Það er í tísku hjá öðrum stjórnmálaflokkum en þeim tveimur sem sitja í ríkisstjórn að mála sig upp sem breytingaröfl. Komist þau til valda megi slá því föstu að það verði gerðar grundvallarbreytingar á grunnkerfum samfélagsins með almannahagsmuni að leiðarljósi, ekki sérhagsmuni. Á baki þessa loforðs hafa þeir baðað sig í heilagri réttlætisbirtu. Þeir hafa stillt sér upp með fólkinu gegn valdaklíkunum sem halda um þræðina og eiga auðinn. Með nýja flokka við stjórn muni allt breytast.
Allir stjórnarandstöðuflokkarnir nema einn, Björt framtíð, hafa nú fallið á prófi um hversu alvara þeim var um breytingarnar. Og eru þar með í hættu að gera sig ómarktæka varðandi aðrar kerfisbreytingar líka.
Kerfi sem er tvisvar afleitt
Það gerðu þeir með því að greiða ekki atkvæði gegn búvörusamningum til tíu ára þegar þeir voru samþykktir á Alþingi í upphafi viku. Frumvarp sem gefur samningunum lagalegt gildi var samþykkt með 19 greiddum atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það þýðir að 30 prósent þingmanna samþykkti þessa samninga og 50 prósent stjórnarþingmanna. Aðrir stjórnarþingmenn sögðu nei, sátu hjá eða voru ekki viðstaddir. Einu stjórnarandstöðuþingmennirnir sem stóðu gegn þessu voru þingmenn Bjartrar framtíðar, sem oft er gert grín að fyrir verkleysi. Með afstöðu sinni í byrjun viku sýndu þeir meiri samstöðu með almenningi gegn sérhagsmunagæslu í verki en nokkur annar stjórnmálaflokkur hefur gert á þessu kjörtímabili.
Búvörusamningarnir festa í sessi landbúnaðarkerfi sem er algjör tímaskekkja. Það er slæmt fyrir bændur og hræðilegt fyrir neytendur, sem þurfa að borga of hátt verð fyrir oft slaka vöru (sjá Gotti eða íslenskt svínakjöt) og horfa upp á 13-14 milljarða króna af skattfé sínu renna inn í þetta kerfi árlega. Þeir sem hagnast eru milliliðir í framleiðslu eins og Mjólkursamsalan og Kaupfélag Skagfirðinga. Landbúnaðarkerfið er því svokallaður „Double Whammy“ fyrir neytendur. Það er tvisvar sinnum afleitt.
Ef allir þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu mætt og greitt atkvæði gegn samningunum þá hefðu 26 þingmenn sagt nei við þeim. Og miðað við mætingu stjórnarþingmanna í þingsal þegar atkvæðagreiðslan stóð yfir, og fjölda þeirra Sjálfstæðisþingmanna sem sat hjá, þá hefði það mögulega dugað til að stöðva þann óskapnað að binda 132 milljarða króna í niðurgreiðslur á ónýtu og neytendafjandsamlegu kerfi næsta áratuginn. Tvöfalt verðtryggt.
Réttmæt gagnrýni
Forsvarsmenn þeirra flokka sem kusu ekki gegn búvörusamningunum hafa hamast við að verja afstöðu sína undanfarna daga. Píratar fela sig á bak við það að þeir eigi ekki fulltrúa í atvinnuveganefnd og því gætu þeir ekki tekið upplýsta afstöðu til málsins. Líkt og þeim hefur hins vegar verið bent á þá felst upplýst afstaða í að hafna því sem er augljóslega vont og gegn almannahagsmunum. Heiðarlegasta svar Pírata var hjá Svani Kristjánssyni, prófessor í stjórnmálafræði, sem starfar mikið innan flokksins. Hann sagði einfaldlega að það hefði „rústað kosningabaráttu Pírata í þremur kjördæmum af sex“ ef þeir hefðu sagt nei án þess að vera með aðra tillögu um lausn á málinu.
Afstaða Vinstri grænna er sú að það sé lögbundið að gera búvörusamning og því sé ekki boðlegt að leggjast gegn honum, jafnvel þótt hann sé afleitur. Ríkisstjórnin beri þó ábyrgð á samningnum, ekki stjórnarandstaðan. Vinstri græn telja sig hafa komið í gegn breytingum á samningunum sem geri þá aðeins minna vonda.
