„Vigdísarskýrslumálið“ heldur áfram að blása upp pólitísku ryki en engu öðru. Það er stórmerkilegt að stjórnmálamenn sjái enga ástæðu til þess að gleðjast yfir því þegar þeir standa sig vel, þvert á flokka, í risavöxnu hagsmunamáli fyrir almenning.
Mesta afrekið á hinu pólitíska sviði eftir hrun fjármálakerfisins, er endurreisn þess. Í því verkefni þurfti pólitíska forystu, samvinnu við erlenda og innlenda sérfræðinga, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, málamiðlanir og að lokum þann lokahnykk sem oft er erfitt að ná fram þegar það er verið að ljúka málum. Þá reynir á virðingu fyrir sjónarmiðum annarra, og blákalt stöðumat.
Það nötraði og skalf á hinu pólitíska sviði, vissulega, og reglulegar fréttir af deildum meiningum stjórnarflokkanna og hagsmunagæslu vogunarsjóðanna á Wall Street (Deutsche Bank alltaf grunsamlega nærri), sem þekktir eru fyrir að svífast einskis til að ná sínu fram, lýstu upp hversu erfitt verkefni þetta var í reynd.
Nú tæpum átta árum eftir að Þorsteinn Már Baldvinsson, þáverandi stjórnarformaður Glitnis, fór á fund Davíðs Oddssonar, þáverandi stjórnarformanns Seðlabanka Íslands, vegna slæmrar stöðu Glitnis, þá er kannski tímabært að horfa yfir farinn veg.
Ríkisstjórnir eiga heiður skilinn
Ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eiga þakkir skildar fyrir að klára gríðarlega umfangsmikla vinnu, sem hefur fært almenningi ávinning af endurreisnarstarfinu sem erfitt var að sjá fyrir að myndi nást fram þegar staðan var sem verst. Í grunninn voru svo aðgerðir sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde greip til í hruninu, með samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), árangursmiklar og reyndust vel. Það er búið að endurgreiða AGS allt, og ríkissjóður stendur traustum fótum.
Núna er staðan sú, að íslenska ríkið á 80 prósent af
fjármálakerfinu, og eigið fé þess – mun traustara en það var áður – nemur tæplega
500 milljörðum króna. Almenningur á þennan ávinning núna og getur í gegnum
lýðræðislegar umbætur ráðið því hvernig fjármálakerfið verður byggt upp til
framtíðar litið.
Þetta er mikill árangur og um margt einstakur.
Hvers vegna ákveða nefndarmenn í fjárlaganefnd að niðurlægja embættismenn og sérfræðinga sem störfuðu í pólitísku umboði stjórnmálamanna úr mörgum flokkum?
Öll skrefin í þessu rúmlega átta ára langa ferli, skiptu máli. Allt frá haustinu 2008 og fram á þetta ár. Uppgjörið við slitabú hinna föllnu banka var ákveðinn lokapunktur í því ferli sem hófst með samstarfi ríkisins og kröfuhafa. Ævintýraleg óráðsía, margvísleg lögbrot stjórnenda og vanefndir stærstu skuldara hinna föllnu banka gerðu stöðuna hrikalega erfiða. En það tókst að leysa úr þessu.
Vigdís Hauksdóttir hefur því miður farið með fleipur, og niðurlægt Framsóknarflokkinn og stjórnmálin í leiðinni. Ég veit um eitt dæmi þess, þar sem hún gaf í skyn að ég hefði sjálfur tekið þátt í lögbrotum með því taka til mín gögn um samningaferlið við kröfuhafana, og staðið í makki með stjórnmálamönnum. Hún lét þessi orð falla á Útvarpi Sögu. Mér finnst þetta meiðandi vegna þess að ég hef í gegnum tíðina átt í ágætum samskiptum við stjórnmálamenn úr öllum flokkum.
Nákvæmlega svona kom orðasamsetningin frá Vigdísi, þar sem hún ræddi um pistlaskrif Þórðar Snæs kollegga míns í útvarpinu: „Ég veit ekki hvort það hafi áhrif, að aðili sem er með honum þarna á Kjarnanum, er bróðir fyrrverandi aðstoðarmanns Steingríms J. Sigfússonar…Þannig að það gætu nú alveg verið þarna einhverjar upplýsingar sem lægu þarna inni skiluru, sem eru til varnar fyrrverandi fjármálaráðherra. Ég ætla einmitt að spyrja hann að þessu, þegar þar að kemur, þegar hann kemur fyrir nefndina, hvort það hafi haft áhrif á skrif hans. Síðan náttúrulega aðstoðarmaður fjármálaráðherra, lak upplýsingum úr ráðuneytinu og var að reyna að afvegaleiða fjölmiðla, þegar hérna, fyrirgefðu orðbragðið, þegar pósturinn sem að nefndist tussufínt, að afvegaleiða, fjölmiðla, þetta var nú sá tími sjáðu.“
Allt rangt
Allt sem hún sagði, á innan við 30 sekúndum, var rangt. Tímalínan röng, talað um rangt fólk í samhengi við umræðuefnið, ráðuneytum ruglað saman, og innihald ekki ónákvæmt heldur samhengislaus della. Bróðir minn réð sig sem aðstoðarmann ráðherra í atvinnuvegaráðuneytinu árið 2012, en samið var við kröfuhafa árið 2009 og var þá fjármála- og efnahagsráðuneytið með það helst á sinni könnu. Hann kom hvergi nærri og gat það ekki, og ég hafði reyndar ekki heldur verið að skrifa neitt um málið. Þarna er ákveðinn ómöguleiki, svo vitnað sé í stjórnmálastéttina.
