Eitt af vinsælustu orðunum fyrir þessar kosningar er orðið kerfisbreytingar. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að undir hans stjórn verði ekki ráðist í neinar kerfisbreytingar og vilji þar með viðhalda núverandi ástandi að öllu leyti. Við hin í stjórnarandstöðuflokkunum höfum mörg hver talað um að ráðast í nauðsynlegar kerfisbreytingar. Það er mismikið eftir stjórnmálaflokkum hvaða breytingum viðkomandi flokkur vill beita sér fyrir og hversu róttækar þær kerfisbreytingar eiga að vera.
Við í Vinstri grænum höfum til að mynda talað um kerfisbreytingar þegar kemur endurreisn heilbrigðiskerfisins og velferðarkerfisins. Það er líka bráðnauðsynlegt að breyta þeim grunnkerfum til að við höfum öll jafnan rétt að góðri heilbrigðisþjónustu og til að draga úr stigvaxandi ójöfnuði.
Hverjar eru kerfisbreytingar framtíðarinnar ?
En ein stærsta kerfisbreyting nútímans og til framtíðar eru án efa loftlagsmálin. Og ekki að ástæðulausu; loftslagsbreytingarnar ógna ekki eingöngu hagsmunum umheimsins alls, heldur er hagsmunum Íslands og ekki síst framtíðarkynslóðum ógnað vegna þeirra.
Vegna hlýnunar loftslags er mikil hætta á að jöklarnir hverfi innan 150-200 ára, sem hefur gríðarleg áhrif á raforkuframleiðslu hér og við þurfum því að endurhugsa orkukerfið hér ef fram heldur sem horfir. Bráðnun jökla hefur líka í för með sér landris sem getur valdið tíðari eldsumbrotum. Úrkomumynstur á landinu mun breytast töluvert, sem getur haft áhrif á landbúnað og flóðahættu. Áhrif hækkandi sjávarborðs á heimsvísu gætu orðið þónokkur hér. Alvarlegustu áhrifin yrðu þó vegna súrnunar sjávar, sem er áhrif af losun koltvísýrings. Hafið tekur upp um 1/3 af losuninni sem veldur því að það súrnar. Súrt haf leysir upp skel kalkmyndandi lífvera sem eru undirstöður mjög stórra vistkerfa í hafi. Hrynji þær tegundir eru allri keðjunni ógnað, þar á meðal tegunda sem Ísland byggir sjávarútveginn á.
Gott og vel. Er þá ekki bara nóg að við einstaklingarnir hlýðum ákallinu og drögum úr mengandi lífsháttum okkar ? Flokkum ruslið betur og vöndum okkur enn meir við innkaupin ? Veljum meira lífrænt, tökum strætó oftar, pössum upp á að eyða minna rafmagni, sleppum plastpokunum, hendum ekki afgöngum og veljum lífrænt vottaðar snyrtivörur ?
Þetta er allt gott og blessað, en við þurfum miklu róttækari og víðtækari aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingunum.
Einstaklingar geta ekki einir snúið við loftlagsbreytingum
Við höfum engan tíma til að bíða eftir því að einstaklingar eða markaðurinn taki við sér og leysi loftslagsvandann af sjálfsdáðum. Hið opinbera þarf og verður að taka af skarið. En hvernig ? Það er okkar skoðun í Vinstri grænum að Ísland á að verða kolefnishlutlaust árið 2050 og helst mun fyrr en það. Það þarf að hverfa frá áformum um olíuvinnslu, skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa og strika út af borðinu frekari áform um mengandi stóriðju. Efla þarf rannsóknir á áhrifum hlýnunar á vistkerfi lands og sjávar með sérstakri áherslu á súrnun sjávar og huga að viðbrögðum vegna hækkunar sjávarborðs um allt land. Tryggja þarf að gengið verði um náttúruauðlindir Íslands af ábyrgum hætti.
Það er líka hlutverk ríkisins og sveitarfélaga að skapa umhverfi sem beinir neyslu fólks að loftslagsvænum vörum. Skattaívilnanir fyrir grænar lausnir og græn innkaup og grænir skattar á mengandi starfsemi eru nauðsynlegir. Hvatinn fyrir grunnatvinnuvegi landsins til að vera minna mengandi og sem grænastir verður að vera raunverulegur og þar með koma frá hinu opinbera, ekki bara frá markaðnum. Og í opinberri atvinnustefnu verðum við að leggja áherslu á fjölbreytt atvinnulíf með minni og meðalstór fyrirtæki sem hafa grænar áherslur í hvívetna.
Ríki og sveitarfélög verða líka að vera með „grænu gleraugun“ á nefinu við allar ákvarðanatöku. Allar áætlanir ríkisins, rekstur ríkisstofnana og frumvörp þarf ávallt að skoða og meta út frá loftslagsáhrifum og með tilliti til umhverfissjónarmiða. Efla þarf almenningssamgöngur enn frekar og byggja upp af krafti innviði samgöngukerfisins í þágu umhverfisins. Kannski væri ráð að stofna ráðuneyti loftslagsmála, eins og í mörgum löndum í kringum okkur. Svo þarf auðvitað að tryggja að stjórnarskráin hafi alvöru umhverfisákvæði og að náttúruauðlindir séu í þjóðareign. Þetta og meira þarf að tryggja til árangur til að draga úr loftslagsbreytingum og við þurfum að byrja opinberar aðgerðir strax. Fögur orð duga ekki því við megum engan tíma missa. Ráðumst í alvöru kerfisbreytingar í loftslagsmálunum og forgangsröðum fyrir framtíðina.
Höfundur er í 1.sæti Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi.