirra sem kusu með útgöngu úr Evrópusambandinu voru eldri Bretar, þeir sem búa á landsbyggðinni og þeir sem eru ekki með framhaldsmenntun.
Stuðningur við áframhaldandi veru í sambandinu var mestur hjá ungu fólki, þeim sem búa í borgum (t.d. London, Manchester, Liverpool og Bristol) og þeim sem eru með framhaldsmenntun. Þá er óupptalið að í Skotlandi og Norður-Írlandi er mikill meirihluti fyrir því að vera áfram í Evrópusambandinu. Miðað við yfirlýsingar ráðamanna þeirra tveggja landa eru líkast til meiri líkur en minni að Stóra-Bretland muni liðast í sundur í kjölfar Brexit. Skotar munu klárlega ráðast í nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði og Norður-Írar munu seint sætta sig við að ferðafrelsi milli landsins og Írlands, sem verður áfram í sambandinu, verði skert.
Engin aðild að innri markaði
Fyrir liggur að Bretland mun ekki fá neina aukaaðild að innri markaði Evrópusambandsins, líkt og t.d. Ísland er með í gegnum EES-samninginn. Slíkur samningur myndi þýða að Bretland gæfi eftir stjórn á landamærum sínum með því að undirgangast fjórfrelsið (frjáls flutningur vöru, þjónustu, fjármagns og fólks) auk þess sem að landið þyrfti að innleiða nær allan lagabálk Evrópusambandsins án þess að hafa neitt með setningu laga þess að gera.
Slíkt stríðir beint gegn tilgangi Brexit-liða sem ráku baráttu um að stýra landamærum landsins og taka til baka stjórn sem hefði verið framseld til Brussel. Langlíklegast verður að teljast að Bretar muni gera einhvers konar tvíhliða samning við ESB, svipaðan þeim sem Kanada er með við sambandið.
Það sem blasir nú við í Bretlandi er nánast fordæmalaus efnahagsleg og stjórnmálaleg kreppa. David Cameron, maðurinn sem ber ábyrgð á því að hafa látið innanflokksátök í Íhaldsflokknum enda í þessum farvegi sem nú blasir við, ætlar ekki að vera maðurinn sem fer með Bretland út úr Evrópusambandinu og hefur tilkynnt afsögn. Jeremy Corbyn á varla marga daga eftir á formannsstóli Verkamanannaflokksins eftir að hafa, að mati þingmanna, brugðist algjörlega í því að berjast fyrir áframhaldandi veru Bretlands í sambandinu.
Brexit-leiðtogarnir eiga í átökum sín á milli um völd en virðast ekki vera með neinar áætlanir um hvernig eigi að haga málum héðan í frá. Ástæðan er auðvitað sú að þeir ráku baráttu sína á hálfsannleik og lygum. Þeir höfðuðu til lægstu hvata til að ná kjósendum á sitt band, hræðslu, fáfræði og mannfyrirlitningu.
Látið var í það skína að innflytjendur tækju störf af Bretum og væru auk þess byrði á félagslega kerfinu, sem bitnaði á þjónustu sem „alvöru“ Bretar fengju. Þetta er rangt. Innflytjendur eru þvert á móti drifkrafturinn í breskri framleiðniaukningu. Fyrir hvert pund sem innflytjendur þiggja í þjónustu þá leggja þeir 1,34 pund í samneysluna í formi skatta og annarra opinberra gjalda. Brexit-liðar notuðu samfélagsleg vandamál sem eru heimatilbúin, vandamál á borð við húsnæðisvanda, aukna misskiptingu og verri velferðarþjónustu, í baráttu sinni og kenndu innflytjendum og Evrópusambandinu um.
Samandregið þá er Brexit-niðurstaðan afleiðing þess þegar óábyrgir og tækifærissinnaðir stjórnmálamenn komast upp með að smætta flókin vandamál niður í einfaldar lausnir. Vangeta hinna til að takast á við afflutta umræðu áður en það var of seint skilaði þeirri niðurstöðu sem Bretland stendur nú frammi fyrir.
Óábyrgur fögnuður
Hérlendis fögnuðu ýmsir stjórnmálamenn útgöngu Breta, sérstaklega ráðamenn innan Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði niðurstöðuna m.a. mjög góð tíðindi fyrir Ísland og að í henni felist mikil tækifæri fyrir Ísland. Honum má benda á að Bretland er helsta viðskiptaríki Íslands og með útgöngu þarf að semja upp á nýtt um aðgengi að breska markaðnum. Á síðustu árum, þegar ferðaþjónusta hefur bjargað íslenskum efnahag, hafa flestir erlendu ferðamannanna sem hingað komið gert það frá Bretlandi. Það sem af er þessu ári hafa 29 prósent þeirra verið þaðan. Veiking pundsins, minnkandi kaupmáttur og önnur efnahagsleg óvissa í Bretlandi mun óumflýjanlega draga úr getu Breta til að ferðast og kaupa innfluttar vörur. Það mun hafa áhrif á Íslandi.
