Okkur er tíðrætt um ábyrgð. Síðasta vika bauð upp á hlaðborð af málum þar sem ábyrgð bar á góma og öllum sem með fylgdust bauðst að mynda sér skoðun á því hvort ábyrgð væri öxluð með þeim niðurstöðum sem urðu eða leiðum sem ráðist var í. Í flestum tilvikum var niðurstaðan kostuleg.
Ábyrgð við stjórnarmyndun
Nú er mikið talað um að stjórnmálamenn verði að sýna ábyrgð og mynda ríkisstjórn. Í þeirri ábyrgð felst að þeir verði að gera málamiðlanir, slá af kröfum sínum, og finna leið til að skapa starfhæfa ríkisstjórn fyrir landsmenn.
En stjórnmálamenn bera líka ábyrgð á því að standa við það sem þeir sögðu við kjósendur þegar þeir kusu þá. Það er ekki auðhlaupið undan þeim loforðum. Og það er auðvelt að skilja nýju flokkanna þrjá, sem stofnaðir voru eftir 2012 og hafa verið þátttakendur í öllum þegar reyndum stjórnarmyndunarviðræðum, að telja sig ekki geta gefið eftir persónuleika sinn fyrir sæti við ríkisstjórnarborðið. Sömu sögu er að segja með Vinstri græn, sem hafa samanlagt setið fjögur ár í ríkisstjórn á lýðveldistímanum og því haft nánast engin varanleg áhrif á íslenska stjórnkerfið. Þessir flokkar eiga mjög erfitt með að gera málamiðlanir í lykilmálum, vegna þess að þá tapa þeir. Þá haldast aðstæður sem flokkarnir voru stofnaðir til að breyta, alveg eins.
Að sama skapi er skiljanlegt að Sjálfstæðisflokkur, sem hefur stýrt landinu í ¾ hluta lýðveldistímans, og Framsóknarflokkur, sem hefur stýrt því í ⅔ hluta hans, séu áfjáðir um að aðrir sýni ábyrgð, geri málamiðlanir og slái af stefnumálum sínum. Eðlilega, því kerfið er algjörlega mótað af þessum flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn rak meira að segja alla kosningabaráttuna sína á þeim grunni að það besta sem væri hægt að gera á Íslandi væri að breyta engu. Hver einasta málamiðlun um óbreytt ástand er sigur fyrir þá og þeirra stefnu.
Tal um afslætti á stefnum vegna ábyrgðar á því að mynda ríkisstjórn er þess vegna tal um að þegar innleidd stefnumál Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks haldist. Og þar af leiðandi sigur fyrir þessa tvo flokka.
Ábyrgð bankamanna
Bankamönnum (þeir eru langflestir menn) er tíðrætt um að þeir þurfi að fá jafn há laun og þeir þiggja vegna þess að svo mikil ábyrgð felist í störfum þeirra. Að jafnaði eru laun þeirra sem starfa í fjármálageiranum þriðjungi hærri en almenn meðallaun en í þeim samanburði verður að taka tillit til þess að almennir starfsmenn banka, þeir sem sinna þjónustu við venjulegt fólk, eru á mun lægri launum en stjórnendur, miðlarar og eignastýringarsérfræðingar af ýmsum toga. Bankastjórarnir sjálfir – í kerfi sem er nánast allt beint eða óbeint í eigu ríkisins og á ábyrgð þess – eru síðan í sérdeild. Enda ábyrgð þeirra sérstaklega mikil.
Fyrir viku var kynnt skýrsla Ríkisendurskoðunar um eignasölu Landsbankans á árunum 2010 til 2016. Niðurstaðan var kolsvört, bankinn hafði stefnt trausti og trúverðugleika sínum í hættu með verklagi við sölu á verðmætum eignum á undanförnum árum. Farið hafði verið gegn reglum og eignir seldar með vafasömum hætti í lokuðum útboðum. Þá fékk ríkisbankinn að minnsta kosti 16 milljörðum króna of lítið fyrir eignirnar. Ríkisendurskoðun beindi því enn fremur til bankaráðs Landsbankans að gripið yrði til ráðstafana til að endurreisa orðspor hans.
Niðurstaðan er í takt við skoðun allra annarra eftirlitsaðila á verklagi og ákvörðunum Landsbankans við eignasölu. Og í í fjármálageiranum er traust allt sem á að skipta máli. Bankaráðið hefur ákveðið að læra af reynslunni. Hún styður samt sem áður bankastjóra bankans og ætlar ekki að reka hann. Bankastjórinn sjálfur ætlar ekki að segja af sér. Það væri líklega ekki ábyrgt að hans mati.
