Nýverið var ég stödd í Kjarna í Mosfellsbæ ásamt fjölda annarra kennara. Tilefnið var að sýna samstöðu og afhenda bæjarstjóra bréf þar sem kjörum kennara er mótmælt. Við erum ekki eina stéttin sem ofbýður launahækkun alþingismanna sem er kornið sem fyllti mælinn og hafa margar starfsstéttir séð ástæðu til að senda frá sér harðorð mótmælabréf.
Margir undrast þá stífni í kennurum að hafna samningum ekki einu sinni, heldur tvisvar. Ég skora á kennara að hafna samningum aftur ef sami grautur í sömu skál verður borin á borð. Við kærum okkur ekki um nýja samninga þar sem kennarar eru látnir afsala sér áunnum réttindum. Auk þess er nýi vinnuramminn óvinsæll þar sem hann þjónar engan veginn tilætluðum tilgangi. Á meðan verið er að auka sveigjanleika í starfi á almennum vinnumarkaði er verið að skerða hann hjá kennarastéttinni. Vanvirðingin og vanmatið á starfi kennara er óþolandi. Svo margt veldur gremju.
Lítum aðeins á launahækkun þingmanna. Launin fara í ellefu hundruð þúsund krónur á mánuði en þeir geta nær tvöfaldað þá upphæð með aukagreiðslum. Til gamans skulum við ímynda okkur að alþingismenn þurfi að fara samningaleiðina. Til að fá þessa launahækkun verða þingmenn að stimpla sig inn klukkan 08:00 og út klukkan 16:00. Þeim er velkomið að vinna eins mikla yfirvinnu og þeir vilja án þess að fá hana greidda. Þeir verða að vera viðstaddir í þingsal ef eitthvað er þar um að vera og sitja þar í sínum úthlutuðu sætum. Viðvera verður samviskusamlega skráð og fjarvera illa séð. Þeir fá 20 mínútur í kaffi og hálftíma í mat en verða að vera í kallfæri ef eitthvað kemur upp á og hlaupa til ef þarf. Þeir verða að afsala sér allar aukagreiðslur svo sem fyrir nefndarstörf. Allur ferðakostnaður og dagpeningar falla að sjálfsögðu niður ef alþingismenn samþykkja launasamninginn. Myndu þingmenn sætta sig við það?
Kennarar vilja launaleiðréttingu. Án skilmála. Rétt eins og alþingismenn eru að fá. Það sama verður yfir alla að ganga. Alþingi á að sýna fordæmi. Gjörningur kjararáðs er fordæmisgefandi. Launahækkunin ein er hærri en grunnlaun grunnskólakennara. Þótt ég fengi slíka hækkun á mín laun næði ég ekki milljón á mánuði. Ég myndi samt þiggja 44 prósentin með þökkum!
Ef ekkert er að gert horfum við fram á kennaraskort í náinni framtíð. Kröfur hafa verið gerðar á aukna menntun kennara. Nú þarf mastersgráðu til að fá kennsluréttindi og hið besta mál að vera með vel menntaða kennara. En háskólamenntun er tímafrek og dýr. Ef ráðamenn vilja fá til starfa kennara með fimm ára háskólanám að baki verða launin að endurspegla það. Launataxtar kennara hafa ekki verið endurskoðaðir með það fyrir augum. Sérkennarar og námsráðgjafar eru t.d. ekki lengur með meiri menntun en nýútskrifaðir kennarar en eru engu að síður með hærri grunnlaun. Ekki að það muni miklu á launum en tímaskekkja engu að síður.
Lausnin? Laun kennara verði framvegis reiknuð út frá þingfararkaupi eins og laun bæjarstjórna. Ég vil launaleiðréttingu án skilmála, taxtaleiðréttingu og vinnurammann burt. Ungir sprengmenntaðir kennarar munu þá flykkjast í skólana, kennarar geta loks lifað af launum sínum og flótti úr stéttinni verður afstýrður. Krafan er einföld. Kennarar vilja laun í samræmi við menntun, ábyrgð og vinnuálag.
Spáð hefur verið að næsta uppreisn í samfélaginu verði hjá láglaunuðu menntafólki. Við eigum svo margt sameiginlegt. Vopnið okkar hefur alltaf verið orðið. Snúum bökum saman og látum í okkur heyra.
Baráttukveðjur.
Höfundur er uppeldisfræðingur og kennari.