Ég er ekki vön að tjá mig opinberlega um þessi mál en nú get ég ekki lengur orða bundist m.a. vegna launahækkana okkar ágætu þingmanna og ráðherra. Að þeim ólöstuðum þá er þessi tímapunktur til slíkra hækkana gjörsamlega glórulaus og gerir ekkert annað en að hella olíu á eldinn fyrir aðrar starfsstéttir sem standa í kjarabaráttu og sendir röng skilaboð til landsmanna. Ég er ekki á móti launahækkunum en ég er hins vegar á móti ójafnrétti.
Ég sat fund sem trúnaðarmaður með samninganefnd fyrir ekki svo löngu síðan þar sem kom skýrt fram af hálfu samninganefndar að launin yrðu ekki hækkuð meira og því yrði ekki haggað af hálfu sveitastjórnar. Ástæðan var einföld launaþróun kennara og stjórnenda innan KÍ skuli vera 30,5% í heildina á árabilinu 2013-2019. Ekki sé svigrúm til að fara út fyrir þann ramma. Það er ekki spurt um svigrúm þegar kemur að launahækkunum þingmanna. Ég túlkaði þessi orð formanns samninganefndar sem slík að ég yrði bara að gjöra svo vel að opna munninn og éta það sem ofan í mig fer þrátt fyrir að lyktin væri álíka ógeðsleg og úldið hrútsegg og bragðið súrt. Þeir samningar voru sem betur fer felldir í haustbyrjun. Þess má geta að kennarar eru búnir að vera samningslausir í nokkra mánuði, tónlistarkennarar enn lengur ef út í það er farið og fleiri stéttir sem sjá um umönnun og fræðslu er hreinlega að blæða út en það er efni í annan pistil.
Forystan
Samninganefnd okkar hefur notað tíma sinn að fara í heimsóknir í grunnskólana síðan samningar voru felldir til að heyra í okkur hljóðið sem mér finnst vera tímasóun þar sem okkar kjarabarátta er ekki ný af nálinni og það vita allir hvað við erum að fara fram á. Samkeppnishæf laun og laun í samræmi við menntun og ábyrgð. Inn á milli heimsókna hafa verið samningafundir en ég hef ekki haldbæra tölu á fjölda þeirra en þeir fundir virðast líkjast teboðunum í Lísu í Undralandi þar sem tíminn virðist vera endalaus og allt snýst í hringi, engin útkoma og alltaf það sama á boðstólum. Það endurspeglar síðan hvernig okkur miðar áfram í samningagerð, tíminn stendur í stað. Ég spyr því hvað er næsta skref hjá samninganefndum?
Aðgerðir strax
Ég leyfi mér að segja að við krefjumst aðgerða strax - ekki fleiri kurteisisheimsóknir í skólana og fundir sem skila engu! Það vita allir hvað við kennarar viljum! Sanngjörn laun sem eru samkeppnishæf við sambærilegar stéttir. Laun sem fólk getur lifað af án þess að hafa aðra fyrirvinnu eða aukavinnu. Kjarninn í rökstuðningi kjararáðs er þessi: „Afar mikilvægt er að þjóðkjörnir fulltrúar séu fjárhagslega sjálfstæðir og engum háðir.
Ef ég tek sjálfa mig sem dæmi þá gæti ég ekki lifað á kennaralaununum einum saman ef ég ætti ekki maka. Ef ég tek ekki laun maka míns inn í heimilisbókhaldið þá gengur dæmið ekki upp og eftir stendur mínus tala og ef marka má kjararáð mikið ósjálfstæði. Það verður síðan að taka það með í dæmið að staða Menntavísindasviðs Háskóla Íslands er grafalvarleg og menntakerfinu stafar beinlínis hætta af þeirri staðreynd að endurnýjun kennara er lítil sem engin. Það er þegar í allt of miklum mæli byrjað að fylla upp í stöðugildi með leiðbeinendum í grunnskólum landsins. Ástæðan er einföld, launin.
Stöndum saman
Kennarar stöndum saman öll sem eitt og látum verkin tala. Við látum verkin tala m.a. með því að segja nei við samningum sem gefa ekki ásættanlega niðurstöðu, mótmælum og förum í róttækari aðgerðir ef þess þarf. Látum vonleysið ekki ná tökum á okkur, stígum upp og brettum upp ermar og förum alla leið í þetta skipti. Alla leið í átt til réttlætis og sanngjarna launa. Notum rödd okkar á málefnalegan hátt og sendum þjóðfélaginu skýr skilaboð; ég vil fá laun við hæfi!
Ekki taka upp fórnarlambskortin; þetta er svo erfitt starf, svo mikið álag og svo mætti lengi telja. Faglegar breytingar, mínútutalning, fjöldi nemenda í bekk, störf umsjónarkennara og viðvera kennara í skólunum eiga ekkert erindi inn í þessa umræðu - við viljum fá laun við hæfi.
Lausnir eða upplausn
Kæra samninganefnd sveitastjórnar, mér finnst vera ansi mikil einstefna í þessari samningagerð því það vill svo merkilega til að við höfum líka eitthvað um þetta að segja en spurning hvort rödd okkar berist yfir til ykkar sem sitja hinum megin við borðið og með þessum pistli vona ég að þessi skrif opni eyru ykkar og annarra.
Kjararáð Alþingis er ekki að gera ykkur auðvelt fyrir með þessum hækkunum en ég vorkenni ykkur ekki neitt, finnið lausnir og borgið okkur mannsæmandi laun og leiðréttið þessa launaskekkju í landi sem á að kallast siðmenntað þar sem árið er 2016. Ef ekki þá munum við sjá fram á annað hrun og það mun bitna á börnum og framtíð íslensku þjóðarinnar.
Takk fyrir mig.
Höfundur er starfandi grunnskólakennari og er að kenna sitt tíunda ár. Hún gegnir einnig starfi trúnaðarmanns í sínum skóla.