Í umræðum um úrskurð kjararáðs um laun kjörinna embættismanna kemur fátt á óvart, hvorki krafa um að ákvörðunin sé tekin til baka né vandræðalegar skýringar um nauðsynlegt sjálfstæði þeirra svo að þeir verði ekki spillingu að bráð. Það nýja í umræðunni er tilvísunin í SALEK, samkomulag aðila á vinnumarkaði sem ætlað var að tryggja samræmda launaþróun allra. Það er gott og gilt markmið þótt líka megi efast um það með tilliti til hlutverks launaákvarðana við aðlögun að tækniþróun og nýjungum og eins hins að það tekur ekki til launaákvarðana fyrir sjálfstætt starfandi menn, eigendur og stjórnendur fyrirtækja og “funktionera” þeirra í stjórnum félagasamtaka, lífeyrissjóða o.fl. Þessir aðilar fremur öðrum hafa verið tilefni þeirra breytinga sem nú valda titringi.
SALEK samkomulagið, samræmd launaþróun allra launþega, gengur ekki eftir nema annars vegar að rétt sé gefið í upphafi, þ.e. að innbyrðis launahlutföll séu talin viðunandi, og hins vegar að þeir sem að launaákvörðunum koma ábyrgist að það samræmi raskist ekki. Sú ábyrgð felst ekki bara í því að koma í veg fyrir að sumir fái meira en aðrir heldur einnig að því að sumir fái ekki minna en aðrir. Þessi ábyrgð er ekki bara lögð á félög launþega heldur einnig á viðsemjendur þeirra.
Sveitarfélög landsins eru viðsemjendur Félags stjórnenda og kennara í tónlistarskólum (FT), og hafa haldið tónlistarskólakennurum samningslausum í rúmlega ár og haft þá á launum sem eru 10 - 15% lægri en laun kennara með sambærilega menntun við aðrar skólagerðir sem einnig taka laun samkvæmt samningum sem samninganefnd sveitarfélaganna hefur gert. Stór hluti nemenda í tónlistarskólum er á grunnskólastigi en í þeim eru einnig nemendur sem eru á framhaldsskólum eða í háskóla.
Laun tónlistarskólakennara höfðu árum saman verið hliðstæð launum grunnskólakennara og þannig var það þegar sveitarfélögin tóku við ábyrgð á fjárhagslegum stuðningi við starfsemi tónlistarskóla. Þau fengu til þess tekjustofn frá ríkinu sem tók mið af þessum launakjörum. Þrátt fyrir að hafa fengið þær tekjur í sinn vasa telja þau nú við hæfi að neyta aflsmunar til að draga kjör tónlistarskólakennara niður.
Misræmi í launum grunnskólakennara og tónlistarskólakennara má rekja til áranna eftir hrun. Tónlistarskólarnir tóku þá á sig mikla skerðingu fjárframlaga, meiri en flest önnur skólastarfsemi. Það kom að hluta fram í því að laun kennara við skólana hækkuðu minna en hjá öðrum. Synjun sveitarfélaganna um leiðréttingu launa nú þegar betur árar ber ekki vott um að fórn tónlistarskólanna og kennara þeirra hafi verið mikils metin.
Í samningum sveitarfélaganna við grunnskólakennara á árunum 2012 til 2014 var misræmið enn aukið og tónlistarskólakennurum neitað um sambærilegar launahækkanir. Í langvinnu verkfalli FT á árinu 2014 tókst að brjóta þá afstöðu á bak aftur að hluta til en nú tveimur árum síðar er sama staða komin upp. Samninganefnd sveitarfélaganna neitar að leiðrétta þann mun sem orðinn er og býður fram samninga sem nefndin hefur gert við Félag íslenskra hljóðfæraleikara en í því félagi eru kennarar við tónlistarskóla sem í minna mæli en kennarar í FT hafa kennslu í tónlistarskóla að aðalstarfi.
