Ísland verður æ vinsælla meðal erlendra ferðamanna eins og mikið hefur verið rætt um. Með þessum aukna fjölda ferðafólks hefur landslag verslunar og þjónustu breyst mikið undanfarin ár í miðbæ Reykjavíkur; stærsta ferðamannastað landsins. Slíkt á auðvitað einnig við um fleiri ferðamannastaði.
Með hverju hótelinu sem sprettur við Laugaveg verða til aukin tækifæri fyrir veitingastaði, verslanir og þjónustu í næsta nágrenni. Út um gluggann á ritstjórn Kjarnans fylgdist starfsfólkið hér til dæmis með uppbyggingu ofarlega á Laugaveginum, þar sem nýtt hótel glæddi nærumhverfið nýju lífi.
Það má lengi ræða og gagnrýna einstaka skipulagsákvarðanir og hvernig íslenska ríkið á að regluvæða stærri ferðaþjónustumarkað. Það má hins vegar ekki gleyma því sem ekki verður auðveldlega metið til fjár: menninguna.
Um helgina opnar götumatarmarkaðurinn Krás í Fógetagarði og er þar orðið um árlegan viðburð að ræða. Þar munu íslenskir veitingamenn bjóða upp á götumat í takti við matseðla sína allar helgar fram til 20. ágúst. Á slíkum götumarkaði er matarmenningu Íslendinga gerð góð skil. Ráðgert er að annar matarmarkaður muni opna á Hlemmtorgi í skjóli frá veðri og vindum. Þá eru einnig uppi hugmyndir um að opna veitinga- og matarmarkað í Holtagörðum.
Slíkum menningarsuðupottum er vissulega tilefni til að fagna og njóta í samfélagi með þeim ferðamönnum sem hingað hafa ferðast langar leiðir til að kynnast Íslandi og Íslendingum.
Verði ykkur að góðu!