Það er vinsæl söluræða hjá ráðandi stjórnvöldum að allir hafi það betra á Íslandi - jöfnuður hér sé meiri í mörgum öðrum löndum - og því eigi fólk að vera ánægt með stöðuna í stað þess að vera alltaf að kvarta. Þessi skoðun kom síðast fram í morgun í stöðuuppfærslu á Facebook sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, setti inn. Þar tengir hann við frétt Fréttablaðsins um að helmingur allra greiddra launa á árinu 2015 hafi farið til ríkasta fimmtungs launamanna. Auk þess hafi eignir ríkustu tíundar landsmanna, um 20 þúsund manns, aukist um 20 prósent frá árinu 2013 á meðan að eignir allra hinna hafi hækkað um 13 prósent. Niðurstaðan er skýr: hinir ríku verða ríkari.
Það eru nokkur atriði sem standast þó ekki nánari skoðun í málflutningi stuðningsmanna brauðmolakenningarinnar, sem útleggst þannig að að sé eftirsóknarvert að þeir ríku verði ríkari svo að allir hinir hafi það aðeins skárra. Hér eru þau helstu.
Hlutfallslegt segir ekkert
Í raun er að eiga sér stað á Íslandi klassísk barátta um skiptingu gæða. Þ.e. hvort að lítill hópur yfirstéttar eigi að taka miklu meira til sín en hinir - líkt og er nú - eða hvort að skipta eigi gæðunum jafnar.
Pilsfaldarkapitalistar í hugmyndafræðilegu gjaldþroti brauðmolakenningarinnar sveipa sig iðulega frjálshyggjufána þegar þeir boða fyrri leiðina. Innihald söluræðu þeirra er þó fyrst og síðast það að reyna að festa í sessi stjórnmálaflokka sem standa þeim nærri og geta tryggt þeim gnótt bitlinga sem hent er í þá úr valdastöðum. Og leikurinn felst í því að láta fólk horfa á hlutfallslega aukningu á launum, í stað raunverulega skiptingu gæða í krónum og aurum.
Þetta er sniðugt herbragð. Launamunur er enda nokkuð lítill á Íslandi. Laun eru reyndar almennt lág hér í samanburði við önnur svæði í kringum okkur, jafnt háu og lágu launin.
En misskiptingin sem við búum við, og litar alla samfélagsgerð okkar, snýst ekki um laun. Hún snýst um eignir. Á Íslandi er lítill hluti þjóðarinnar sem á mikið af þeim og hefur miklar tekjur af. Svo er stór hluti sem vinnur hjá litla hlutanum.
Hinir ríku verða ríkari
Kjarninn hefur undanfarið birt tvær fréttaskýringar sem sýna þessa þróun svart á hvítu. Sú fyrri, sem birtist 4. október, byggði á nýjum tölum frá Hagstofu Íslands um eignir og skuldir Íslendinga. Samkvæmt þeim hefur eigið fé Íslendinga tvöfaldast á sex árum, eða aukist um 1.384 milljarða króna.
Þessi nýi auður skiptist ekki jafnt á milli hópa. Af hreinni eign sem orðið hefur til frá árinu 2010 hefur ríkasta tíu prósent landsmanna, alls 20.251 fjölskyldur (einstaklingar og samskattaðir), tekið til sín fjórar af hverjum tíu nýjum krónum sem orðið hafa til í íslensku samfélagi. Þessi 20 þúsund manna hópur átti 1.880 milljarða króna í lok síðasta árs, eða 64 prósent af eignum landsmanna. Á sama tíma skuldaði fátækari helmingur þjóðarinnar, rúmlega 100 þúsund vinnandi manns, 211 milljarða króna umfram eignir sínar. Það þýðir að munurinn á eiginfjárstöðu fátækasta helmings þjóðarinnar og ríkustu tíu prósenta hennar var 2.091 milljarðar króna.
Auður hinna ríku vanmetinn
Þegar þessi staða er falin í hlutfallstölum kemur þetta ekki jafn skýrt fram. Þegar eign fátæklingsins hækkar úr 100 þúsund krónur í 120 þúsund krónur þá er það hlutfallsleg hækkun um 20 prósent. Þegar eign eignamannsins eykst úr einum milljarði króna í 1,1 milljarð króna þá er sú hækkun hlutfallslega minni en hækkun hins fátæka, eða tíu prósent. En eignarmaðurinn eignaðist samt sem áður 100 milljónir króna á sama tíma og sá fátækari eignaðist 20 þúsund krónur.