Það telur Samfylkingin, sem flokka mest hefur talað um breytingar á landbúnaðarkerfinu, sig líka hafa gert. Í grein sem Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, skrifaði á Kjarnann í gær segir að flokkurinn hafi náð „fram mikilvægri breytingu sem mun gera okkur kleift að endurskoða kerfið eftir kosningarnar.[...]Nú hefur hann verið styttur niður í þrjú ár og við ætlum leggja allt kapp á að breyta kerfinu fyrir þann tíma, og vanda okkur við það.“
Þessi fullyrðing Oddnýjar er röng.
Vita ekki hverju þeir voru ekki að hafna
Það er nefnilega þannig, líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í dag, að það er ekkert fast endurskoðunarákvæði í búvörusamningunum. Það er ákvæði um að það eigi að skipa samráðshóp sem á að gera tillögur að breytingum á samningunum og það er rétt að þær eigi að liggja fyrir innan þriggja ára.
Hafni bændur þeim tillögum í atkvæðagreiðslu árið 2019 þá stendur bara sú niðurstaða, og búvörusamningarnir halda áfram að gilda út tíu ára samningstíma sinn. Það eru því bara bændur sem hafa vald til að endurskoða samninganna á næstu árum, ekki þingmenn.
Samkvæmt grein Oddnýjar virðist hún ekki hafa áttað sig á þessu þegar hún var fjarverandi við atkvæðagreiðslu um frumvarp til búvörulaga á þriðjudag. Aðrir stjórnarandstöðuþingmenn sem ákváðu að vera annað hvort ekki til staðar í þingsal til að gæta hagsmuna almennings, eða sátu hjá þegar þeim gafst tækifæri til þess, virðast heldur ekki hafa áttað sig á þessu. Þeir kokgleyptu málflutning Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar, þegar hann kynnti „víðtækar breytingar á búvörusamningum“ í lok ágúst sem voru ekki víðtækari en svo að allsherjarendurskoðun þeirra eftir þrjú ár er algjörlega upp á náð og miskunn bænda komin.
Tvennt getur hafa valdið afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna. Annað hvort var það yfirveguð ákvörðun að taka þátt í að blekkja almenning til að halda að samningarnir verði endurskoðaðir innan þriggja ára, eða þeir unnu ekki vinnuna sína og voru plataðir í að halda það. Það er erfitt að segja hvort sé verra.
Falskar útgáfur
Ég er ekki sammála þeirri stefnu sitjandi ríkisstjórnar að það sé forgangsatriði að breyta nánast engu á Íslandi. Að það sé gott að örfáir einstaklingar stingi hundruð milljörðum króna í vasann vegna nýtingar á fiskveiðiauðlindinni í stað þess að sá auður renni í meira mæli í samneysluna. Að það sé réttlætanlegt að greiða 13-14 milljarða króna á ári svo að milliliðir milli bænda og neytenda geti haldið áfram að valdabröltast á kostnað skattgreiðenda en engum öðrum til sérstakra hagsbóta.
Að stjórnarskrá sem lýðræðislega mismunar fólki eftir því hvar það býr á landinu, er með óljósan kafla um forsetaembætti sem má túlka eftir hentugleika, tryggir ekki að auðlindir séu þjóðareign eða gerir þjóðinni kleift að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu sé einhvers konar hornsteinn samfélagsgerðarinnar sem má ekki hreyfa við. Að það sé pólitískur ómöguleiki að leyfa almenningi að kjósa um hvort Ísland eigi að klára aðildarviðræður að Evrópusambandinu eða ekki. Að mikilvægast af öllu sé að berjast gegn öllum tillögum að kerfisbreytingum í næstu kosningum. Það sé forgangsatriði.
En ég virði það þó við stjórnarherranna að þeir eru ekkert að reyna að sykurhúða þessa afstöðu sína. Hún liggur fyrir og fólk getur tekið afstöðu til íhaldsflokkanna tveggja út frá henni.
Píratar, Samfylkingin og Vinstri græn hafa hins vegar verið að selja fólki falska útgáfu af sér. Það komst upp um þessa flokka á þriðjudag þegar þeir annað hvort tóku kjördæmabundna hagsmuni sína í komandi kosningum fram yfir almannahagsmuni, eða unnu alls ekki heimavinnuna sína, með þeim afleiðingum að þeir festu í sessi skelfilegt kerfi sem gagnast flestum illa.
Það eru sjö einstaklingar sem koma út úr þessari atkvæðagreiðslu standandi. Þeir eru Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og þingflokkur Bjartrar framtíðar. Aðrir þingmenn ættu að skammast sín.