Ímyndið ykkur í smástund að það sé enginn háskóli á Íslandi sem kenni listsköpun, hönnun, tónlist eða dans. Að í hans stað sé bara djúp hola einhvers staðar milli Bændahallar og Þjóðarbókhlöðu sem smám saman fyllist vatni. Ímyndið ykkur að íslenska ríkið hafi enga mennta- eða atvinnustefnu til að bregðast við breyttri heimsmynd aukinnar sjálfvirknivæðingar og gífurlegrar tækniframþróunar. Ímyndið ykkur þetta í smástund? Var það erfitt?
Ungur nemi í mygluðum skóla
Ég hóf nám við Listaháskóla Íslands árið 2005 á framúrstefnulegri braut sem nefndist Fræði og Framkvæmd (og heitir núna sviðshöfundabraut). Fram að þessum tímapunkti hafði ekki verið nám á Íslandi sem kenndi leikstjórn, leikhúsfræði eða leikritun. Ári síðar var svo komið nám á háskólastigi í dansi. Það olli því að ég kynntist konu minni sem var við þá braut. Ef ekki hefði verið fyrir þessi tvö skólastig hefðum við eflaust bæði farið út í nám, og miðað við tölfræðina eru ágætis líkur á því að annað okkar hefði síðan aldrei komið heim. (Nema um jólin).
Slík eru reyndar örlög margra af minni kynslóð sem mennta sig í einhverju óvenjulegu. Starfsframinn togar mann út og ekkert togar mann heim aftur af því stjórnvöld kunna ekki að skapa starfsskilyrði fyrir menntað fólk. Það er munur á áburðarverksmiðju og því að sækja um inngöngu í evrópsku geimvísindastofnunina með fullri virðingu fyrir Hvíta Rússlandi, stærsta áburðarframleiðanda Evrópu.
Listaháskólinn er metnaðarfullur skóli en ég uppgötvaði snemma í náminu að stjórnvöld töldu hann annars flokks. Húsnæðið við Sölvhólsgötu þar sem helstu leikarar Íslands hafa menntað sig, eins og t.d. Ingvar E. Sigurðsson og Nína Dögg Filippusardóttir er hriplekt hús, það er illa hljóðeinangrað þannig að þú heyrir gaulið í faggottleikurum, básúnum, fiðlum og rafmögnuðum sagvélmennum sem tónsmíðabrautin hefur prógrammerað allan liðlangan daginn og með myglusveppi í veggjum. Hluti húsnæðisins er ónothæft af því það er ekki hitað, ekkert mötuneyti og bókasafn er í húsinu sökum niðurskurðar. Það er þröngt og lyftulaust til að tryggja að enginn í hjólastól geti lært á hljóðfæri og að dáðasti óperusöngvari Íslands, Kristinn Sigmundsson, þurfi á gamals aldri að klöngrast upp á ris til að kenna list sína.
Svona átti þetta aldrei að vera. Samt er þetta svona. Og á tuttugustu og fyrstu öldinni, öld upplifanahagkerfisins, þar sem skapandi greinar verða drifkrafturinn í hagvexti er þetta beinlínis þjóðaröryggismál.
Fjórða iðnbyltingin kemur
Það er eiginlega aldrei talað um framtíðina þegar talið berst að atvinnu eða efnahagsstefnu. Við erum bara að reyna að halda niðri verðbólgu næsta árs, rífast um hvort það eigi að vera almenningsklósett nærri náttúruperlum og hver eigi að borga fyrir það, rífast um eina raflínu eða eina virkjun eða eina verksmiðju. Þetta eru allt skammtímalausnir og plástrar. Undanþágur án gæðaeftirlits. Aldrei framtíðarsýn eða raunveruleg stefnumótun.
Aðrar þróaðar þjóðir eru búnar að ákveða hvert þær stefna næst. Hvort fókusinn sé á lyfjatækni, forritun, hönnun eða hið margfræga „eitthvað annað.“ Þær þjálfa kennarana sína svo þeir geti kennt börnum að hugsa og skapa í nýjum og framandi heimi. Börnin okkar hins vegar eru að búa sig undir iðnbyltinguna. Ekki þá sem er í vændum, heldur þessa á nítjándu öld.
