Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur ítrekað haldið því fram á seinna kjörtímabili sínu, sem hófst árið 2012 og lýkur í nóvember, að Wall Street hafi breyst. „Þetta er ekki eins og það var. Wall Street hefur breyst. Regluverkið er breytt, og það á eftir að breytast enn meira,“ sagði hann meðal annars í ræðu sinni, þegar hann átti starfsfund með aðilum fjármálamarkaðarins í mars á þessu ári.
Alvarlegar afleiðingar
Hann byrjaði fundinn á því að segja að það væri táknrænt, að eiga þennan stöðumatsfund, átta árum upp á dag, frá því að Bear Sterns hrundi. Hann fór svo í stuttu máli yfir afleiðingar fjármálakreppunnar frá 2007 til 2009. Milljónir misstu allan sparnað, atvinnu og fasteignir. Bara í Bandaríkjunum einum.
Stór hluti af skýringunni fyrir kreppunni var lélegt fjármálaeftirlit á fjármálamörkuðum, og ónæg yfirsýn. Enginn (eða fáir) sá vandamálin hrannast upp og lítið sem ekkert var gert. Í stuttu máli má skýra flókna atburðarás með þessum hætti.
Obama segir sjálfur, að það sé til vinsælda fallið að tala um að „ekkert hafi breyst“ og „Wall Street ráði öllu“. „Ég endurtek, að þetta er ekki rétt. Okkar aðgerðir hafa virkað. Eftirlitið er strangara og bankakerfið er sterkara fyrir vikið [...] Þetta hefur líka hjálpað við að komast til botns í málum þar sem óábyrg hegðun leiddi til vandamála,“ sagði Obama.
Innviðirnir hafa styrkst
En hvað hefur breyst? Þannig var uppleggið á fundi Samtaka fjármálafyrirtækja á dögunum, þar sem ný skýrsla um breytingar á regluverkinu á fjármálamörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum var kynnt. Höfundar hennar eru Dr. Ásgeir Jónsson, kennari í hagfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi aðalhagfræðingur Kaupþings, Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri FME, og Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður verðbréfasviðs Landsbankans gamla.
Það er ekki hægt að segja annað, en að höfundar séu að vissu leyti að horfa í eigin barm, og skoða bankakerfið rækilega, enda voru þeir í framvarðasveit bankakerfisins sem hrundi eins og spilaborg á þremur dögum, 7. til 9. október 2008.
Í skýrslunni er fjallað nokkuð ítarlega um breytingarnar sem gerðar hafa verið. Málið að miklu leyti tæknilegt, en samandregið má segja að niðurstaða þeirra sé svipuð og sú sem Obama hefur margendurtekið: Fjármálakerfið er gjörbreytt. Innviðirnir eru öruggari, og eftirlitið er skilvirkara. Kröfur um sterkari veð fyrir lánum, betri ferla við ákvarðanir og öruggari starfsemi (meira af sterku eigin fé), hafa verið leiddar í lög.
Sársaukafullt uppgjör mikilvægt
Á Íslandi hefur þetta verið gert, og vafaatriði meðal annars verið skýrð í gegnum sársaukafullt uppgjör fyrir dómstólum, sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Það uppgjör er hluti af mikilvægum lærdómi sem komandi kynslóðir munu búa að, og það er óhjákvæmilegt, í ljósi hvernig hlutafé hinna föllnu íslensku banka var fjármagnað að stórum hluta. Af þeim sjálfum.
Ólíkt því sem margir halda, þá eru umfangsmikil mál ennþá til rannsóknar í Bandaríkjunum vegna hrunsins árið 2008, fyrir utan síðan sektargreiðslur sem fjármálafyritæki hafa greitt í ríkissjóð. Þær nema samtals yfir 50 milljörðum Bandaríkjadala, og ekki öll kurl komin til grafar ennþá.
Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Sally Yates, sagði í ræðu sem hún hélt við lagadeild NYU fyrir rúmlega ári síðan, að nú væri kominn upp tími þar sem ekki væri verið að velja úr tiltekin mál. Með þessari nýlegu stefnubreytingu, væri verið að horfa til langs tíma, og að áherslan yrði að vera á öll afbrot einstaklinga en ekki fyrirtækjasamsteypur. „Það er allt, eða ekkert,“ sagði hún og lagði áherslu á að enginn ætti að geta verfið hafinn yfir lögin eða geta samið sig frá lögbroti sem sannarlega var framið. Þá væri ekki framhjá því horft, að ef það festi rætur í viðskiptaheiminum, að það væri raunverulega hægt að komast upp með umfangsmikla glæpi, sem hefðu mikl áhrif á almannahag, þá væri það alvarlegt mál. Slíkt mætti ekki gerast.
Hvergi nærri lokið
Andrew Ross Sorkin, höfundur bókarinnar Too Big to Fail og ritstjóri Dealbook hluta vef New York Times, hefur sjálfur sagt að þessi orð Yates hafi gefið bankamönnum vísbendingu um að rannsóknum sé langt í frá lokið. Sá tími verður tekinn í þær sem þarf.
Ísland er eyland og eins og mál standa nú er fjármálakerfið að litlu leyti sambærilegt við það sem þekkist annars staðar. Ríkið á 80 prósent af því, og mun fá til sín söluandvirði Arion banka, hvernig sem fer með þá sölu á endanum. Kannski eignast ríkið þann banka líka, hver veit. Síðan er það hin einstaka staða, að vera með eigin mynt og sjálfstæðan seðlabanka á vinnumarkaði sem telur 190 þúsund manns. Sú staða mun alltaf hafa afgerandi áhrif á það hvernig fjármálakerfið verður uppbyggt.
Hvað gerist næst?
Too Big to Fail-vandamálið er ekki farið neitt og bakábyrgð seðlabanka – hugmyndin um að seðlabankar séu bankar bankanna ef í harðbakkann slær – er ennþá grundvöllur fjármálakerfanna. Þrátt fyrir að innviðirnir hafi mikið breytst, þá er þetta staða sem er umhugsunarefni fyrir markaði. Þetta er ekki einkamálefni fjármálafyrirtækjanna til að ræða né heldur stjórnmálamanna. Í grunninn er þetta siðferðislegt mál að miklu leyti, og almannahagsmunir eru undir í því að tryggja, að hvatarnir í fjármálakerfinu virki í réttar áttir. Þeir mega ekki ýta undir fífldirfsku, í ljósi þessa grundvallar.
Almenningur fjármagnar íslenska fjármálakerfið með innlánum sínum, og enn sem komið hafa bankarnir ekki stigið stór skref inn á alþjóðlega markaði þegar kemur að fjármögnun. En þau skref sem hafa verið stigin eru mikilvæg, engu að síður, enda er tenging íslenska hagkerfisins við útlönd afar mikilvæg til langs tíma litið, og þá á ekki að vanmeta það hversu mikilvægt er að viðhalda henni.
Skýrsla SFF gefur tón í þá átt, að íslenska fjármálakerfið þurfi að þróast í takt við það sem er að gerast alþjóðlega. Þetta er stóri punkturinn í skýrslunni, eins og ég meðtek þessar upplýsingar. Þetta held ég að sé rétt mat höfunda, í það minnsta upp að vissu marki. Ísland stendur þó á öðrum stað með sitt fjármálakerfi, eftir hremmingarnar og endurreisnarstarfið á undanförnum árum. Ef það er hægt að stíga stór skref í þá átt, að takmarka ríkisábyrgð á mistökum bankamanna og minnka Too Big to Fail-vandann, þá væri það óskandi.
Það er vinnan sem að hluta til er í undir í því að skýra ítarlega hvernig fjármálakerfið á að virka, sem almenningur á að næstum öllu leyti, og hvaða starfsemi það er sem á að starfa án nokkurrar ríkisábyrgðar. Á að brjóta bankanna upp og aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi alveg? Þetta er stór spurning í þessu samhengi.
Ríkisstjórnin sem tekur við stjórnartaumunum eftir kosningarnar 29. október mun óhjákvæmilega þurfa að marka stefnu í þessum málum. Það verður spennandi að fylgjast með henni. Mikilvægast er að hún fari fram fyrir opnum tjöldum.