„Stjórnmálafréttamaður RÚV hefur oft á dag síðustu vikur flutt þjóðinni þá frétt að stjórn DAC myndi hafa eins þingmanns meirihluta og umfjöllun flestra fjölmiðla um væntanlega stjórnarmyndun er þannig að ætla mætti að um sé að ræða lýsingu á BINGO og að kosningarnar fyrir skemmstu hafi verið teningakast en ekki snúist um málefni.
Framan af var mikið gert úr því að mynda þyrfti stjórn þegar í stað. Nú er runnið upp fyrir flestum að ekkert liggur á, alla vega ekki svo mikið að langtímahagsmunum sé fórnað. Fjárlög fyrir næsta ár þola nokkra bið, sem brúa má með framlengingu fjárheimilda eða fjárlögum á vegum starfsstjórnarinnar sem breyta má síðar. Meira er um vert að endanleg fjárlögin taki mið af nýjum forsendum og breyttri stefnu og eðlilegt er að mál sem tengjast kjarasamningum bíði þar til stefna nýrrar stjórnar einkum í velferðarmálum liggur fyrir.
Kosningabaráttan var nokkuð afdráttarlaus um meginlínur í velferðarmálum og þar af leiðandi ríkisfjármálum. Sá sem kynnir sér stöðu ríkisfjármála til einhverrar hlítar sér fljótt að breyting verður ekki gerð í heilbrigðismálum, öðrum velferðarmálum og uppbyggingu innviða að óbreyttri stefnu í ríkisfjármálum. Núverandi stjórnvöld hafa leynt og ljóst dregið samneysluna niður. Í gildandi ríkisfjármálaáætlun er stefnt að því að frumgjöld (þ.e. útgjöld án vaxtagjalda) ríkissjóðs verði um eða undir 24% af landsframleiðslu á næstu árum. Með því yrði náð botni sem er undir því þjónustustigi sem verið hefur lengi hér á landi og langt undir því sem gerist í flestum löndum V-Evrópu.
Fylgi hugur máli í því að bæta heilbrigðiskerfið, aðra opinbera þjónustu og byggja upp innviði samfélagsins, verður róttæk breyting að verða á stefnu ríkisfjármálum. Í stað blindrar niðurskurðartrúar verður að horfast í augu við staðreyndir, m.a. þá að nútímasamfélag krefst meiri þjónustu af ríkinu en áður var. Aukið langlífi, betri heilbrigðisþjónusta, sterkari jafnræðiskennd, meiri kröfur til menntunar o.s.frv. er hluti lífsgæða í nútímasamfélagi sem fást ekki nema stærri hluta landsframleiðslu sé varið til þeirra eins og sést í þeim samfélögum sem lengst eru komin á veg í þeim efnum.
Í stað þess að draga opinbera þjónustu niður á eymdarstig eins og gert er í gildandi ríkisfjármálaáætlun verður að snúa við blaðinu. Þau umbótaverkefni sem við blasa og samanburður við norrænu velferðarríkin benda til þess að á næstu fáum árum þurfi frumgjöld ríkisins til samneyslu að aukast í a.m.k. 27% af VLF. Slík breyting má ekki verða á kostnað ábyrgðar í ríkisfjármálum og kallar því á aukna tekjuöflun. Hún er sem betur fer möguleg án þess að vera borin uppi af skattheimtu af almenningi auk þess sem að breytt tekjuöflun er nauðsynleg til að færa þjóðinni í heild arð af auðlindum hennar í stað þess að fáir njóti hans og til að deila kostnað af samneyslu og félagslegri þjónustu af sanngirni í stað þess að ívilna hinum best settu.
Til að ná því marki sem að framan greinir þarf í fyrsta lagi að láta auðlindarentu í sjávarútvegi og orkusölu til stóriðju skila sér til þjóðarinnar, í öðru lagi að tryggja það að sá litli hluti þjóðarinnar, sem á mestan hluta hins efnahagslega þjóðarauðs og fær í skjóli hans vaxandi hluta tekna í sínar hendur, greiði a.m.k. svipað hlutfall af þeim tekjum í sameiginlega sjóði og þeir sem tekjulægri eru og í þriðja lagi að umhverfisgjöld, mengunarskattar og markaðir tekjustofnar til vegagerðar haldi sögulegu verðgildi og verði hækkaðir þar sem sérstakar ástæður eru til. Þessar tekjur ásamt vaxandi almennum tekjum sem spretta af þeim hagvexti sem haldist hefur frá því að efnahagsmálunum var komið á rétta kjöl á árum 2010 til 2012 gera það kleift að ná því marki sem að framan greinir á fáum árum.
