Samkvæmt nýlegri skýrslu United Nations Environmental Programme (UNEP) gerast umhverfisbreytingar í heiminum hraðar en áður var talið og munu verða hraðari ef hitastig jarðar hlýnar enn frekar. Í skýrslunni er greint frá svæðisbundnum umhverfisbreytingum í Evrópu, Norður Ameríku, Asíu og Kyrrahafi, Vestur-Asíu, Mið-Ameríku, Karíbahafi og Afríku. Sambærileg umhverfisvá herjar á hverja heimsálfu, aukinn fólksfjölgun, hraðari þéttbýlismyndun, aukin neysla, eyðimerkurmyndun, jarðvegseyðing, loftslagsbreytingar og nú í auknum mæli alvarlegur vatnsskortur. Það er ljóst að lífsgæði allra í heiminum byggja á sjálfbærri nýtingu auðlinda en það er jafnframt ljóst að framganga mannsins á jörðinni hefur verið ósjálfbær hingað til. Vistkerfi jarðar er afar viðkvæmt, auk ofangreindra þátta er ljóst að fjöldi dýra- og plöntutegunda er í útrýmingarhættu. Til að stemma við þessum miklu breytingum á vistkerfinu þurfa allir að taka ábyrgð til þess að halda frekari umhverfisbreytingum í skefjum. Við eigum eina jörð, efnahagslíf og samfélög þurfa að miða við hennar endanlegu takmörk.
Flestir þjóðarleiðtogar gera sér grein fyrir alvarleika málsins samanber samkomulag 195 þjóða í París á síðastliðnu ári sem felst í því að halda hlýnun jarðar af mannavöldum innan 2°C. Ef samkomulagið á að verða sá viðsnúningur sem vonast er eftir verða einnig fyrirtæki um allan heim að axla ábyrgð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og setja sér markmið í loftslagsmálum. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa bent á það að hérlendis er engin opinber stefna í loftslagsmálum en stjórnvöldum ber að fylgja eftir undirskriftinni með aðgerðaráætlun um að draga úr losun. Losun á hvern íbúa er mun hærri hérlendis, um 14 tonn að meðaltali á hvern íbúa á meðan hún er um 7 tonn í Evrópu.
Stjórnendur á atvinnumarkaði þurfa að taka ábyrgð á áhrifum starfsemi fyrirtækja sinna á umhverfið og horfa til framtíðar með langtímahagsmuni fyrirtækisins og sjálfbærni að leiðarljósi. Fyrirtæki sem marka sér ekki ábyrga stefnu í þessum málum tekur aukna áhættu tengt beinum og óbeinum áhrifum starfseminnar á umhverfi og samfélag. Fyrirtæki hérlendis eru að setja sér markmið í umhverfismálum í auknum mæli. Nýlega skrifuðu ríflega hundrað fyrirtæki undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar með það að markmiði að leggja sitt að mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum sem felst í því að ná jafnvægi milli losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingar. Yfirlýsingin krefst þess að fyrirtækin setji sér mælanleg markmið og birti niðurstöður mælinga árlega. Í framhaldinu þurfa stjórnendur að skipuleggja starfsemina á markvissan hátt með innbyggðum mótvægisaðgerðum þannig að hún skaði ekki umhverfið. Helsta áskorunin felst í því að samþætta ábyrga stefnu við starfsemi fyrirtækisins á þann hátt að fyrirtæki geti haft jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið á sama tíma og viðskiptalegum árangri er náð. Mæling á árangri reynist vera mikill hvati við innleiðingu á umhverfisstefnu bæði innan fyrirtækis og fyrir önnur fyrirtæki í viðskiptalífinu.
Hvatar til aukinnar ábyrgðar í þessum málum eru að aukast, nýverið kynnti Kauphöllin leiðbeiningar Nasdaq OMX um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Stjórnendur fyrirtækja þurfa að vera meðvitaðir um að senn líður að því að þeim beri lagaleg skylda til að fylgja formlegri umhverfisstefnu. Fyrirtæki geta ekki mikið lengur skýlt sér á bak við smáverkefni og peningagjafir sem eru eyrnamerkt samfélagsábyrgð. Ávinningur fyrirtækja að sýna ábyrga starfshætti er mikill, rannsóknir benda til þess að fyrirtæki öðlist forskot og sýni fram á aukna samkeppnishæfni með því að fylgja fastmótaðri og aðgerðabundinni samfélagslega ábyrgri stefnu. Fyrirtæki líkt og stjórnvöld verða marka sér aðgerðabundna stefnu í loftslagsmálum og taka þannig virkan þátt í baráttunni gegn frekari umhverfisbreytingum og hlýnun jarðar.
Höfundur er ráðgjafi hjá KOM.