Kosningarnar sem fram fóru á laugardag eru þær merkilegustu í lýðveldissögunni. Í þeim skilaboðum sem kjósendur sendu felast skýr skilaboð. Þeir hafna byltingu en þeir hafna líka óbreyttu ástandi. Niðurstaðan er ákall um breytingar og aukna samvinnu ólíkra afla, enda fengu flokkar sem stofnaðir eru eftir árið 2012 38 prósent atkvæða.
Hinn svokallaði fjórflokkur, hryggjarstykkið í íslenskum stjórnmálum alla tíð, fékk 62 prósent. Til að setja þá tölu í samhengi er vert að benda á að flokkarnir fjórir; Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking og Vinstri græn, fengu um 75 prósent í kosningunum 2013 og um 90 prósent í tveimur kosningum þar á undan.
Það sem er líka mjög merkilegt er að ríkisstjórn kerfisvarnarflokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, var hafnað með afgerandi hætti. Einungis fjórir af hverjum tíu kjósendum kusu þá. Þeir hafa einungis einu sinni fengið verri sameiginlega útreið, í kosningunum 2009 þegar flokkunum tveimur var refsað fyrir hrunið. Og allir stjórnmálaflokkar utan þeirra tveggja virðast hafa hafnað möguleikanum á að mynda ríkisstjórn með báðum þessum flokkum.
Því er ljóst að kosið var með kerfisbreytingum á lykilkerfum íslensks samfélags, sem allir hinir flokkarnir fimm sem náðu inn þingmönnum, voru með á stefnuskrá sinni. Þar má nefna breytingar á skipan sjávarútvegsmála með þeim hætti að arðurinn af nýtingu auðlindarinnar skiptist jafnar á milli þeirra sem nota hana og þeirra sem fá að nýta hana. Breytingar á landbúnaðarkerfinu með hagsmuni neytenda og bænda að leiðarljósi. Umbætur á stjórnarskrá landsins. Breytingar á stjórnsýslunni sem fela í sér skýrari ábyrgðarferla, meiri fagmennsku og minni möguleika á hinni sér íslensku mjúku spillingu sem frændhyglin og strokusamfélagið okkar hefur búið.
Fyrir utan þetta þá virðast allir flokkar sem voru í framboði sammála um að bæta þurfi mjög í fjárfestingu í velferðarkerfinu, jafnt í heilbrigðismálum, málefnum aldraðra og öryrkja, menntamálum og til að styrkja stöðu ungs fólks með viðgerð á fæðingarorlofi, daggæsluferlum og með aðgerðum vegna bráðavanda sem við blasir á húsnæðismarkaði.
Allt þetta verður á borðinu þegar ólíkir flokkar þurfa að semja um hvað næsta ríkisstjórn á að gera. Og hún verður alltaf samsett af afar ólíkum flokkum.
Taparar og sigurvegarar
Það voru margir sigurvegarar í kosningunum. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn í öllum kjördæmum og bætir við sig tveimur þingmönnum milli kosninga. Niðurstaðan var umtalsvert betri en kannanir höfðu gefið til kynna og sýna hversu mikilvægir sterkir innviðir þessa stærstu stjórnmálahreyfingar landsins eru þegar kemur að því að sigla kosningum í höfn. Allt skipulag varðandi virkjun kjósenda Sjálfstæðisflokksins var í annarri deild en það sem hinir stjórnmálaflokkarnir gátu ráðist í. Þá er kjósendahópur Sjálfstæðisflokksins eldri en flestra annarra og mun líklegri til að skila sér á kjörstað. Það skiptir máli í kosningum þar sem nýtt met er sett í slakri kosningaþátttöku. Það ber þó að nefna að þetta er einungis í fjórða sinn í sögu Sjálfstæðisflokksins sem hann fær undir 30 prósent atkvæða. Sögulega hefur því staða flokksins í íslenskum stjórnmálum nær alltaf verið mun sterkari.
Svo er það einfaldlega þannig að á Íslandi er stór hópur manns, sérstaklega á landsbyggðinni, sem vill rugga bátnum sem minnst. Það kýs stöðugleika og óttast miklar breytingar. Þessi gjá sem er milli þeirra sem búa í Reykjavík annars vegar og í öðrum kjördæmum hins vegar er nokkuð sláandi. Í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur er fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar samanlagt 30-32 prósent. Í Kraganum er það um 41 prósent. Í hinum þremur kjördæmum landsins er það frá 46,5 prósentum til tæplega 51 prósent.
Í þessum kosningum var stærð þess hóps samanlagt um 40 prósent og þrír af hverjum fjórum hans sem mætti á kjörstað kaus Sjálfstæðisflokkinn. Hinir kusu Framsókn.