Þess utan er vert að benda á að tölur Hagstofunnar vanmeta hversu mikið hinir ríku á Íslandi efnast ár frá ári. Ástæðan er sú að hún mælir að fullu leyti t.d. hækkun fasteignaverðs (sem útskýrir 82 prósent af allri eiginfjáraukningu Íslendinga á síðustu sex árum og nánast alla eignaaukningu fátækari hluta landsmanna) en færir eignir í verðbréfum inn á nafnvirði.
Alls nam verðbréfaeign þjóðarinnar 422,3 milljörðum króna í lok árs í fyrra og hafði þá aukist um 38,3 milljarða króna á einu ári. Ríkasta tíu prósent Íslendinga átti 361,5 milljarða króna í verðbréfum um síðustu áramót og því liggur fyrir að 86 prósent allra verðbréfa var í eigu þess hóps. Af þeirri 38,3 milljarða króna virðisaukningu verðbréfa sem varð í fyrra fóru 35,5 milljarðar króna, eða 93 prósent, til ríkustu 20 þúsund Íslendinganna á vinnumarkaði.
Þá vantar auðvitað inn allar erlendu eignirnar sem þessi hópur á, og er ekki talin fram hérlendis. Samkvæmt tölum Seðlabankans eiga Íslendinga rúmlega eitt þúsund milljarða króna erlendis. Þar af eru t.d. 32 milljarðar króna á Tortóla-eyju, sem er þekkt lágskattasvæði. Í Panama-skjölunum var upplýst að tæplega 600 Íslendingar ættu um 800 félög sem Mossack Fonseca, lögfræðistofa sem sérhæfir sig í „skattahagræði“ og í að fela eignir, sá um fyrir þá. Ljóst er að aflandsfélagaeign Íslendinga er mun víðtækari vegna þess að Mossack Fonseca var ekki eina stofan sem þjónustaði Íslendinga.
Ríkasta eina prósentið
Á föstudag birti Kjarninn svo fréttaskýringu sem byggði á nýjum tölum Ríkisskattstjóra um staðtölur skatta. Í þeim tölum var hægt að sjá út hversu mikið Íslendinga þénuðu í fjármagnstekjur í fyrra. Það eru tekjur sem þeir höfðu af eignum sínum: t.d. vöxtum af innlánsreikningum eða skuldabréfaeign, tekjur af útleigu húsnæðis, arðgreiðslur, hækkun á virði hlutabréfa eða hagnaður af sölu fasteigna eða verðbréfa.
Í tölunum kom í ljós að tekjuhæsta eitt prósent landsmanna þénaði samtals 42 milljarða króna í fjármagnstekjur í fyrra. Um er að ræða undir tvö þúsund framteljendur. Þessi hópur tók til sín 44 prósent af öllum fjármagnstekjum sem urðu til hérlendis í fyrra. Það þýðir að 99 prósent þjóðarinnar skipti með sér 56 prósent fjármagnstekna.
Samandregið þá liggur fyrir svart á hvítu að það er staðreynd að lítill hópur eignafólks hagnast á samfélagsgerð okkar langt umfram það sem þorri þjóðarinnar gerir.
Aðgengi valinna að tækifærum
Það er auðvitað matsatriði hvort að þessi staða sé í lagi eða ekki. Sumir eru sannarlega á þeirri skoðun að svona eigi það að vera. Frelsi til að græða gríðarlega fjármuni sé forsenda þess að samfélagið þróist áfram. Aðrir eru ósammála þessari leið og telja að samþjöppun auðs á fárra hendur sé ein helsta samfélagslega meinsemdin sem við stöndum frammi fyrir.
Það á sérstaklega við á Íslandi þar sem ævintýralegar álnir verða oftast nær til af tveimur ástæðum: vegna nýtingar á náttúruauðlindum eða vegna aðgengis að tækifærum í gegnum stjórnmálaflokka eða aðrar valdaklíkur. Aðgengi og tengslanet skipta meira máli en hæfileikar í hagsældarleitinni.
Hérlendis var fiskveiðikvótinn gefinn litlum hópi landsmanna sem mátti síðan selja hann áfram og hirða afraksturinn. Frá lokum hrunsársins 2008 og fram til loka árs 2014 jókst eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja um 265 milljarða króna. Hagnaður þeirra var 242 milljarðar og arðgreiðslur til eigenda, sem er að stærstu leyti fámennur hópur nokkurra tuga einstaklinga, voru tæplega 50 milljarðar króna. Á sama tíma fóru veiðigjöld, sem renna í samneysluna fyrir afnot af auðlind sem þjóðin á, úr 12,8 milljörðum króna í 4,8 milljarða króna. Með ákvörðun stjórnvalda var ákveðið að færa nokkra tugi milljarða króna í viðbót í vasa eigenda sjávarútvegsfyrirtækja.
