Í umræðum um nýsamþykkta búvörusamninga hafa málefni Mjólkursamsölunnar nokkuð borið á góma með ýmsum hætti og stundum vandséð hvort heldur ræður þar ferð vanþekking eða meinfýsi.
Mig langar til að koma á framfæri nokkrum atriðum þeim til umhugsunar sem kynnu að vilja hafa heldur það sem sannara er. Mér til hægri verka mun ég nota skammstöfunina MS um þetta fyrirtæki, móðurfélag MS (Auðhumlu svf.) og fyrirrennara þeirra, Mjólkursamsöluna svf. Þessi félög eru svo nátengd að það ætti ekki að rugla neinn í ríminu. Þess skal getið að ég hef stundað kúabúskap síðan 1962 og sat í stjórn MS um árabil, sem og í stjórn Landssambands Kúabænda.
Rangar fullyrðingar sem oft heyrast:
1. MS er ríkisstyrkt einokunarfyrirtæki.
Þetta er alrangt. Þarna villa beingreiðslur til bænda mönnum sýn en þær eiga upphaf sitt í ráðstöfunum stjórnvalda til að halda niðri vísitölu neysluverðs en eru rekstri MS óviðkomandi fyrir utan að lækka verð á mjólk sem keypt er af bændum. Það verð er reyndar ákveðið af stjórnvöldum sem og útsöluverð á stærstu vöruflokkum í framleiðslu fyrirtækisins. MS nýtur því engra ríkisstyrkja en býr við víðtækari afskipti ríkisins um rekstrarforsendur en nokkurt annað fyrirtæki utan ríkisgeirans. Öllum, sem hafa boðlega aðstöðu til mjólkurvinnslu, er frjálst að stunda hana svo á því sviði er engri einokun til að dreifa. Hins vegar er MS í markaðsráðandi stöðu á mjólkurvörumarkaði sem skapast af því að nær allir kúabændur á landinu eru eignaraðilar að fyrirtækinu og treysta því best fyrir afurðum sínum.
2. MS er undanþegið Samkeppnislögum.
Skv. lögum frá 2004 eru afurðastöðvar í mjólk undanþegnar ákvæðum Samkeppnislaga um sameiningu fyrirtækja og samráð um verðlagningu og verkaskiptingu. Hins vegar gilda önnur ákvæði laganna um MS eins og önnur fyrirtæki s.s. bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Reyndar hefur MS ítrekað sætt ásökunum um slík brot og verið tekið til rannsóknar en ávallt verið sýknað af þeim nema í einu máli sem enn er til meðferðar og því ekki hægt að fullyrða neitt um lyktir þess.
3. Nýir búvörusamningar festa enn í sessi einokunaraðstöðu MS.
Ekki er ljóst hvað liggur að baki þessari fullyrðingu. Þegar er svarað rangfærslunni um einokun og ekkert í samningunum gefur tilefni til þessarar ályktunar. Þvert á móti eru MS þar lagðar nýjar kvaðir á herðar s.s. að safna mjólk um allt land, greiða hana öllum á sama verði og selja öðrum vinnsluaðilum mjólk og mjólkurafurðir til frekari vinnslu á verði sem opinber aðili ákveður.
4. MS hefur reynt að knésetja keppinauta í mjólkurvinnslu.
Þetta er ósatt. MS hefur ekki lagt stein í götu þessara aðila; þvert á móti hljóp félagið undir bagga með Ólafi Magnússyni í Mjólku og lánaði honum t.d. mjólkurbíl þegar hans bíll bilaði. Þegar hann svo gafst upp á söfnun mjólkur seldi MS honum þá mjólk sem hann óskaði. Síðan hafa ýmsir reynt að kaupa mjólk til vinnslu af bændum, en ætíð orðið frá að hverfa, ekki vegna aðgerða MS heldur vegna þess að það er meira en að segja sæll vertu að gera út mjólkurbíla, annast gæðaeftirlit o.sfrv. Þetta annast MS nú fyrir samkeppnisaðilana og selur þeim svo mjólkina á sama verði og það greiðir bændum og tekur því á sig kostnaðinn við gæðaeftirlit og umsýslu. Ég hygg að Örnu ehf. á Bolungarvík eða Kú ehf yrði þröngt fyrir dyrum ef þau gætu ekki einfaldlega hringt í MS og pantað þá mjólk sem þau þarfnast hverju sinni. Þetta kemur Örnu ehf. til góða í samkeppni um sölu á laktósafrírri mjólk þar sem hún fær hráefnið frá MS á niðursettu verði. Því er ranglega haldið fram að MS hafi hafið framleiðslu á þeirri vöru til höfuðs Örnu ehf. Hið rétta er að MS hóf þróun hennar löngu áður en Arna kom með sína vöru enda var MS á undan að setja hana á markað. Einnig hefur MS eftirlátið Bíó-búi markaðshilluna fyrir lífræna mjólk.
5. Um stuðning við mjólkurframleiðslu.
Skv. samningunum nemur árlegur stuðningur ríkisins við mjólkurframleiðslu árið 2017 6.550 mkr og skal fara lækkandi um ca 1% á ári til loka samnings. Þetta er auðvitað allhá upphæð en í umræðunni er hún oft talin miklu hærri. Þá er tekinn með hinn svokallaði „útreiknaður markaðsstuðningur“ sem er byggður á heimsmarkaðsverði á smjöri og undanrennudufti hverju sinni með samanburði við verð á mjólkurvörum í því landi, sem er til athugunar. Þetta er gert til að fá grundvöll til að bera saman þenna „stuðning“ milli landa, en óprúttnir aðilar halda því fram að verðlag innanlands myndi lækka að þessu marki ef innflutningur væri frjáls og ótollaður. Það er auðvitað fjarri lagi því að þó hægt sé að búa til t.d. ost úr smjöri og undanrennudufti er innkaupsverðið ekki eini kostnaðarliðurinn heldur bætist við flutningskostnaður með öllu sem honum fylgir, vinnslukostnaður, birgðahald, umbúðir, fjármagnskostnaður, verslunarálagning og virðisaukaskattur.
