Fjársvelti háskólanna er hið alvarlegasta mál fyrir íslenskt samfélag. Til að teljast samkeppnishæf á alþjóðavettvangi þurfa stofnanir íslenska ríkisins sem veita íslenskum, sem og erlendum almenning, háskólamenntun að njóta fjárhagslegs öryggis. Það er orðið mjög svo ljóst að háskólarnir geta ekki haldið áfram að sinna sínu hlutverki á þann máta sem þeir gera í dag. Með þeirri framtíð sem við okkur blasir þurfa skólarnir að skera mun meira niður og eftir niðurskurð síðustu ára erum við kominn á þann stað að frekari niðurskurður getur einungis leitt til lokunar á námsbrautum, jafnvel deildum. Til þess tryggja okkur aðra og betri framtíð mega háskólarnir ekki sitja eftir í fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2017-2021.
Við þekkjum þetta hér á Akureyri, sultarólin herðist og herðist og við kjánarnir, sem stóðum okkur svo vel að halda að okkur höndum eftir hrunið, bíðum vongóð að ólin muni einhvern tímann slakna sem hún svo gerir aldrei. Svo virðist ríkið ekki einu sinni geta tryggt fjármagn fyrir hækkun á kjarasamningum, samningum sem ríkið gerði sjálft. Við getum ekki látið bjóða okkur þetta lengur!
Háskólinn á Akureyri hefur boðið lengi vel upp á fjölbreytilegt nám í sveigjanlegu formi til þess að komast til móts við alla, hvort sem þeir eru A eða B manneskjur eða jafnvel hafi ekkert, eitt eða fjögur börn á sínu framfæri. Með tæknina að vopni hefur háskólasamfélagið hér á Akureyri orðið virkara og opnara, þá hefur það styrkst til muna með framsækinni kennsluþróun og verður þessi jákvæða þróun að halda braut sinni. Það verður hins vegar erfiðara með ári hverju að halda uppi gæðum námsins og bjóða upp á nýja kennsluhætti með óeðlilega litlu fjármagni, þá sérstaklega þegar litið er til tækninnar sem er sífellt að þróast. Tryggja þarf fjármagn til endurnýjunar á tæknibúnaði reglulega, annars eigum við á hættu á að gæði náms skerðist til muna.
Þess má geta að nemendaígildum hefur fjölgað á ári hverju í Háskólanum á Akureyri sem er góð vísbending til mikilvægis menntastofnunarinnar á landsbyggðinni og eitthvað sem vekja þarf athygli á. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir landsbyggðina að hafa þessa stóru menntastofnun til staðar, hún á því að standa jafnfætis við háskólana á höfuðborgarsvæðinu. Þá ber þingmönnum okkar á landsbyggðinni að tryggja fjármagn hingað norður, alveg eins og þingmönnum í Reykjavíkurkjördæmum ber að tryggja framtíð háskólanna á höfuðborgarsvæðinu. Ef við viljum standa jafnfætis hinum Norðurlandaþjóðunum ber okkur einnig að gæta að við stöndum öll jafnfætis innanlands.
Ég tel Háskólann á Akureyri ekki hugsaðan sem stofnun sem einungis sinni námsþörfum landsbyggðarfólks, heldur þvert á móti hefur sveigjanlegt nám Háskólans á Akureyri opnað faðm sinn fyrir höfuðborgarbúum sem leitast við að sinna vinnu og eðlilegu heimilislífi ásamt því að mennta sig, af því að okkur var talin trú um það frá blautu barnsbeini að mennt sé máttur. Háskólinn á Akureyri er líka eftirsóttur af erlendum námsmönnum sem þyrstir í þekkingu um norðurslóðirnar. Hér á Akureyri eru sóknarfærin mörg, nálægðin við atvinnulífið er mikil og tækifærin gríðarleg í málefnum norðurslóða. Með óbreyttu ástandi verður erfiðara að taka þátt í þeim fjölmörgu tækifærum sem gefst.
Í lokin þarf að minnast stuttlega á raunveruleika íslenska námsmannsins; til að mennta sig þurfa námsmenn í mörgum tilfellum að vinna fulla vinnu til að fleyta sér og sínum áfram. Þetta gerir einstaklingum kleyft að ná hærra menntunarstigi, sem er lykillinn inn á atvinnumarkaðinn og á sama tíma borga skatta. Erlendis njóta námsmenn stuðnings ríkisins og styrkjakerfa á meðan íslenskir námsmenn skila inn í ríkiskassann eins og aðrir virkir aðili í samfélaginu.
Einstaklingar sem útskrifaðir eru með háskólamenntun skila þekkingu sinni aftur inn í samfélagið, þannig græða allir og er það frekar sjálfgefið, en námsmenn hérlendis sem eru í námi og hafa því ekki aflað sér neinnar sérfræðiþekkingar borga skatta af aukavinnu sinni og skila samhliða náminu beint inn í samfélagið. Það er úrelt hugsun að námsmenn hangi bara eins lengi og þeir geta á hótel mömmu og pabba og skili engu til baka.
Meira fjármagn til háskólanna og ætti með réttu að vera á stefnuskrá stjórnmálaflokkanna, því þetta er mál sem varðar stóran hluta þjóðarinnar og framtíð barnanna okkar. Ég skora á stjórnvöld að bjarga háskólum í hættu!
Höfundur er meistaranemi í lögfræði við Háskólann á Akureyri.
Við hvetjum alla til þess að skrifa undir áskorun til stjórnvalda þess efnis að setja menntamál í forgang. #háskólaríhættu