Núna þegar styttist í
verslunarmannahelgina þá kemur upp umræðan um Þjóðhátíð í
Vestmanneyjum og allt það sem þar gerist. Eins og flestir vita þá
hefur
Lögreglustjórinn í Vestmanneyjum ákveðið að tilkynna
ekki fjölmiðlum um kynferðisbrot sem tilkynnt verða á hátíðinni
fyrr en einhverjum dögum eftir hátíðina. Þannig áður en
hátíðin byrjar og áður en nokkur gestur er kominn í dalinn þá
er það vitað að kynferðisbrot munu eiga sér stað. Það er í
það minnsta gengið út frá því að slíkt muni gerast. Það er
meira að segja lagt sérstakt púður í hvernig skuli tilkynna
þessi brot seinna en önnur brot sérstaklega. Ákvörðun sem
gengur þvert ofan í alla aðra sem koma að slíkum málum
allstaðar annarstaðar í þjóðfélaginu.
Hvernig stendur eiginlega á þessu ?
Hvernig stendur á því að áður en hátíðin hefst sé gengið út frá því að kynferðisafbrotamál muni koma upp. Þá frekar hversu mörg þau verða frekar en hvort þau komi upp yfir höfuð. Hvergi annarstaðar er gengið út frá því að kynferðisafbrotamál munu koma upp, enda eitthvað sem ætti að ganga út frá að uppræta með öllum mögulegum ráðum.
Af hverju er ekki hægt að uppræta nauðganir á Þjóðhátíð ?
Af þeirri umræðu sem hefur átt sér stað og þeim „mótvægisaðgerðum“ af dæma þá gæti einn haldið að það væri samþykktur fórnarkostnaður að nauðganir myndu eiga sér stað. Það getur bara ekki verið eðlilegt. Nauðgun ætti aldrei að vera samþykkt sem einhver fastur fylgifiskur nokkurrar hátíðar. Aldrei!
Árið 2011 var tilkynnt um fimm nauðganir á Þjóðhátíð, árið eftir það voru þær þrjár. Þetta getur bara ekki verið eðlilegt, að yfir höfuð geti komið upp nauðgunarmál á eins lokuðu og vernduðu svæði og Þjóðhátíðardalurinn er og árið eftir koma aftur upp nauðgunarmál. Var ekki hægt að taka einhver afgerandi skref þarna á milli til að koma í veg fyrir að slíkt gæti gerst aftur. Í það minnsta leggja á það ofuráherslu að þeir sem kæmu á Þjóðhátíð væru óhultir þar fyrir mögulegum nauðgara sem leitaði sér fórnarlamba.
Það ætti að vera mikið hagsmunamál eyjamanna að koma í veg fyrir að nauðganir eigi sér stað á Þjóðhátíð. Hagsmunamál sem ætti að snúast um Þjóðhátíð þar sem allir koma heilir heim. Með þrýstingi og hótunum um að mæta ekki hafa nokkrir af frægustu listamönnum landsins fengið þjóðhátíðarnefnd til að endurskoða þá ákvörðun að neita Stígamótum um aðgengi að hátíðinni. Það er sérstakt þegar umræðan um hátíðina er eins og hún hefur verið undanfarna daga að þessi ákvörðun hafi ekki komið fyrr en listamennirnir sem áttu að skemmta á hátíðinni neyddu hana í gegn.
Ef raunverulegur vilji væri í verki við að koma alfarið í veg fyrir nauðganir á þjóðhátíð þá væri margt hægt að gera. Virkar forvarnir, vekja upp náunga gæslu. Ýta undir það einfalda atriði að skipta sér af þegar eitthvað „skrítið“ á sér stað í kringum þig. Bara þetta sama og hefur náð að gerast á skemmtistöðum Reykjavíkurborgar, einstaklingur sem er að bera út annan áfengisdauðan einstakling er strax áreittur af dyravörðum og öðrum gestum á staðnum. Af hverju er það ? Vegna þess að umræðan um nauðganir með lyfjabyrlan í drykki hefur vakið upp náungagæslu meðal þeirra sem eru að skemmta sér. Möguleikarnir eru fjölmargir en til þess að uppræta nauðganir þarf fyrst og fremst vilja til þess. Málið er nefninlega þannig að þegar þú býður í partý heim til þín viltu þá ekki vera nokkuð viss um að partýgestirnir hafi ekki ráðrúm til þess að fremja kynferðisafbrot, er það ekki bara sjálfsagður hlutur hvers partýhaldara. Eða í versta falli að vita af því að þú hafir gert allt sem í þínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að svona geti gerst heima hjá þér.
Því miður hefur lítið farið fyrir sjánlegum vilja Þjóðhátíðarnefndar og Lögreglunnar í Vestmannaeyjum og ég hef ekkert séð um sérstakar forvarnir gegn nauðgunum á Þjóðhátíð. Einungis tilburði til þess að þagga þá niður eða í það minnsta láta þá sjást sem minnst.