Iceland Geothermal klasasamstarfið hefur verið í stöðugum vexti frá stofnun þess í febrúar 2013. Aðildarfélög Iceland Geothermal, gjarnan kallað íslenski jarðvarmaklasinn, eru um 50 talsins: þjónustufyrirtæki, orkuframleiðendur, vélsmiðjur, háskólar o.fl. Samstarfið nær til heildar virðiskeðju jarðvarma og orkuiðnaðar á Íslandi.
Stuðningur við nýsköpun
Stuðningur við nýsköpun er ein af lykiláherslum Iceland Geothermal. Sem dæmi má nefna að aðildarfélög klasans, líkt og Arion banki, Íslandsbanki, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Landsvirkjun, GEORG, HS Orka, OR og ON, styðja dyggilega við grasrótina í þessum efnum. Iceland Geothermal klasasamstarfið tekur einnig að sér að reka viðskiptahraðalinn Startup Energy Reykjavík (SER) í samstafi við Icelandic Startups sem nú er opinn til umsóknar fram til 14. ágúst nk., sjá nánar www.startupenergyreykjavik.com.
SER hefur verið haldið tvisvar þ.e.a.s. 2014 og 2015. Fyrirtækin 14 sem stofnuð hafa verið á þessu tveggja ára tímabili hafa aflað hlutafjár og fjárstuðnings sem nemur 700 milljónum króna. Til að skilja þennan góðar árangur er áhugavert að líta til fjölbreytileika fyrirtækjanna sem SER hefur fjárfest í. Á meðal fyrirtækjanna er að finna fjárfestingarfélag, þjónustufyrirtæki, framleiðslufyrirtæki, tvö verkefni tengd orkufrekum iðnaði, hugbúnaðarfyrirtæki og aðila sem þróa vélbúnað og kerfi. Hraðallinn er að fá til sín teymi samsett af reyndum aðilum úr atvinnulífinu í bland við yngri einstaklinga. Viðskiptahraðall tengdur atvinnulífinu og háskólasamfélaginu er lykillinn að þessari velgengi.
Endurskoða þarf áherslur atvinnulífs og rannsókna
Það er staðreynd að hvorki einstaklingar né íslensk fyrirtæki hafi sótt um einkaleyfi sem tengjast 100 ára þróun hitaveitu og uppbyggingu jarðvarmavera á Íslandi. Hvernig getur það verið að ein af fremstu þjóðum á sviði jarðvarmanýtingar í heiminum búi ekki yfir hugverkaréttarvarðri þekkingu á þessu sviði? Hvað þarf að gera til að efla samstaf atvinnulífs og þeirra sem stunda jarðvarma- og orkurannsóknir þannig að verðmætasköpun verði sýnilegri og skili sjálfbærum vexti tengdum rannsóknum og á þetta við um fyrirtæki, skóla og rannsóknarstofnanir?
Mikilvægi stafsreynslu og verkvits
Byggja þarf upp nýsköpunarumhverfi þar sem háskólagráða er ekki álitin forsenda til þátttöku. Ef markmiðið er að auka verðmæti og sérstöðu afurða og selja lausnir og vörur til viðbótar við þá miklu þekkingu sem íslenskar verkfræðistofur búa yfir, verður að líta til fyrirtækja eins og t.d. röraverksmiðjunnar Set ehf. svo og vélsmiðja og renniverkstæða eins og Vélvík, Héðinn, VHE og Stálsmiðjunar Framtaks. Tæknilausnir byggja ekki síst á verkþekkingu og reynslu af smíði búnaðar, viðhaldi hans og rekstri. Rétt er að árétta að hér er átt við að auka verður vægi fagþekkingar en ekki er verið á nokkurn hátt að rýra mikilvægi háskólamenntunar.
Að lokum er mikilvægt að atvinnurekendur hvetji að starfsmenn sína til að leggja stund á frjóa hugsun og nýsköpun. Vanti sérþekkingu til að koma hugmyndum áfram og í framkvæmd er hægt að leita til t.d. Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Icelandic Startups og Iceland Geothermal til að fá upplýsingar um aðstoð við að þróa hugmyndir áfram.