Í sömu skýrslu kemur fram að Landsbankinn gekkst í skaðleysisábyrgð vegna sölu á hlut sínum í Valitor til Arion banka í desember 2014. Í einföldu máli þýðir það að ef ýmis skaðabótamál sem höfðuð hafa verið gegn Valitor leiða til tjóns þá mun hluti þess tjóns lenda á Landsbankanum, ekki Arion banka. Flest málin sem annað hvort hafa leitt til tjóns fyrir Valitor eða geta gert það í náinni framtíð eru vegna samkeppnislagabrota fyrirtækisins. Hæstiréttur dæmdi Valitor, sem er nú að fullu í eigu Arion banka, til að greiða 500 milljónir króna í sektir vegna þessara samkeppnislagabrota í apríl síðastliðnum. Sá sem stýrði Valitor þegar samkeppnislagabrotin kostnaðarsömu voru framin er nú bankastjóri Arion banka, þess sem tryggt var skaðleysi gagnvart skaðabótakröfunum vegna samkeppnislagabrotanna. Eftir dóm Hæstaréttar lýsti stjórn Arion banka yfir fullu trausti á bankastjórann sinn. Hún telur hann ekki þurfa að axla neina ábyrgð á að hafa kostað bankann hálfan milljarð króna.
Ábyrgð á lögbrotum
Það féll líka héraðsdómur gegn bankamönnum á fimmtudag. Þar voru tveir slíkir dæmdir í fangelsi fyrir að hafa gefið stærsta eiganda bankans milljarð króna. Sá, samkvæmt dómnum, frekjast og djöflast í bankamönnunum um að gefa sér milljarðinn, meðal annars með hótunum, og þeir látið undan. Niðurstaða dómsins var sú að bankamennirnir hefðu tekið léleg veð fyrir risaláni og að þeir hefðu mátt vita að veðin væri lélegt. En sá sem græddi á öllu saman, frekjuhundurinn sem fékk milljarðinn, hann þarf ekki að bera neina ábyrgð. Enda vann hann ekki í bankanum heldur hirti bara ávinninginn af lögbrotinu.
Fleiri dómsmál voru á dagskrá. Endurupptökunefnd frestaði því enn einu sinni að taka fyrir Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Mál þar sem fjöldi ungmenna sem hafði sveigt af leið í lífinu voru pyntuð til að játa á sig morð sem ekki er einu sinni staðfest að hafi verið framin. Lík mannanna tveggja hafa aldrei fundist. Það þykir víst ekki tímabært að íslenskt réttarkerfi axli ábyrgð á þessum hildarleik. Ekki einu sinni nú þegar sumir þeirra sem sviptir voru lífsfriðnum eru látnir og hafa verið það árum saman.
Ábyrgð á einhverju sem þú ert ekki hluti af
Í síðustu viku voru sagðar fjöldi frétta af uppsögnum kennara. Þær eru nú um 100 og stefnir í fordæmalaust óefni í þeim málum. Ástæðan er sú að kennarar eru orðnir að láglaunastétt og hafa dregist langt aftur úr í samanburði við kollega sína í viðmiðunarlöndum. Sömu sögu má reyndar segja um annað háskólamenntað starfsfólk hið opinbera.
Ástæðan er sú að í hagsveiflustormum íslensks efnahagskerfi er launafólk alltaf látið axla byrðarnar á niðursveiflum en í uppsveiflum tekur eignafólk til sín ávinninginn. Þess vegna er Ísland annars vegar láglaunaland þar sem mikill jöfnuður ríkir á milli lágu launanna. Hins vegar er Ísland stóreignaland, þar sem eignirnar og peningarnir safnast sífellt á færri hendur.
Viðsemjendur kennara hafa brugðist við með því að senda launatöflur þeirra á fjölmiðla og segja að það kæmi ekki til greina að hækka laun þeirra nema að annar kostnaður við starfsemina yrði skorinn niður. Kennarar þyrftu að sýna ábyrgð og brjóta ekki gegn tilgangi SALEK-samkomulagsins um að halda launum lágum til að verja stöðugleikann. Þótt margt gott megi segja um tilraunir aðila vinnumarkaðarins til að koma á norrænu vinnumarkaðsmódeli þá ber að geta þess að kennarar neituðu að skrifa undir SALEK og eru því ekki aðilar að samkomulaginu, og þurfa því alls ekki að fylgja línum þess. Með því sýndu þeir ábyrgð og stóðu með þeirri afstöðu sinni að þessi mikilvæga stétt myndi deyja út ef henni verði ekki kippt upp úr láglaunafeninu.