Vigdís virðist lítið skynbragð hafa á það, hvenær hún er komin yfir strikið og hvenær ekki. Það er fyrst og síðast sorglegt fyrir hana, Framsóknarflokkinn og stjórnmálin.
Nú þegar hún er að yfirgefa Alþingi, þá finnst henni og félögum hennar eðlilegt að hætta með því gera endurreisn bankakerfisins, og einstaka þætti hennar, tortryggilega með því að ráðast að fólki sem vann í pólitísku umboði stéttarinnar sem þau tilheyra.
Lokaniðurstaðan var „framar björtustu vonum“ svo vitnað sé Lee Bucheit.
Neyðarlögin eins og Wild Card í borðspili
Eðlilegast væri hjá henni að gleðjast yfir stöðunni, benda á góðan árangur í málinu þegar öll kurl eru komin til grafar. Almenningur áttar sig vel á því að með neyðarlögunum 6. október 2008 og fjármagnshöftunum í nóvember sama ár, auk lagasetningar sem skerpti á höftunum gagnvart slitabúnum árið 2012, þá tókst Íslandi að ná vopnum til að takast við erfiðleikana. Þetta voru efnahagslegar neyðaraðgerðir sem skiptu sköpum, og skópu samningsstöðu Íslands í gegnum allt endurreisnarferlið þar sem kröfuhafar fjármálakerfisins áttu að sjálfsögðu aðkomu.
Mörg svæði um allan heim, með miklu fleiri íbúa en Ísland gátu ekki beitt neyðarrétti til bjarga sér í fjármálakreppunni, með skelfilegum afleiðingum fyrir fólk á öllum aldri.
Nefna má svæði með mörg hundruð þúsund íbúa í Kaliforníu, Florida, Virginíu og Iowa í Bandaríkjunum, en einnig má nefna mörg svæði og borgir um alla Evrópu. Fjármálakreppan varanlega rústaði lífi fólks á þessum svæðum og það var ekki hægt að kasta út neinu neyðarlaga-Wild Cardi eins og við gerðum á Íslandi. Skellurinn kom bara og eftir var sviðin jörð. Fólk varð heimilislaust, venjulegt fólk. Tapaði öllu.
Meðaltalstölurnar segja ekki alla söguna, þegar örríkið Ísland er borið saman við stórþjóðir út í heimi.
Meiri auðmýkt
Stjórnmálamenn, og Vigdís og samstarfsfólk hennar í fjárlaganefnd alveg sérstaklega, mætti sýna örlítið meiri auðmýkt gagnvart þeim störfum sem stjórnmálastéttin hefur sinnt ásamt sérfræðingum á undanförnum átta árum. Og það með góðum árangri.
Það er þessi þvæla, eins og ég vitna til hér að ofan, og augljósa vantraust milli stjórnmálamanna í stjórn og stjórnarandstöðu, sem er að grafa undan tiltrú almennings á stjórnmálunum, eins og kollsteypur á fylgi í kosningunum 2009, 2010, 2013 og 2014 sýna.
Stjórnmálastéttin þarf ekkert að niðurlægja sig með innri deilum og illa skrifuðum skýrslum. Það sést alltaf að þverpólitísku samstarfi og virðingu þvert á flokka er vel tekið hjá almenningi. Má nefna fullgildingu Parísarsamkomulagsins sem dæmi þar um. Það gekk næstum hljóðalaust fyrir sig. Hratt og örugglega. Það er risavaxið mál sem mun breyta lífi fólks.
Efnahagsleg staða Íslands er líka góð á flesta mælikvarða, þó alltaf sé hætta á rússíbanareið sem endar einhvern veginn hjá örríki með sjálstæða mynt. En ef það fer illa aftur þá er gott að læra af reynslu undanfarinna ára, og byggja upp traust með góðri samvinnu frekar en skætingi, þvælu og niðurbroti.