Þveröfugt við EM karla í fótbolta, sem kallaði fram bros, þjóðarstolt og samstöðu, varð leki Panamaskjalanna til þess að kalla fram reiði, skömm og sundrungu. Það þarf vart að tíunda áhrifin sem þetta hafði hér á landi - forsætisráðherra sagði af sér, kallað var til kosninga og líklega hefðu forsetakosningarnar þróast á annan hátt ef ekki hefði komið til þessara hræringa. Mikil umsvif Íslendinga í skattaskjólum er sérlega óheppilegt fyrir þær sakir að Ísland, ásamt fjölda annarra ríkja, hefur undirritað sáttmála um að reyna að berjast gegn skattaskjólum. Þrátt fyrir að það sé í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að eiga fjármuni í öðru landi, er staðreyndin sú að lágir skattar og mikil leynd í alræmdum skattaskjólum skapar hvata til þess að komast hjá sköttum og leyna ýmsu misjöfnu. Panamaskjölin sýna ótvírætt að fólk bregst við þessum hvötum.
En í hve miklum mæli? Hversu miklu fé er leynt í skattaskjólum? Og hversu miklum skatttekjum verða ríki heimsins af? Þó að við munum líklega aldrei fá fullnægjandi svörð, hafa verið gerðar tilraunir til að nálgast sannleikann. Hagfræðingurinn Gabriel Zucman áætlar að faldir séu fjármunir að andvirðiæplega 8 billjónir (8.000 milljarðar) bandaríkjadala eða um 8% að fjármálalegum eignum í heiminum. Tax Justice Network reyndi einnig að áætla hversu há upphæðin er og sendu frá sér skýrslu árið 2012 um umfang fjármagns í aflandsfélögum. Niðurstöðurnar sýndu að svo mikið sem á milli 21- 32 billjónir bandaríkjadala í fjármálalegum eignum (innstæður, skuldabréf, hlutabréf o.þ.h.) og eru þá fasteignir, snekkjur, flugvélar o.fl. undanskilið.
Ef við miðum við neðri mörk Tax Justice Network, 21 billjón bandaríkjadala, og gerum ráð fyrir 3% ávöxtun og 30% skatti, eins og tekið er dæmi um í skýrslu þeirra, verða ríki heimsins af um 23 þúsund milljörðum króna í skatttekjum ár hvert. Slík upphæð er um 10-föld landsframleiðsla Íslands.
OECD ríki hafa samþykkt að stefna að því að veita 0,7% af þjóðarframleiðslu sinni til þróunarsamvinnu, þó að efndir séu mismiklar. Ísland er langt frá því að uppfylla 0,7% markið, á síðasta ári námu fjárlög til þróunarsamvinnu 0.24% af landsframleiðslu. Ef við tökum 0,7% af áðurnefndri 3% ávöxtun, þessa 21 billjón USD í skattaskjólum, erum við mögulega að tala um 542 milljarða króna sem myndu annars renna til fátækasta fólks heims. Fyrir þá upphæð væri t.d. hægt að byggja 31 Hörpu árlega. Samkvæmt fjárlögum Íslands fyrir árið 2016 voru um 6.5 milljarðar króna eyrnamerkir fyrir marg- og tvíhliðaþróunaraðstoðar, það gerir um 1.2 prósent af téðri upphæð.
Augljóslega er erfitt að henda reiður á þessar upphæðir en lykilatriðið er að í stóra samhenginu eru hér verulega háar upphæðir. Samkvæmt skýrslu World Investment Forum er gert ráð fyrir því að Afríka tapi 100 milljörðum Bandaríkjadala á ári vegna skattaundanskota. Einnig greinir OXFAM frá því að árlega verði Afríka af 14 milljörðum bandaríkjadala vegna skattaskjóla. Það er nóg fjármagn til að bjarga árlega lífi fjögurra milljóna barna með bættri heilsugæslu og standa undir launakostnaði allra grunnskólakennara í álfunni. Samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hafa 2,5 milljarðar manna ekki aðgang að hreinu vatni, um 16 þúsund börn deyja daglega vegna læknanlegra sjúkdóma, 35 milljónir manna eru með HIV/Alnæmi og þar af eru 2 milljónir á aldrinum 10 til 19 ára og á 10 mínutna fresti deyr táningsstelpa af völdum ofbeldis. Fyrir 542 milljarða króna væri hægt að bjarga mörgum einstaklingum.
Hvað er þá hægt að leggja árlega til þróunarsamvinnu fyrir 542 milljarða króna?
Langar þig að mennta 2,5 milljónir grunnskólabarna? Áætlað er að í Afríku sunnan Sahara séu um 43 milljónir barna sem falla utan hins formlega skólakerfis og eru þau líklega ennþá fleiri en opinberar tölur gefa til kynna. Samkvæmt úgönsku góðgerðarsamtökunum Joy for Children kostar skólaárið $79 fyrir börn í grunnmenntun til 7 ára (primary school) og $200 fyrir börn í gagnfræðiskóla (secondary school) í 6 ár, því kostar full grunnskólamenntun um 1.750 dali (213 þús ISK) allt í allt.
Samkvæmt hjálparsamtökunum Save the Children njóta 3,5 milljónir flóttabarna ekki viðunnandi menntunar. Samtökin áætla að 4,8 milljarðar bandaríkjadala þarf til að mennta þessi börn, fyrir 542 ma.kr. (4,4 ma.USD) væri árlega hægt að tryggja rúmlega 90% þessara barna grunnmenntun.
Langar þig að byggja 36 þúsund verkmenntaskóla? Íslensku félagasamtökin Alnæmisbörn hafa nýlokið við að byggja verkmenntaskóla fyrir ungar stúlkur í Úganda. Þar munu 230 stúlkur fá ýmsa hagnýta iðnmenntun sem gefur þeim aukna atvinnumöguleika en mikill skortur er á verkmenntuðu fólki í Úganda sem og víða í Afríku. Heildarkostnaður verkefnisins var 15 milljónir króna.
Langar þig að byggja 371 spítala í Nígeríu? Nígeríski milljarðamæringurinn og ríkasti maður Afríku, Aliko Dangote, hyggist setja $12 milljónir í að byggja nýjan spítala í Nígeríu. Spítalinn mun rúma 1000 sjúkrarúm og verður því stærsti spítali í norðurhluta Nígeríu. Það er erfitt að bera saman heilbrigðisþjónustu milli ólíkra heimshluta, engu að síður er gaman að gera samanburð til að gefa betri hugmynd um viðfangið en Landspítali Íslands er stærsta skjúkrahús á landinu og var skráð með 667 sjúkrarúm árið 2015. Hægt væri að byggja 556 nígeríska spítala með 667 sjúkrarúmum fyrir milljarðana 542.
Langar þig að senda 51 milljón manna í HAART HIV/Alnæmismeðferð? HIV/Alnæmisfaraldur hefur verið mikil byrgði víða í Afríku undanfarna áratugi og fyrir utan töpuð mannslífu hefur þessu fylgt gríðarlegur lyfjakostnaður, sem hefur þó farið lækkandi á undanförnum árum. Kostnaður við HAART meðferð var í fyrstu $10-15 þúsund en hafði lækkað niður í $87 árið 2007, miðað við það væri hægt að senda rúmlega 51 milljón manna í HAART meðferð (Reimagining Global Health, 2013).
Dæmin sem tekin eru hér að ofan eru til að gefa hugmynd um umfang auðmagns í skattaskjólum og hvað væri hægt að leggja til þróunarsamvinnu ef það fé hefði verið skattlagt eins og eðlilegt þætti. Það er ekkert lögmál sem segir að það þurfi að fjármagna þróunarsamvinnu með opinberu fé og margt sem má gagnrýna og betrumbæta í þeim geira. “Í fullkomnum heimi” sagði einhver, en staðreyndin er hinsvegar sú að það þarf ekki fullkomnun svo að einstaklingar fái að njóta mannréttinda og lifa við lágmarks grunnþarfir. Réttlæti og samstaða myndi fleyta okkur býsna langt hvað framfarir varðar, bæði hér heima og í hinum stóra heimi.