Orðum og ásökunum fylgir ábyrgð
Nýverið hélt Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, erindi fyrir stjórnmálaflokk. Þar setti hún fram ásakanir um að fjölmiðlar hefðu þegið mútur frá vogunarsjóðum í hópi erlendra kröfuhafa föllnu bankanna. Vigdís ásakaði reyndar líka Fjármálaeftirlitið, umboðsmann Alþingis, Ríkisendurskoðun, Seðlabanka Íslands og lögfræðingastéttina um að vera spillta eða þiggja mútur. Hún væri náttúrulega ekki með neitt í höndunum um þessar ásakanir, en þetta liti svona út í höfðinu á henni. Tilfinning Vigdísar, studd engum gögnum, er sú að öll stjórnsýslan sé spillt og að fjölmiðlar þiggi mútur. Henni finnst ekki ábyrgðarhluti að geta sýnt fram á þessar ávirðingar, enda staðreyndir líkast til afstæðar í hennar huga.
Málflutningur Vigdísar, sérstaklega varðandi mútuþægni fjölmiðla, er sambærilegur þeim sem prófessor við Háskóla Íslands hefur ítrekað haldið fram án gagna. Þótt málflutningurinn hafi verið marghrakinn og ómögulegt sé að sanna hann – þar sem hann byggir á ósannindum – þá hafa ávirðingar ekki verið dregnar til baka og háskólinn hefur ekki séð ástæðu til að bregðast við skítadreifingum háttsetts starfsmanns síns. Líklega telur skólinn sig ekki bera neina ábyrgð á honum.
Ábyrgð gagnvart lýðræðislegri umræðu
Árið 2011 var lagt fram frumvarp um lög um fjölmiðla. Einn megintilgangur laganna var að tryggja gagnsæi um eignarhald fjölmiðla. Í dag er staðan sú að stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins er í að mestu í eigu félaga í Lúxemborg sem ekki er hægt að sjá í gegnum og ekkert liggur fyrir hverjir stýra nema vilyrði tilkynntra eigenda. Engin gögn um félögin eru t.d. aðgengileg í íslenskri fyrirtækjaskrá og ekki er mögulegt að rekja hvaðan það fé sem dælt er inn í félagið kemur.
Þriðja stærsta einkarekna fjölmiðlasamsteypa landsins, sem stefnir á að vera með yfir tvo milljarða króna í veltu á næsta ári, hefur verið að gleypa hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum á undanförnum árum. Ekkert liggur fyrir hvaðan fjármagn til þess kemur, eigendur fyrirtækisins neita að upplýsa um það og fjármagnendur eru ekki tilgreindir í opinberum gögnum.
Eftirlitsstofnun fjölmiðla, sem kostar á fimmta tug milljóna króna á ári, telur sig ekki vera í færum til að nálgast frekari upplýsingar um raunverulega eigendur eða fjármagnendur þessara fyrirtækja umfram það sem þeir kjósa að upplýsa sjálfir um. Telur það líklega ekki vera sína ábyrgð.
Aðhald með ábyrgð
Ábyrgð virðist teygjanlegt hugtak í íslenskum samtíma. Hún er notuð sem vopn þegar einhver vill fá eitthvað frá öðrum. Þá er sá hvattur til að sýna ábyrgð og láta af kröfum sínum um endurgjald. Þegar kemur að því að axla ábyrg þá er hins vegar íslenskara en ýsa í raspi að hlaupast undan henni. Kenna öðrum um eða halda því fram að önnur verk trompi þau mistök hafa verið gerð eða brot sem hafa verið framin.
Það er hlutverk almennings, eftirlitsstofnana og fjölmiðla að veita aðhald gagnvart ábyrgðinni. Þegar flestir fjölmiðlar eru keyptir upp af fólki sem hefur verið að forðast ábyrgð, og stjórnvöld hafa kerfisbundið unnið að veikingu fjölmiðla með orðræðu og aðgerðum í kjölfar uppljóstrana sem kalla á að ábyrgð sé öxluð, þá flækist hins vegar málið og aðhaldið verður erfiðara. Sömu sögu er að segja ef það er skoðun ráðamanna að það eigi að minnka umsvif eftirlitsstofnana, vegna þess að eftirlitið sé orðið of mikið.
Þá stendur eftir almenningur. Það er mikilvægt að hann myndi sér staðfastar og rökstuddar skoðanir á því sem fyrir augum ber og reyni að byggja þær sem mest á staðreyndum. Að fólk finni sjálft sína skoðun í stað þess að láta aðra segja sér hvað sé fyrir bestu. Þegar sú skoðun er mótuð þarf að nota hana til að veita aðhald, krefjast úrbóta, framfylgd laga og að ábyrgð sé öxluð þegar við á.
Það er nefnilega enginn annar að fara að gera þetta fyrir okkur.