Aðgengi sumra að betri tækifærum er líka bersýnilegt. Ríkt fólk og rétt tengt er beinlínis handvalið til að græða peninga á Íslandi. Svívirðilegasta dæmið var einkavæðing bankanna árin 2002 og 2003, þegar gjörsamlega vanhæfir hópar fengu að eignast banka án þess að hafa getu til að reka þá eða leggja fram peninga til að kaupa þá, með ömurlegum afleiðingum fyrir íslenskt samfélag. Nýlegri dæmi má sjá í útdeilingu endurreistu bankanna á eignum sem þeir fengu í arf frá föllnu bönkunum, t.d. með sölunni á Borgun og sölu Arion banka á bréfum í Símanum á undirverði til ríkustu viðskiptavina í einkabankaþjónustu hans fyrir ári.
Misskipting hefur aukist undanfarna áratugi
Það er líka hamrað mikið á því þessa daganna að misskipting sé ekki að aukast á Íslandi. Það er beinlínis ósatt.
Árið 1997 átti ríkasta tíund landsmanna 56,3 prósent af öllu eigin fé í landinu. Tíu árum síðar hafði eigið fé Íslendinga fjórfaldast, enda banka- og eignabóla þá þanin til hins ítrasta, og ríkustu tæplega 20 þúsund Íslendingarnir áttu 2,5 sinnum meira eigið fé en öll þjóðin hafði átt samanlagt tíu árum áður. Þá nam hlutdeild þessarar ríkustu tíundar í heildar eigin fé Íslendinga 62,8 prósentum.
Eftir bankahrunið tapaði stór hluti landsmanna miklu af eignum sínum. Það átti sérstaklega við um þá sem áttu ekki mikið annað en t.d. eigið fé í húsnæði. Þótt ríkir Íslendingar hafi einnig tapað miklu áttu þeir enn mikið eigið fé í lok árs 2009. Alls lá 77,3 prósent alls eigin fjár hjá ríkustu tíund landsmanna á þeim tíma. Ríkasti fimmtungur landsmanna átti á þeim tíma 103 prósent af öllu eigin fé landsmanna. Það þýðir að restin, 80 prósent landsmanna, var samanlagt með neikvætt eigið fé.
Í lok síðasta árs átti ríkasta tíund landsmanna 64 prósent af öllu eigin fé sem til var hérlendis. Ríkustu 20 prósentin áttu 87 prósent þess. Staðan hefur vissulega batnað frá því eftir hrunið, þegar þorri Íslendinga sem ekki tilheyrir efsta laginu var eignarlaus, en misskiptingin er samt sem áður mun meiri en hún var fyrir 20 árum síðan. Hún er meira að segja meiri en hún var á hápunkti fyrirhruns-vitfirringarinnar á árinu 2007.
Það er hægt að breyta kerfum
Peningar og eignir tryggja völd og áhrif. Því meiri peningar og eignir sem safnast á fáar hendur því meiri verða völdin og áhrifin. Hérlendis eru þau að safnast á svo fárra hendur, sökum þess að hópur íslenskra fjölskyldna er að verða súperríkur á alþjóðlegan mælikvarða, að færa má sterk rök fyrir því að þessi hópur geti hagað sér eins og lénsherrar. Hann hefur keypt upp allskyns þjónustufyrirtæki sem varin eru með stjórnvaldsákvörðunum, á þorra auðlindanýtingarfyrirtækjanna, dælir peningum í ósjálfbæra fjölmiðla sem sinna grófri hagsmunagæslu fyrir þá og borga undir stjórnmálamenn og -flokka sem þeir telja að muni verja þeirra sérhagsmuni frekar en almannahagsmuni.
Það eru til tvær þjóðir á Íslandi. Sú sem á fullt og græðir mikið á því, og hin sem vinnur hjá henni. Þessi staða er afleiðing kerfis og það er hægt að mæta henni með því að breyta kerfinu. Það er val að gera það.
Fyrir stærstan hluta þjóðarinnar, sem sækir sín helstu lífsgæði til öflugrar samneyslu og þeirrar þjónustu sem haldið er úti með henni, ætti þetta að vera auðvelt val. En af einhverjum ástæðum tekst alltaf að sannfæra nægilega marga um að svo sé ekki.