Viðreisn var sigurvegari með sinn sjö manna þingflokk og næst besta árangurs nýs flokks í kosningum frá upphafi. Píratar unnu súrsætan sigur, nær þreföldu fylgið sitt en fengu fjarri því sem skoðanakannanir höfðu spáð. Björt framtíð vann varnarsigur þótt að flokkurinn hafi tapað tveimur þingsætum. Og hann er allt í einu kominn í lykilstöðu, ásamt Viðreisn, um myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Tapararnir eru augljóslega tveir rótgrónir flokkar. Framsóknarflokkurinn, sem fær sína verstu kosningu í 100 ára sögu flokksins, og Samfylkingin, sem hefur nú loks tekist að nánast eyða sér með því að átta sig ekki á að hún sjálf er vandamálið, ekki kjósendur eða fjölmiðlar sem skilja hana ekki.
Þingið endurspeglar þjóðina betur
Stóra ávinningurinn sem þessar sögulegu kosningar hafa skilað okkur er sú að þingið endurspeglar nú með betri hætti en nokkru sinni áður fjölbreytileika íslensku þjóðarinnar. Konur hafa aldrei verið fleiri, aldrei hefur jafn fjölbreyttur hópur fólks með jafn fjölbreyttan bakgrunn myndað þingmannahóp landsmanna og einungis einu sinni áður hafa sjö flokkar átt fulltrúa á Alþingi. Það var eftir hinar frægu kosningar 1987 þegar eins manns klofningsframboð úr Framsókn sem bauð fram í einu kjördæmi var sjötti þingflokkurinn með einn þingmann, hann Stefán Valgeirsson.
Þá er ákaflega jákvætt að þeir nýju flokkar sem sprottið hafa upp á Íslandi á undanförnum fimm árum, og taka nú til sín fjögur af hverjum tíu atkvæðum, eru nær allir jákvæðir umbótaflokkar. Þ.e. þótt stefnur þeirra séu mismunandi róttækar og raðist mismunandi á hinn pólitíska skala þá ríkir góð hugsun að baki þeim öllum. Öfgahyggjuflokkar sem ala á hræðslu og hatri og treysta á vanþekkingu sem farveg fyrir stefnumál sín hafa risið upp í flestum nágrannaríkja okkar og náð miklum árangri, sérstaklega með því að styðjast við rasíska stefnu og útlendingaandúð. Eini flokkurinn sem bauð fram þannig matseðil í kosningunum hér fékk 0,2 prósent atkvæða, eða 303 atkvæði. Það er sigur í sjálfu sér.
Standi breytinga-/umbótaflokkarnir við þær yfirlýsingar að mynda ekki ríkisstjórn með bæði Sjálfstæðisflokki og Framsókn þá er ljóst að sá tími er liðinn, að minnsta kosti í bili, að einn hópur samfélagsins með sambærilegar skoðanir geti í krafti ríkisstjórnar valtað yfir hina hópanna.
Tími freka karlsins er liðinn, að minnsta kosti í bili
Þannig hefur kerfið okkar nefnilega verið að langmestu leyti hingað til. Andstæðir pólar hafa tekist á og þegar þeir komast til valda þá hafa þeir keyrt yfir hina. Þannig var ástandið þegar nýfrjálshyggjan var innleidd og tilbeðin á árunum 1991 til 2009 af þeim flokkum sem þá stýrðu. Þannig var það líka þegar fyrsta hreina tveggja flokka vinstristjórnin var kjörin í tiltekt eftir hrunið en reyndi að nota tækifærið til að koma öllum sínum hugðarmálum á koppinn í bullandi átökum samhliða. Og þannig var það sannarlega á síðasta kjörtímabili þegar mjög sterk ríkisstjórn íhaldsflokka fór að vinda ofan af öllu sem síðasta ríkisstjórn á undan gerði og óð áfram í hverju málinu á fætur öðru í krafti sterks þingmeirihluta síns.
Niðurstaðan er sú að það vantraust sem Íslendingar hafa gagnvart helstu stofnunum landsins, og sérstaklega stjórnmálunum, hefur ekkert lagast. Gjáin hefur þvert á móti stækkað.
Nú er skýr krafa um að tími freka karlsins sé liðinn, að minnsta kosti í bili. Sú krafa birtist skýrt í forsetakosningunum í sumar þegar frekasta karlinum af öllum sem hafa frekjast hér undanfarna áratugi var hafnað með afgerandi hætti, hann fékk einungis 13,7 prósent atkvæða.
Það er krafa um samstarf ólíkra afla sem endurspegla stærri hluta sífellt fjölbreyttara samfélags og í því felst að takast þarf á við að finna lausnir á helstu ágreiningsefnum sem klofið hafa þjóðina í herðar niður. Niðurstaða kosninganna kallar augljóslega á það og stjórnmálaleiðtogarnir virðast skynja þessa kröfu miðað við orð þeirra í umræðuþáttum helgarinnar.
Það er því ástæða til að vera bjartsýnn. Eðlisbreyting hefur átt sér stað í íslenskum stjórnmálum. Hún er jákvæð og vonandi er hún komin til að vera.