Í ár sagði hollenski bankinn ING upp 5600 manns og færði 1200 manns til í starfi. Ástæðan var sú að ekki var lengur þörf á þessu fólki. Tölvuforrit önnuðust starfsemi þeirra fullkomlega. Þetta er einungis upphafið. Bankafólk sem og annað afgreiðslufólk mun ekki bara missa vinnuna á næsta áratug. Það sama mun gerast fyrir þá sem hafa atvinnu af því að keyra. Sjálfkeyrandi bílar verða á götunni innan skamms í stað leigu og vörubílstjóra, og það mun samkvæmt iðnaðarráðuneyti Bankaríkjanna kosta fimm milljón manns vinnuna.
Hversu marga hér?
Atvinna framtíðarinnar er skapandi
Nú þegar eru skapandi greinar á Íslandi um tuttugu þúsund störf. Einungis ferðaþjónustan hefur jafnmikið af fólki á sínum snærum og þessir tveir geirar skarast víða. Að miklu leyti er þetta heppni. Við erum heppin að íslenskt listafólk hefur náð þeim árangri sem það hefur, við erum heppin að Eyjafjallajökull gaus og vakti á okkur heimsathygli.
En núna er þetta spurning um að slá járnið meðan það er heitt. Sú ímynd sem við reynum að selja erlendis er úrelt. Í stað þess að kynna fyrir þeim nítjándu öldina, torfþök og lopapeysur, ættum við að reyna að selja íslenskt hugvit og nýsköpun. Það er einungis þannig sem við förum upp á næsta stig.
Íslensk stjórnsýsla og menntakerfi eru vanbúin undir þetta verkefni. Að vísu er listnám á grunnstigi býsna gott og ekki til að vanmeta, en allur fókus í atvinnuvegaráðuneytum er á landbúnað og sjávarútveg. Mögulega þarf einhvers konar endurstokkun. Er tímabært að stofna ráðuneyti menningar eða ferðamála, ráðuneyti hinna skapandi greina?
Listaháskólinn sem myndlíking
Listaháskólinn mun gegna lykilhlutverki í uppbyggingu framtíðar-atvinnuvega á Íslandi, en staða hans er býsna lýsandi fyrir Ísland í heild sinni. Húsnæði LHÍ er óboðlegt, rétt eins og landspítalinn. Fjársvelti tryggir að allur tækjabúnaður er úreltur, mygla hefur sest í veggi og innviðir fúnaðir. Á sama tíma eru pólitíkusar enn að rífast um það hvar skólinn eigi að vera, eða það sem verra er, hafa ekki einu sinni hugrekki til að taka afstöðu. Augljóslega er tímabært að sú ákvörðun sé tekinn. Skólinn hefur verið til í tvo áratugi, ef við viljum ekki að hann sé húsnæðislaus næstu tuttugu ár þá þurfum við að negla niður hvort hann eigi að fara í Vatnsmýrina við hlið annarra háskóla eða á Lauganesið. Þetta þarf ekki að vera flókið, bara viljayfirlýsing frá menntamálaráðherra eftir einn fund með borgarstjórn. Skóli í Lauganesi hefur nú þegar verið teiknaður. Þarfagreining hefur farið fram á Listaháskólanum.Við vitum að 21. öldin verður öðruvísi en sú síðasta. 80% af þeim störfum sem við munum vinna við í framtíðinni eru ekki til ennþá. Slatti af þeim störfum sem við vinnum við í dag verða ekki til lengur, hvort sem það verða ný forrit sem koma í stað okkar eða sjálfstýrandi tæki. Við erum óundirbúin þessari framtíð, en þetta þarf ekki allt að koma aftan að okkur.
Íslendingar eru nefnilega mikil menningarþjóð sem hefur alla burði til að takast á við þessa áskorun. Pólitíkusarnir okkar vita það bara ekki ennþá.
Höfundur er frambjóðandi Pírata í Reykjavík Norður.