Erlendir ríkisborgarar eru nú yfir tíu prósent þeirra sem greiða skatta á Íslandi. Rúmlega annar hver nýr skattgreiðandi hérlendis á síðustu árum hefur komið erlendis frá og á árinu 2015 einu saman voru 74,4 prósent allra nýrra skattgreiðenda erlendir ríkisborgarar. Það þýðir að þrír af hverjum fjórum sem bættist við skattgrunnskrá landsins í fyrra voru erlendir ríkisborgarar en einn af hverjum fjórum var íslenskur ríkisborgari. Frá þessu var greint á vef Kjarnans í gær.
Enginn þarf að efast um mikilvægt framlag útlendinga til íslensks samfélags, og þessar tölur sýna að Ísland er einfaldlega háð því að útlendingar komi hingað og verði hluti af íslensku samfélagi. Þeir leggja mikið af mörkum og eru alls ekki fjárhagsleg byrði á samfélaginu.
Það er mikilvægt að halda þessu til haga, því fordómar eru því miður of áberandi í umræðu um útlendinga og innflytjendur.