Við á Íslandi verðum að teljast mjög heppin, heppnari en flest annað fólk á jörðinni. Hér ríkir mikill jöfnuður og landið er ríkt af auðlindum sem fáar aðrar þjóðir geta keppt við. Þess vegna erum við í algjöru dauðafæri til þess að vera leiðandi í heiminum í baráttunni gegn loftlagsbreytingum. En af hverju erum við það ekki? Ég tel að flestir sem hafa áhyggjur af umhverfismálum og fylgjast með þróun þeirra vita hversu alvarlegt ástandið er og hversu lítið er verið að gera í málunum meðal annars á Íslandi.
Hér á landi hefur tíðkast að setja plástra á ónýtar stoðir og „kyssa á bágtið“ þegar vandamálið er risastórt, því best er að horfa á hluti afmarkað en ekki heildrænt. Vandamálið hér er ekki húsnæðismarkaðurinn eða heilbrigðiskerfið sem við stjórnum til dæmis með fjárlögum, samningum og áætlunum. Vandamálið er að hérna stjórnar einræðisherra sem þekkist undir viðurnefninu Móðir Náttúra. Hún hlustar ekki á neinn, hlýðir engum, hefur enga þolinmæði, fer sínar eigin leiðir og hún annað hvort fæðir þig eða sveltir. Ekki skal gera þau grundvallar mistök að halda að hún hlusti á málamiðlanir eða muni aðlagast þínum kröfum.
Ég get nánast fullyrt það að síðasta ríkisstjórn hafi pælt lítið sem ekkert í þessum málum. Þótt hún státi sér af að hafa skrifað undir Parísarsáttmálann, sem er jákvætt, þá hafa engar afgerandi aðgerðir komið í ljós frá hinni föllnu ríkisstjórn. Hér skal þó nefna að þetta er ekki pólitískur áróður heldur kalt mat á raunveruleikanum og tengsl mín við stjórnmálaflokka eru engin.
Mér finnst þetta frekar furðulegt, í ljósi þess að við erum að fara að lenda í miklum og erfiðum aðstæðum, ef slagorð næstu ríkisstjórnar verður „business as usual“ eins og hefur verið í málaflokknum umhverfismál. Það liggur ljóst fyrir að hagsmunir okkar Íslendinga liggja hvað mest í því að berjast afgerandi gegn loftlagsbreytingum þar sem að þær hafa gífurleg áhrif á auðlindir okkar. Hafið er ekki bara að hlýna og súrna, sjávarborð að hækka heldur eru hafstraumarnir, eins og Golfstraumurinn sem er algjör líflína okkar Íslendinga, að hægjast vegna áhrifa hlýnunar og saltmagns í hafinu. Allt þetta þýðir að sjávarauðlindir landsins eru í mikilli hættu og efnahagur landsins sömuleiðis.
Aðgerðirnar sem við þurfum að fara í eru margvíslegar og flóknar en algjörlega nauðsynlegar ef við ætlum okkur að lifa þessa öld af. Við verðum að endurheimta votlendi í miklum mæli, við verðum að minnka kolefnislosun farartækja okkar verulega, við verðum að þétta byggð til þess að bæta almenningssamgöngur, við verðum að minnka kjötneyslu, við verðum að minnka úrgangslosun og matarsóun og við verðum að hætta við áætlanir um boranir á Drekasvæðinu strax.
Hvernig sem á horfir er útlitið ekki bjart og áhrif loftlagsbreytinga virðast verða stærri og stærri með hverju árinu sem líður. Við verðum að takast á við þetta núna og stjórnmálamenn verða að hætta að ýta vandamálinu til hliðar, ef ekki þá eigum við ekki möguleika gagnvart því skrímsli sem afleiðingar loftslagsbreytinga eru. Hættum að setja plástra á hluti sem krefjast uppskurðar, horfum heildrænt á málið og förum í alvöru aðgerðir til þess að draga úr því krabbameini sem vandamálið er.