Auglýsing

Það er vin­sæl söluræða hjá ráð­andi stjórn­völdum að allir hafi það betra á Íslandi - jöfn­uður hér sé meiri í mörgum öðrum löndum - og því eigi fólk að vera ánægt með stöð­una í stað þess að vera alltaf að kvarta. Þessi skoðun kom síð­ast fram í morgun í stöðu­upp­færslu á Face­book sem Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, setti inn. Þar tengir hann við frétt Frétta­blaðs­ins um að helm­ingur allra greiddra launa á árinu 2015 hafi farið til rík­asta fimmt­ungs launa­manna. Auk þess hafi eignir rík­ustu tíundar lands­manna, um 20 þús­und manns, auk­ist um 20 pró­sent frá árinu 2013 á meðan að eignir allra hinna hafi hækkað um 13 pró­sent. Nið­ur­staðan er skýr: hinir ríku verða rík­ari.

Það eru nokkur atriði sem stand­ast þó ekki nán­ari skoðun í mál­flutn­ingi stuðn­ings­manna brauð­mola­kenn­ing­ar­inn­ar, sem útleggst þannig að að sé eft­ir­sókn­ar­vert að þeir ríku verði rík­ari svo að allir hinir hafi það aðeins skárra. Hér eru þau helstu.

Hlut­falls­legt segir ekk­ert

Í raun er að eiga sér stað á Íslandi klass­ísk bar­átta um skipt­ingu gæða. Þ.e. hvort að lít­ill hópur yfir­stéttar eigi að taka miklu meira til sín en hinir - líkt og er nú - eða hvort að skipta eigi gæð­unum jafn­ar.

Auglýsing

Pils­fald­ar­kapita­listar í hug­mynda­fræði­legu gjald­þroti brauð­mola­kenn­ing­ar­innar sveipa sig iðu­lega frjáls­hyggju­fána þegar þeir boða fyrri leið­ina. Inni­hald sölu­ræðu þeirra er þó fyrst og síð­ast það að reyna að festa í sessi stjórn­mála­flokka sem standa þeim nærri og geta tryggt þeim gnótt bit­linga sem hent er í þá úr valda­stöð­um. Og leik­ur­inn felst í því að láta fólk horfa á hlut­falls­lega aukn­ingu á laun­um, í stað raun­veru­lega skipt­ingu gæða í krónum og aur­um.

Þetta er snið­ugt her­bragð. Launa­munur er enda nokkuð lít­ill á Íslandi. Laun eru reyndar almennt lág hér í sam­an­burði við önnur svæði í kringum okk­ur, jafnt háu og lágu laun­in.

En mis­skipt­ingin sem við búum við, og litar alla sam­fé­lags­gerð okk­ar, snýst ekki um laun. Hún snýst um eign­ir. Á Íslandi er lít­ill hluti þjóð­ar­innar sem á mikið af þeim og hefur miklar tekjur af. Svo er stór hluti sem vinnur hjá litla hlut­an­um.

Hinir ríku verða rík­ari

Kjarn­inn hefur und­an­farið birt tvær frétta­skýr­ingar sem sýna þessa þróun svart á hvítu. Sú fyrri, sem birt­ist 4. októ­ber, byggði á nýjum tölum frá Hag­stofu Íslands um eignir og skuldir Íslend­inga. Sam­kvæmt þeim hefur eigið fé Íslend­inga tvö­fald­ast á sex árum, eða auk­ist um 1.384 millj­arða króna.

