Færeyingar fóru nýlega að bjóða aflaheimildir á uppboðsmarkaði í tilraunaskyni en áætlað er að um tíu prósent af heildarkvóta þeirra verði boðinn upp með þessum hætti í júlí og ágúst á þessu ári. Eru þetta tímamót á langri vegferð Færeyinga í breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfi þeirra því árið 2007 ákvað þingið þeirra að fella niður öll almenn veiðileyfi fiskiskipa á tíu árum (sem verður í janúar 2018).
Ýmis vandkvæði hafa verið við áætlunina. Viðbrögð sjávarútvegsins hafa verið neikvæð og almenningur hefur blendnar tilfinningar til breytinga á sjávarútvegskerfinu samkvæmt skoðanakönnunum. Pólitísk umræða hefur þannig að mestu snúist um breytingarnar framundan með stóru spurningunni, hvernig eigi að taka gjald af auðlindinni. Færeyingar byrjuðu að innheimta veiðigjald árið 2011 fyrir eina fisktegund. Árlegar breytingar hafa svo verið á veiðigjaldi síðastliðin þrjú ár. Hafa þeir fjölgað þeim tegundum sem tekið er gjald fyrir upp í þrjár árið 2015 eða nánar tiltekið síld, makríl og kolmunna.
Þær raddir hafa heyrst að aukin öflun tekna af fiskveiðum fyrir ríkissjóð sé tilkomin vegna mögulegs sjálfstæðis Færeyja. Enn er þó of snemmt að segja til hvort það gangi eftir og hvort pólitísk sátt náist um leiðina sem valin verður. Umræðan í Færeyjum um framtíðarfyrirkomulag fiskveiða verður líklega háværust í lok þessa árs þegar skila á skýrslu um málið og árið 2017. Ef þessar breytingar eiga hins vegar að verða varanlegar verða þær að taka gildi fyrir janúar 2018.
Fyrir okkur Íslendinga er þetta áhugaverð tilraun sem vert er að fylgjast með. Færeyingar eru í upphafsskrefum ferilsins og hægt er að læra af þeirra reynslu. Fyrir Ísland sem hefur siglt í gegnum mikinn öldusjó í málefnum sjávarútvegs hefur okkur tekist með elju að skapa hérlendis blómlega atvinnugrein sem í dag skilar arði og nýsköpun. Við tökum veiðigjald af tugum tegunda og fáum milljarða til ríkisins árlega í arð fyrir ríkisjóð. Okkar fyrirkomulag er þó ekki án galla og mikilvægt er að fylgjast með hvað aðrir gera.
Í því samhengi þarf að færa umræðuna um afnotagjald fyrir auðlindir yfir á allar auðlindir. Finna kerfi sem hægt er að beita á allar þær auðlindir þar sem greitt er fyrir afnot af eða ætti að greiða fyrir. Ég tel fýsilegast að beita skattkerfinu til þess. Fyrst þarf þó að byrja á að skilgreina hvað eru auðlindir og taka síðan ákvörðun um hvort við viljum yfirleitt að greitt sé gjald fyrir afnot af þeim.
Við í Framsókn hefðum viljað sjá náttúruauðlindum landsins komið tryggilega fyrir í eigu þjóðarinnar. Það hefur þó ekki náðst meirihluti fyrir því enn sem komið er. Sú breyting og jafnvel fleiri er fyrirsjáanlegt að ráðast þurfi í á næstu árum af skynsemi og varfærni.