Til framtíðar gæti vel verið að einhver tækifæri fyrir Ísland leynist í veru Bretlands utan Evrópusambandsins. En þau tækifæri liggja alls ekki fyrir enda hafa Bretar ekki hugmynd um hvernig þeir ætla að haga sínum málum nú þegar ákvörðun hefur verið tekin. Það er því afar óábyrgt að tjá sig með þeim hætti sem sumir íslenskir ráðamenn hafa gert á undanförnum dögum.
Skipulögð framsetning fordóma
Það er líka full ástæða til að hræðast árangur lýðskrumara sem ljúga og lofa sig til valda með innihaldslausum staðhæfingum og vilyrðum um gjafir til kjósenda, hvar í heiminum sem þeir eru. Þótt afleiðingar Brexit verði fyrst og síðast efnahagslega erfiðar til að byrja með þá snérist þessi barátta ekki um peninga, hún snérist um útlendinga.
Á undanförnum árum höfum við séð síaukna útlendingaandúð í íslenskri umræðu sem er náskyld því lýðskrumi sem borið var á borð í Bretlandi. Framsókn og flugvallarvinir notuðu hana til að hífa upp fylgi sitt í sveitarstjórnarkosningunum 2014, íhaldsarmur Sjálfstæðisflokksins hefur mátað sig við hana, á Útvarpi Sögu grasserar órökstudd hatursumræða um innflytjendur, Ásmundur Friðriksson hefur ítrekað farið mikinn í framsetningu á rasískum skoðunum sínum og í undirbúningi er framboð flokks sem hefur það sem aðalstefnumál að hafna fjölmenningu og takmarka fjölda innflytjenda.
Svo virðist sem þessar rasísku skoðanir eigi umtalsverðan hljómgrunn hérlendis, sérstaklega hjá jaðarhópum. Það sem veldur hins vegar mestum áhyggjum er að þær virðast eiga sífellt greiðari leið inn í almenna umræðu.
Í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á undanförnum árum hefur til að mynda verið talað með óvægnum hætti um flóttamenn, að stjórnvöld hefti innstreymi flóttamanna og tekið undir skoðanir þeirra sem vilja endurskoða stefnur í málefnum innflytjenda.
Á síðustu vikum hefur blaðið síðan þrívegis birt skopmyndir sem eru skýr hræðsluáróður sem byggir ekki á neinu öðru en hatri á útlendingum og vanþekkingu á raunveruleikanum. Tilgangur þeirra er í öllum tilvikum að selja þeim sem þær sjá þá hugmynd að útlendingar muni gera líf þeirra verra og ógna öryggi þeirra.
Þessar myndir birtust 10. júní, 17. júní og í dag. Myndirnar, sem eru á ábyrgð ritstjóra Morgunblaðsins, eru því ekki hending eða tilviljun. Hér er mynstur á ferðinni sem elsta dagblað landsins leggur blessun sína yfir.Það þarf að taka umræðuna
Mistökin sem gerð voru í Bretlandi, og hafa verið gerð í fleiri Evrópusambandslöndum, eru að leyfa lýðskruminu að breiðast út í stað þess að takast á við það sem alvöru vandamál áður en það varð of seint. Við höfum tækifæri á Íslandi til að gera það, enda rasísk pólitík og mannfjandsamleg þjóðernishyggja mun skemmra á veg komin hér en í mörgum löndum í kringum okkur.
Leiðin til að takast á við þessa ömurlegu umræðu er ekki að þagga hana niður eða krefjast þess að hún verði bönnuð. Þvert á móti á að mæta þeim sem vilja „taka umræðuna“ með því að tefla fram staðreyndum gegn lygum og tilfinningarökum og dreifa síðan samtalinu sem víðast. Þannig, og aðeins þannig, opinberast þessar skoðanir fyrir það sem þær eru.
Það á ekki að virða órökstuddar skoðanir fólks. En við getum samt ekki leyft okkur lengur að hunsa affluttar upplýsingar og hatursáróður sem á sér ekki stoðir í raunveruleikanum, einfaldlega vegna þess að okkur finnst hann fjarstæðukenndur.
Þá vinnur vanþekkingin. Og það er vanvirðing við skynsemina.