Yfirstandandi kosningabarátta einkennist að venju af loforðum og yfirboðum en það er hefðbundinn fylgifiskur kosninga. Nánast allir flokkar nefna samgöngubætur sem eitt af verkefnum verðandi ríkisstjórnar en lítið hefur borið á umræðu um útfærslur og leiðir varðandi fjármögnun.
Það er lítil hefð fyrir einkaframkvæmdum í samgöngum á Íslandi að undanskildum tvennum jarðgöngum þ.e.a.s. undir Hvalfjörð og gegnum Vaðlaheiði. Öll önnur uppbygging er greidd þráðbeint úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.
Það má skipta samgönguútgjöldum í tvennt þ.e. uppbyggingu og síðan viðhald. Viðhald samgöngumannvirkja þarf stöðugan tekjustofn ef ekki á illa að fara en uppbyggingin þolir sveigjanlegri fjármögnun. Í dag koma allar tekjur sem standa eiga undir bæði uppbyggingu og viðhaldi vega frá skatttekjum af olíunotkun bifreiða. Það er í grunninn meingallað kerfi af þeirri einföldu ástæðu að orku- og umhverfisstefna stjórnvalda miðar að því að minnka skattstofninn þ.e. olíunotkun. Þetta er svipað því að sveitarfélag, sem lifir á útsvari, væri markvisst að reyna lækka laun íbúa.
Reynsla undanfarinna ára sýnir að olía er óstöðugur skattgreiðandi og ekki líkleg til afreka næstu árin þar sem nýrri, betri og umhverfisvænni tækni er komin á markað. Með öðrum orðum þá fara ekki saman hugmyndir stjórnmálaflokka um orkuskipti og minni útblástur annars vegar og stóraukna uppbyggingu samgangna hins vegar.
Næsta ríkisstjórn þarf því að huga að breyttri fjármögnun samgangna.
Tillaga!
Skipta fjármögnun í tvennt:
- Viðhald vega sem allar bifreiðar óháð eldsneyti/orku eiga að greiða. Stilla þarf þessa gjaldtöku af þannig að nýorkubílar verði samt sem áður hagstæðari kostur en olíudrifnar bifreiðar.
- Uppbygging eins og mislægra gatnamóta, breikkun vega, brúarsmíði , gangnagerð, nýlagningar o.s.frv.. Slíkar framkvæmdir mætti fjármagna næsta áratuginn með sérstöku olíugjaldi.
Þannig má slá tvær flugur í einu höggi þ.e. flýta orkuskiptum í samgöngum og standa við skuldbindingar landsins í loftlagsmálum. Olían verður vonandi aðeins tímabundinn skattgreiðandi næstu tíu til tuttugu árin, af hverju ekki að nýta hana til að greiða fyrir þá uppbyggingu sem kallað er eftir. Einhvers staðar verður að taka þá peninga, ef ekki af olíunni þá hvar? Þessar olíutekjur munu vissulega minnka með árunum en líka þörfin fyrir uppbyggingu því vonandi verður kostnaður við vegakerfið eftir tuttugu ár að mestu bundið við viðhald frekar en uppbyggingu. Vissulega þýðir þetta hærra olíuverð en ef menn sætta sig ekki við það þá skulu menn ekki á sama tíma lofa orkuskiptum og uppbyggingu í samgöngum. Nú reynir á hugrekki og skynsemi stjórnmálamanna. Það er ekki hægt að fá allt fyrir ekkert.
Lágir eldsneytisskattar + orkuskipti í samgöngum + minni útblástur = betra vegakerfi án gjaldtöku er einfaldlega jafna sem gengur ekki upp.
Höfundur er Framkvæmdastjóri Vistorku ehf.