Þessi nýi auður skipt­ist ekki jafnt á milli hópa. Af hreinni eign sem orðið hefur til frá árinu 2010 hefur rík­asta tíu pró­sent lands­manna, alls 20.251 fjöl­skyldur (ein­stak­lingar og sam­skatt­að­ir), tekið til sín fjórar af hverjum tíu nýjum krónum sem orðið hafa til í íslensku sam­fé­lagi. Þessi 20 þús­und manna hópur átti 1.880 millj­arða króna í lok síð­asta árs, eða 64 pró­sent af eignum lands­manna. Á sama tíma skuld­aði fátæk­ari helm­ingur þjóð­ar­inn­ar, rúm­lega 100 þús­und vinn­andi manns, 211 millj­arða króna umfram eignir sín­ar. Það þýðir að mun­ur­inn á eig­in­fjár­stöðu fátæk­asta helm­ings þjóð­ar­innar og rík­ustu tíu pró­senta hennar var 2.091 millj­arðar króna.

Auður hinna ríku van­met­inn

Þegar þessi staða er falin í hlut­falls­tölum kemur þetta ekki jafn skýrt fram. Þegar eign fátæk­lings­ins hækkar úr 100 þús­und krónur í 120 þús­und krónur þá er það hlut­falls­leg hækkun um 20 pró­sent. Þegar eign eigna­manns­ins eykst úr einum millj­arði króna í 1,1 millj­arð króna þá er sú hækkun hlut­falls­lega minni en hækkun hins fátæka, eða tíu pró­sent. En eign­ar­mað­ur­inn eign­að­ist samt sem áður 100 millj­ónir króna á sama tíma og sá fátæk­ari eign­að­ist 20 þús­und krón­ur.

Þess utan er vert að benda á að tölur Hag­stof­unnar van­meta hversu mikið hinir ríku á Íslandi efn­ast ár frá ári. Ástæðan er sú að hún mælir að fullu leyti t.d. hækkun fast­eigna­verðs (sem útskýrir 82 pró­sent af allri eig­in­fjár­aukn­ingu Íslend­inga á síð­ustu sex árum og nán­ast alla eigna­aukn­ingu fátæk­ari hluta lands­manna) en færir eignir í verð­bréfum inn á nafn­virði.

Alls nam verð­bréfa­eign þjóð­ar­innar 422,3 millj­örðum króna í lok árs í fyrra og hafði þá auk­ist um 38,3 millj­arða króna á einu ári. Rík­asta tíu pró­sent Íslend­inga átti 361,5 millj­arða króna í verð­bréfum um síð­ustu ára­mót og því liggur fyrir að 86 pró­sent allra verð­bréfa var í eigu þess hóps. Af þeirri 38,3 millj­arða króna virð­is­aukn­ingu verð­bréfa sem varð í fyrra fóru 35,5 millj­arðar króna, eða 93 pró­sent, til rík­ustu 20 þús­und Íslend­ing­anna á vinnu­mark­aði.

Þá vantar auð­vitað inn allar erlendu eign­irnar sem þessi hópur á, og er ekki talin fram hér­lend­is. Sam­kvæmt tölum Seðla­bank­ans eiga Íslend­inga rúm­lega eitt þús­und millj­arða króna erlend­is. Þar af eru t.d. 32 millj­arðar króna á Tortóla-eyju, sem er þekkt lág­skatta­svæði. Í Pana­ma-skjöl­unum var upp­lýst að tæp­lega 600 Íslend­ingar ættu um 800 félög sem Mossack Fon­seca, lög­fræði­stofa sem sér­hæfir sig í „skatta­hag­ræði“ og í að fela eign­ir, sá um fyrir þá. Ljóst er að aflands­fé­laga­eign Íslend­inga er mun víð­tæk­ari vegna þess að Mossack Fon­seca var ekki eina stofan sem þjón­u­staði Íslend­inga.

Rík­asta eina pró­sentið

Á föstu­dag birti Kjarn­inn svo frétta­skýr­ingu sem byggði á nýjum tölum Rík­is­skatt­stjóra um stað­tölur skatta. Í þeim tölum var hægt að sjá út hversu mikið Íslend­inga þén­uðu í fjár­magnstekjur í fyrra. Það eru tekjur sem þeir höfðu af eignum sín­um: t.d. vöxtum af inn­láns­reikn­ingum eða skulda­bréfa­­eign, tekjur af útleigu hús­næð­is, arð­greiðsl­­ur, hækkun á virði hluta­bréfa eða hagn­aður af sölu fast­­eigna eða verð­bréfa.