Ályktanir höfundar:
Þetta læt ég nægja um helstu rangfærslurnar, en vil bæta nokkru við. Mikið veður er gert útaf undanþágu MS frá vissum ákvæðum samkeppnislaga.Til að átta sig á ástæðum fyrir þessari undanþágu þarf að rifja upp forsöguna. Árið 1991 voru 15 mjólkursamlög starfandi á landinu við mjög mismunandi rekstrarskilyrði. Samt var þeim gert að greiða bændum ákveðið lágmarksverð fyrir mjólk og selja flestar framleiðsluvörur sínar á opinberlega ákveðnu verði. Til að þeim væri þetta unnt var í gangi víðtækt millifærslukerfi gegnum verðjöfnunarsjóð. Skiljanlega dró þetta úr áhuga manna á hagræðingu í starfseminni og jafnvel var grunur um misnotkun. A.m.k. tvær opinberar nefndir höfðu leitt í ljós að mikilli hagræðingu mætti ná með fækkun samlaga. Hófust þá víðtækar aðgerðir í þá átt. Fyrst með lokun á Patreksfirði og í Borgarnesi og síðar á Hornafirði, Neskaupstað, Vopnafirði, Húsavík, Blönduósi, Hvammstanga og Ísafirði. Nú er mjólk vegin inn í fimm stöðvum. En enn sáu menn færi til frekari hagræðingar með því að skipulag iðnaðarins væri á einni hendi sem ákvæði verkaskiptingu milli allra fyrirtækjanna. Í skjóli undanþágunnar frá nefndum ákvæðum samkeppnislaga 2004 var myndað nýtt samvinnufélag allra mjólkurframleiðenda utan Skagafjarðar, Auðhumla svf., sem á og rekur Mjólkursamsöluna ehf. með 10% aðild Kf. Skagfirðinga svf., sem hefur með stöðina á Sauðárkróki að gera, en hún lýtur engu að síður heildarskipulagi iðnaðarins.
Þannig hefur náðst gríðarleg hagræðing, sem metin er á þrjá milljarða króna sem árlegan sparnað skv. mati MS. Það hefur gert félaginu kleift að greiða bændum fullt verð og einnig að skila neytendum ávinningi með lægra verði. Nú kunna einhverjir að vantreysta þessu mati en niðurstöður Hagfræðisdeildar H.Í. og greiningadeildar Arion banka styðja við þetta mat. Það má því telja hafið yfir skynsamlegan vafa að umrædd undanþága sé réttlætanleg og hafi leitt til mikils ávinnings fyrir bæði bændur og neytendur.
Í þessu sambandi vil ég benda á að um þessar aðgerðir urðu að sjálfsögðu mikil átök og oft sárindi. Það er áfall fyrir fámennar byggðir þegar störf eru lögð af þó reynt sé að skapa önnur í staðinn. Innan raða kúabænda voru einnig skiptar skoðanir. Það var því félagslega mjög erfitt að ganga svo langt sem gert var í þessum málum, en viljinn var einbeittur og sannfæring til staðar. Þess má líka geta að Landssamband Kúabænda studdi þessar aðgerðir frá fyrstu stundu. Vert er að benda á að allt frumkvæði að þessari hagræðingu er komið frá eigendum MS, bændunum, sem gengur þvert á þá kenningu að félag á borð við MS, (í markaðsráðandi stöðu, með undanþágu frá vissum ákvæðum samkeppnislaga og undirorpið opinberri verðlagningu) sé líklegt til að falla í værukærð og kæruleysi um hagkvæmni í rekstri og þjónustu við neytendur.
Því er haldið fram að það væri bændum til hagsbóta að meiri samkeppni ríkti á mjólkurmarkaði. Erfitt er að leggja trúnað á það t.d. í ljósi reynslu sauðfjárbænda. Okkur kúabændum er ljóst að starfsemi MS er sá grunnur sem afkoma okkar byggist á og sterk staða félagsins gagnvart smásölunni gerir okkur kleift að verjast þeim bolabrögðum sem stór fyrirtæki á því sviði beita gjarna. Við höfum ekki gert kröfu um ágóða af rekstrinum þó stundum hafi náðst örlítil ávöxtun eigin fjár þá hefur hún verið svo lág að óviðunandi þætti í öðrum rekstri. Við lítum miklu fremur á MS sem hluta af félagskerfi okkar, ekki ósvipað því sem stéttarfélög eru launþegum þar sem tilgangur beggja er að tryggja félagsmönnunum viðunandi afrakstur vinnu sinnar. Dæmi um hina ríku félagskennd innan MS er að allir innleggjendur greiða sama gjald fyrir flutning mjólkur frá býli hvort sem það stendur nærri afurðastöðinni eða fjarri. Sama gildir um verð á söluvörum félagsins.
Ég bið lesendur þessa pistils, sérstaklega þá sem fjalla um málefni MS í fjölmiðlum, að hyggja að þeim atriðum sem ég hef sett hér fram.