Félag tónlistarkennara er lítið félag og má sín ekki mikils við samningaborðið ef viðsemjandinn vill neyta aflsmunar. Tónlistarskólar eru flestir litlir og í Reykjavík eru þeir yfirleitt reknir sem sjálfseignarstofnanir og eru fjárhagslega háðir sveitarfélögunum. Engir sterkir hagsmunaaðilar standa þeim að baki og tala máli þeirra. Þar með er ekki sagt að engir hagsmunir séu í húfi. Þeir eru í reynd miklir.
Starf tónlistarskóla er hagsmunamál fyrir þá fjölmörgu nemendur sem stunda tónlistarnám. Námið er gefandi í sjálfu sér en auk þess sýna rannsóknir að fá önnur iðkan barna og unglinga er gagnlegri fyrir þroska og framvindu þeirra á öðrum sviðum.
Starf skólanna er hagsmunamál foreldra, sem eru meðvitaðir um gildi tónlistarnáms og er umhugað um að börn þeirra fái notið þess. Langir biðlistar eftir því að komast inn í flesta tónlistarskóla.
Starf tónlistarskóla er hagsmunamál fyrir tónlistarlíf í landinu. Án þeirra væri ekki til staðar sú tónlistarmenning sem blómstrar hér á landi og blasir við í fjölda tónlistarmanna sem starfa að list sinni hér á landi og erlendis og öðlast hafa alþjóðlega viðurkenningu og í því ríkulega tónlistarlífi sem þrífst hér hvort sem litið er til klassískrar eða rytmískar tónlistar. Starf tónlistarskóla er hagsmunamál fyrir samfélagið allt. Tónlistarlíf auðgar það menningarlega og efnahagslega eins og sýnt hefur verið fram á.
Líf SALEK samkomulagsins veltur á því hversu sanngjarnt það telst. Sanngirnin rýrnar við það að einstakir hópar brjótist út úr þeim ramma sem það setur og einnig við það að þeir sem veika stöðu hafa séu skildir eftir. Það er ábyrgð vinnuveitenda að svo verði ekki. Ætli sveitarfélögin að axla þá ábyrgð sem SALEK samkomulagið leggur þeim á herðar geta þeir ekki staðið gegn því að viðunandi jafnvægi náist milli starfshópa og í því efni dugar ekki að líta einungis til síðustu fárra ára sem verið hafa mjög sérstök fyrir tónlistarskólakennara heldur til launaþróunar aftur til ársins 2006 eins og gert var við undirbúning samkomulagsins.
Aðilar að SALEK samkomulaginu þurfa að standa við forsendur þess um viðunandi samræmi milli starfshópa og tryggja sambærilega þróun launakjara á samningstímanum. Sveitarfélögin í landinu eru aðilar að SALEK samkomulaginu. Mikið vantar upp á trúverðugleika þeirra í samningum við tónlistarskólakennara. Ríki og sveitarfélög hafa sem vinnuveitendur ætíð þurft að gæta samræmis milli og innan starfshópa óháð því hversu sterka samningsstöðu þessir hópar hafa haft. Aðeins þannig geta þeir tryggt viðunandi starfsanda. Hinn sterki verður að gæta sanngirni fremur en að deila og drottna þótt hann kunni að vera í aðstöðu til þess.
Sveitarfélög gegna lykilhlutverki í samfélaginu. Þau bera mikla ábyrgð í uppeldismálum og þau móta öðrum fremur umgerð hins daglega lífs m.a. í menningarmálum. Starf tónlistarskóla er mikilvægur þáttur í uppeldi barna og unglinga og forsenda blómlegrar tónlistarstarfsemi. Til þess að stefna því starfi ekki í óefni verða sveitarfélögin að sýna uppeldislega ábyrgð, menningarlega reisn og félagslegan þroska og beina því til umboðsmanna sinna í samninganefnd sveitarfélaga að láta af vopnaskaki og ganga til samninga sem tryggi tónlistarskólakennurum sambærileg kjör og þau semja um við grunnskólakennara.
Höfundurinn er fyrrverandi formaður samninganefndar ríkisins í launamálum og situr í stjórn Tónskóla Sigursveins.