Í töl­unum kom í ljós að tekju­hæsta eitt pró­sent lands­manna þén­aði sam­tals 42 millj­arða króna í fjár­magnstekjur í fyrra. Um er að ræða undir tvö þús­und fram­telj­end­ur. Þessi hópur tók til sín 44 pró­sent af öllum fjár­magnstekjum sem urðu til hér­lendis í fyrra. Það þýðir að 99 pró­sent þjóð­ar­innar skipti með sér 56 pró­sent fjár­magnstekna.

Sam­an­dregið þá liggur fyrir svart á hvítu að það er stað­reynd að lít­ill hópur eigna­fólks hagn­ast á sam­fé­lags­gerð okkar langt umfram það sem þorri þjóð­ar­innar ger­ir.

Aðgengi val­inna að tæki­færum

Það er auð­vitað mats­at­riði hvort að þessi staða sé í lagi eða ekki. Sumir eru sann­ar­lega á þeirri skoðun að svona eigi það að vera. Frelsi til að græða gríð­ar­lega fjár­muni sé for­senda þess að sam­fé­lagið þró­ist áfram. Aðrir eru ósam­mála þess­ari leið og telja að sam­þjöppun auðs á fárra hendur sé ein helsta sam­fé­lags­lega mein­semdin sem við stöndum frammi fyr­ir.

Það á sér­stak­lega við á Íslandi þar sem ævin­týra­legar álnir verða oft­ast nær til af tveimur ástæð­um: vegna nýt­ingar á nátt­úru­auð­lindum eða vegna aðgengis að tæki­færum í gegnum stjórn­mála­flokka eða aðrar valda­klík­ur. Aðgengi og tengsla­net skipta meira máli en hæfi­leikar í hag­sæld­ar­leit­inni.

Hér­lendis var fisk­veiði­kvót­inn gef­inn litlum hópi lands­manna sem mátti síðan selja hann áfram og hirða afrakst­ur­inn. Frá lokum hrunsárs­ins 2008 og fram til loka árs 2014 jókst eigið fé sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja um 265 millj­arða króna. Hagn­aður þeirra var 242 millj­arðar og arð­greiðslur til eig­enda, sem er að stærstu leyti fámennur hópur nokk­urra tuga ein­stak­linga, voru tæp­lega 50 millj­arðar króna. Á sama tíma fóru veiði­gjöld, sem renna í sam­neysl­una fyrir afnot af auð­lind sem þjóðin á, úr 12,8 millj­örðum króna í 4,8 millj­arða króna. Með ákvörðun stjórn­valda var ákveðið að færa nokkra tugi millj­arða króna í við­bót í vasa eig­enda sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja.

Aðgengi sumra að betri tæki­færum er líka ber­sýni­legt. Ríkt fólk og rétt tengt er bein­línis hand­valið til að græða pen­inga á Íslandi. Sví­virði­leg­asta dæmið var einka­væð­ing bank­anna árin 2002 og 2003, þegar gjör­sam­lega van­hæfir hópar fengu að eign­ast banka án þess að hafa getu til að reka þá eða leggja fram pen­inga til að kaupa þá, með ömur­legum afleið­ingum fyrir íslenskt sam­fé­lag. Nýlegri dæmi má sjá í útdeil­ingu end­ur­reistu bank­anna á eignum sem þeir fengu í arf frá föllnu bönk­un­um, t.d. með söl­unni á Borgun og sölu Arion banka á bréfum í Sím­anum á und­ir­verði til rík­ustu við­skipta­vina í einka­banka­þjón­ustu hans fyrir ári.