Enginn stjórnmálaflokkanna lagði fram heildstæða stefnu í ríkisfjármálum og velferðarmálum nema Vinstri græn, sem boðuði varfærna en markvissa uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og annarrar opinberrar þjónustu sem vanrækt hefur verið á síðustu árum. Þær hugmyndir voru undirbyggðar með tekjuöflun sem tryggðu jafnvægi í ríkisbúskapnum. Aðrir flokkar virtust vanbúnir til þess að leggja fram heildstæða stefnu í þessum efnum. Aðrir stjórnarandstöðuflokkar tóku undir þá kröfu að bæta þyrfti stöðu heilbrigðismála og annarra velferðarmála án þess að gera grein fyrir hvernig því yrði hrint í framkvæmd að frátalinni Samfylkingunni, sem talaði skýrt í þeim efnum á svipuðum línum og Vinstri græn. Stjórnarflokkarnir höfðu þá sérstöðu að þeir viðurkenndu tilneyddir nauðsyn á auknu fé í heilbrigðiskerfið en lokuðu um leið á það með þverstæðufullum skattalækkunarsöng eins og þeim séu ekki ljós sú “selvfölgelighed” að ríkisútgjöldin ákvarða skattana.
Á yfirborðinu virtist víðtæk samstaða vera um flest velferðarmál í aðdraganda þingkosninganna. Krafa um aukið fé til heilbrigðismála kom glöggt fram í stefnuskrám og málflutningi Vinstri grænna og Samfylkingar. Hjá Bjartri framtíð, Pírötum og Viðreisn var tekið undir það með óljósu orðalagi í rituðum stefuskjölum en stundum kveðið sterkar að orði í umræðum og í fjölmiðlum og má ætla að kjósendur þessara flokka hafi talið sig vera að kjósa umbætur í þessum efnum. Stjórnarflokkarnir héldu því lengi vel fram að þeir hefðu þegar gert allt sem gera þarf á þessu sviði en aumir eftir húðstrýkingar Kára Stefánssonar viðurkenndu þeir að lokum staðreyndir en héldu þó áfram eilífu hjali um forgangsröðun sem merkir yfirleitt að ekki skuli bætt í en áfram hrært í sama pottinum. Afstaða flokkanna til annarra velferðarmála var svipuð þessu.
Afstaða flokkanna til auðlindamála var mismunandi. Vinstri græn og Samfylkingin voru afdráttarlaus í því að eignarhald og arður af náttúruauðlindum ætti hvort tveggja að vera í höndum þjóðarinnar og rentuna af fiskveiðiauðlindinni ætti að innheimta með uppboði aflaheimilda og/eða veiðigjöldum. Segja má að Píratar hafi tekið undir þessi sjónarmið þótt með almennari hætti væri og sama gildir um Bjartat framtíð sem þrátt fyrir óljóst stefnuskjal tók undir kröfu um uppboð veiðiheimild í umræðu. Stefna Viðreisnar í þessum málum var aftur á móti þokukennd. Tal um markaðstengt auðlindagjald sagði lítið og tillaga um 3% uppboðkvóta felur í sér lækkun frá núverandi lækkuðum veiðigjöldum og virðist í ætt við tillögur formanns atvinnuveganefndar um de facto framsal eignarhalds á kvóta gegn smánargjaldi. Stjórnarflokkarnir héldu óbilgjarnir fram þeim sjónarmiðum að renta af auðlindum tilheyri stórfyrirtækjum í sjávarútvegi og stóriðju.
Um aðra tekjuöflun skiptir í þrjú horn. Vinstri græn og Samfylkingin töluðu fyrir óbreyttri skattlagningu alls almennings en vildu gera ráðstafanir til að þeir efna- og tekjuhæstu í þjóðfélaginu, sem njóta nú ívilnandi skattlagningar, greiði a.m.k. ekki lægri skatta en þeir sem lakar eru settir. Góð reynsla er af tekjujafnandi áhrifum hátekjuskatts og auðlegðarskatts og ljóst að þeir gætu lagt mikið af mörkum til fjársveltra velferðarkerfa. Afstaða Píratar og Bjartrar framtíðar í þessum málum var óljós en af orðræðu þeirra var aukinn jöfnuður í skattlagningu talinn æskilegur. Stjórnarflokkarnir afhjúpuðu lýðskrumshneigð sína í þessum málum með því að boða skattalækkanir beint ofan í loforð um aukin útgjöld og svardaga um jafnvægi í ríkisfjármálum. Viðreisn féll í sömu gröf með því að taka undir skattalækkunarsönginn og veifa ásamt Framsóknarflokkum hugmyndum, sem enga faglega skoðun standast.
Framangreindir málaflokkar hljóta að vera meginviðfangsefni í viðræðum um stjórnarmyndun. Þótt önnur mál, einnig stór í sniðum, séu eðlilega líka upp á borðum, er ljóst að þessi mál og afstaða flokkanna til þeirra réði miklu um val kjósenda. Það sýnir m.a. áskorun 86 þúsund manna um eflingu heilbrigðismála. Það væri svik að sópa þessum málum undir teppið með forgangsröðunarhjali, margnota slagorðum og samkomulagi um að gera pólitískan ómöguleika mögulegan. Setja þarf skýr og tímasett markmið í þessum efnum. Þau þola ekki bið. Fjölmiðlar landsins ættu í stað talnaleikfimi að beina sjónum sínum að málefnum kosninganna og beina spurningum um þau til þeirra sem að tilraunum til stjórnarmyndunar koma. Fólkið í landinu á rétt á því að fylgjast með framvindu í þessum málum og því hvort til stendur að fórna þeim í valdatafli sérhagsmunastjórnmála.