Ég var svo lánsöm að vera viðstödd þegar Yoko Ono veitti viðurkenningu úr sjóð sem hún stendur á bak við sem styður við baráttu fyrir réttlæti og friði í heiminum. Að þessu sinni var það listafólkið, Ólafur Elíasson, Anish Kapoor, Katalin Ladik og Ai Weiwei sem hlaut viðurkenningu.
Þetta listafólk á það sameiginlegt að vera framúrskarandi í því sem þau taka sér fyrir hendur og túlka samtímann og berjast fyrir betri heimi með sinni listsköpun. Listin er nefnilega ekki bara til prýðis. Hún hefur líka rödd.
Ólafur Elíasson er einn af okkar virtustu listamönnum. Hann ljáði Hörpu ljós sem hefur ekki aðeins verið ljós í myrkri heldur hefur ljósadýrð hennar skipt litum í þeim tilgangi að vekja fólk til vitundar m.a þegar illvirki hafa verið framin. Harpa var t.d. sveipuð frönsku fánalitunum þegar ódæðisverkin voru framin í París fyrir tæpu ári. Ólafur ákvað að verðlaunafé sitt færi til dönsku mannréttindasamtakanna Maternity Foundation en þau vinna í löndum og á svæðum þar sem heilsugæslu er verulega ábótavant. Starfið felst í þvi að reyna að því að bjarga lífi um kvenna og barna þegar upp koma alvarleg vandamál tengd meðgöngu og fæðingu.
Tvær konur frá samtökunum veittu fénu viðtökur. Í ræðu sinni sögðu þær meðal annars: „Á hverjum degi deyja 800 konur af barnsburði eða af vandamálum tengdum meðgöngu. Þar af deyja 500 konur á stríðshrjáðum svæðum“.
Þetta þýðir að um 300.000 konur deyja árlega vegna barnsburðar eða heilsufarsvandamálum á meðgöngu.
Aðeins þessi sorglega staðreynd ætti að verða til þess að þróunaraðstoð Íslendinga sé aukin. Við eigum auðvitað að leggja meira af mörkum til að vernda mæður, ófædd og nýfædd börn sem eru í svona viðkvæmri stöðu.
Í vikunni sem leið var loksins stofnað friðarsetur sem er samstarf Reykavíkurborgar og Háskóla Íslands. Jón Gnarr lagði ríka áherslu á að slíkt setur yrði stofnað þegar hann var borgarstjóri. Þá var ég borgarfulltrúi Besta flokksins og studdi þessa hugmynd.
Jón Gnarr og við öll í Besta flokknum töluðum mikið fyrir friði og fengum við stundum að heyra að þetta væri gæluverkefni, að við værum bara draumórafólk.
Hvernig getur það verið gæluverkefni að vinna að friði? Að við vekjum athygli sem friðelskandi þjóð skiptir máli. Ljóssúla sem minnir okkur á frið í hvert sinn sem hún ber fyrir augu skiptir líka máli. Líka hluttekning í formi lita á Hörpu. Líka Höfði friðarsetur sem var opnað í vikunni þegar 30 ár voru liðin frá sögulegu leiðtogafundi þar sem tekin voru mikilvæg skref í átt að friði og lokum kalda stríðsins. Allt skiptir þetta máli.
Það er staðreynd að það eru til alltof margar bækur og heimildir um stríð og átök en alltof fáar um velgengni í friðarsamræðum og hvernig við breytum slæmum aðstæðum í góðar. Og svo ég tali nú ekki um að að sjaldan er minnst á allar þær konur sem hafa rutt veginn í þágu friðar. Smá útúrdúr en á rétt á sér.
Það skiptir miklu máli hverjir eru við stjórnvölinn. Það skiptir miklu máli að þar sé fólk sem þorir. Fólk sem hefur skýra framtíðarsýn. Friður og mannréttindi eru viðfangsefni sem ég mun alltaf setja í forgang.
Höfundur er stjórnarformaður Bjartrar framtíðar og í 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík suður.