Mis­skipt­ing hefur auk­ist und­an­farna ára­tugi

Það er líka hamrað mikið á því þessa dag­anna að mis­skipt­ing sé ekki að aukast á Íslandi. Það er bein­línis ósatt.

Árið 1997 átti rík­asta tíund lands­manna 56,3 pró­sent af öllu eigin fé í land­inu. Tíu árum síðar hafði eigið fé Íslend­inga fjór­faldast, enda banka- og eigna­bóla þá þanin til hins ítrasta, og rík­ustu tæp­lega 20 þús­und Íslend­ing­arnir áttu 2,5 sinnum meira eigið fé en öll þjóðin hafði átt sam­an­lagt tíu árum áður. Þá nam hlut­deild þess­arar rík­ustu tíundar í heildar eigin fé Íslend­inga 62,8 pró­sent­um.

Eftir banka­hrunið tap­aði stór hluti lands­manna miklu af eignum sín­um. Það átti sér­stak­lega við um þá sem áttu ekki mikið annað en t.d. eigið fé í hús­næði. Þótt ríkir Íslend­ingar hafi einnig tapað miklu áttu þeir enn mikið eigið fé í lok árs 2009. Alls lá 77,3 pró­sent alls eigin fjár hjá rík­ustu tíund lands­manna á þeim tíma. Rík­asti fimmt­ungur lands­manna átti á þeim tíma 103 pró­sent af öllu eigin fé lands­manna. Það þýðir að rest­in, 80 pró­sent lands­manna, var sam­an­lagt með nei­kvætt eigið fé.

Í lok síð­asta árs átti rík­asta tíund lands­manna 64 pró­sent af öllu eigin fé sem til var hér­lend­is. Rík­ustu 20 pró­sentin áttu 87 pró­sent þess. Staðan hefur vissu­lega batnað frá því eftir hrun­ið, þegar þorri Íslend­inga sem ekki til­heyrir efsta lag­inu var eign­ar­laus, en mis­skipt­ingin er samt sem áður mun meiri en hún var fyrir 20 árum síð­an. Hún er meira að segja meiri en hún var á hápunkti fyr­ir­hruns-vit­firr­ing­ar­innar á árinu 2007.

Það er hægt að breyta kerfum

Pen­ingar og eignir tryggja völd og áhrif. Því meiri pen­ingar og eignir sem safn­ast á fáar hendur því meiri verða völdin og áhrif­in. Hér­lendis eru þau að safn­ast á svo fárra hend­ur, sökum þess að hópur íslenskra fjöl­skyldna er að verða súper­ríkur á alþjóð­legan mæli­kvarða, að færa má sterk rök fyrir því að þessi hópur geti hagað sér eins og léns­herr­ar. Hann hefur keypt upp allskyns þjón­ustu­fyr­ir­tæki sem varin eru með stjórn­valds­á­kvörð­un­um, á þorra auð­linda­nýt­ing­ar­fyr­ir­tækj­anna, dælir pen­ingum í ósjálf­bæra fjöl­miðla sem sinna grófri hags­muna­gæslu fyrir þá og borga undir stjórn­mála­menn og -flokka sem þeir telja að muni verja þeirra sér­hags­muni frekar en almanna­hags­muni.

Það eru til tvær þjóðir á Íslandi. Sú sem á fullt og græðir mikið á því, og hin sem vinnur hjá henni. Þessi staða er afleið­ing kerfis og það er hægt að mæta henni með því að breyta kerf­inu. Það er val að gera það.

Fyrir stærstan hluta þjóð­ar­inn­ar, sem sækir sín helstu lífs­gæði til öfl­ugrar sam­neyslu og þeirrar þjón­ustu sem haldið er úti með henni, ætti þetta að vera auð­velt val. En af ein­hverjum ástæðum tekst alltaf að sann­færa nægi­lega marga um að svo sé ekki.

Meira úr sama flokkiLeiðari
None