Aldrei eftir hrun hefur verið jafn rík ástæða til að fara varlega í ríkisfjármálum og nú. Viðvörunarmerki um of mikla þenslu í hagkerfinu hrannast upp. Við erum á kunnuglegum slóðum. Launahækkanir undanfarin ár hafa verið langt umfram framleiðniaukningu og á sama tíma hafa útgjöld ríkissjóðs aukist mikið. Þetta hefur áður reynst banvænn kokteill í efnahagslegum uppsveiflum. Afleiðingarnar eru hátt vaxtastig Seðlabanka og mikil, ósjálfbær styrking krónunnar. Því er þó gjarnan haldið fram að aðstæður séu svo allt öðru vísi nú en áður, en það hefur sjaldnast reynst vera svo. Líklegt er að við séum komin á kunnuglegan stað; nálægt efsta punkti rússíbanans.
Ekki minnkar óvissan við að hér hefur ekki tekist að mynda nýja ríkisstjórn. Fordæmalaust er að Alþingi takist á við fjárlagaumræðu án starfhæfs stjórnarmeirihluta. Það er út af fyrir sig spennandi tilraun, en mun reyna mjög á ábyrgð þingmanna allra við þessar kringumstæður. Miðað við yfirlýsingar fjölmargra þingmanna við fyrstu umræðu fjárlaga er full ástæða til að hafa áhyggjur að þrýstingur á enn meiri útgjaldaaukningu verði verulegur. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að ríkisútgjöld eru að aukast um tugi milljarða króna á milli ára miðað við fyrirliggjandi frumvarp.
Þó svo vel hafi árað getum við ekki gengið út frá því að efnahagsskilyrðin verði okkur svo hagstæð um alla framtíð. Ljóst er að gengið hefur þegar styrkst mun meira en fæst staðist til lengri tíma litið. Þannig hefur gengið nú styrkst um nær 20% á undanförnum tveimur árum á sama tíma og laun hafa hækkað um 19%. Hvoru tveggja hefur mikil áhrif á rekstrarkostnað og afkomu útflutningsfyrirtækja og alls óvíst er hvernig ferðaþjónustan fær t.d. ráðið við svo hraðar breytingar. Ísland hefur á skömmum tíma breyst úr ódýrum áfangastað í einn þann dýrasta í Evrópu. Með þessari þróun er vegið þeirri undirstöðu sem útflutningsatvinnuvegirnir hafa verið í efnahagslegum uppgangi undangenginna ára. Þessi þróun er ekki sjálfbær nú fremur en á fyrri tímum og mun án efa enda með sama hætti og áður ef ekki er gripið inn í.
Það er gjarnan sagt að það þurfi sterk bein til að höndla góða tíma og það á vel við einmitt nú. Mikil þensla og launahækkanir hafa leitt til umtalsverðra vaxtahækkana hjá Seðlabankanum á undanförnum misserum. Bankinn hefur einnig ítekað gagnrýnt aðhaldsleysi ríkisfjármálanna við núverandi aðstæður. Þannig má raunar lesa óvenju skýr skilaboð úr síðustu fundargerð bankans, þar sem helstu rök gegn vaxtalækkun eru nefnd óvissa um aðhaldsstig ríkisfjármála í kjölfar kosninga og nýgenginn úrskurður Kjararáðs um launakjör kjörinna fulltrúa og sú óvissa sem hann hefur valdið á vinnumarkaði.
Þenslumerkin sjást nú víða. Einkaneysla fer vaxandi. Sala á nýjum bifreiðum, utanferðir landsmanna eru þessi misserin að slá met sem sett voru í síðustu uppsveiflu. Fasteignaverð hefur hækkað mikið undanfarin ár og sprottin er upp skógur byggingakrana á útjöðrum höfuðborgarsvæðisins á nýjan leik.
Það er við slíkar kringumstæður sem reynir á hagstjórn í efnahagslífi hverrar þjóðar og það er einmitt við slíkar aðstæður sem hagstjórnin hefur undantekningarlítið brugðist í íslensku efnahagslífi. Það er mikilvægt að við höfum það í huga nú, því þrátt fyrir gott árferði eru ýmis gamalkunnug óveðurský farin að hrannast upp við sjóndeildarhring.
Megin ábyrgð á hagstjórn er og verður ávalt borin uppi af tveimur aðilum öðrum fremur; af innlendum vinnumarkaði, með þeim kjarasamningum sem þar eru gerðir, og af Alþingi, með þeim ramma sem fjármálum ríkissins er markaður í fjárlögum. Peningastefna Seðlabankans getur aldrei hamið þá krafta sem þessir aðilar geta leyst úr læðingi með ábyrgðarleysi, líkt og dæmin hafa ítrekað sýnt okkur. Gott samspil vinnumarkaðar og ríkisfjármála við peningastefnu Seðlabankans eru lykilatriði samræmdrar hagstjórnar. Þessir þættir, öðrum fremur, leggja hér grunn að stöðugu verðlagi við lágt vaxtastig.
Ein helsta gagnrýni sem sett hefur verið fram á hagstjórn í síðustu tveimur þensluskeiðum var einmitt aðhaldsleysi ríkisfjármálanna. Sömu hagstjórnarmistökin voru endurtekin í bæði skiptin. Ríkisútgjöld voru aukin verulega að raunvirði á þenslutímum á sama tíma og skattar voru lækkaðir. Hvoru tveggja verkaði til að magna enn frekar þá miklu þenslu sem var í efnahagslífinu. Mikilvægt er að hafa það í huga þegar við setjumst að umræðu um ríkisfjármál nú. Þau eru og verða ávallt ein helsta stoð hagstjórnar og sú eina sem Alþingi Íslendinga hefur bein áhrif á. Við þurfum að nálgast það viðfangsefni af ábyrgð og festu.
Fjárlagafrumvarpið nú er hið fyrsta sem Alþingi tekur til afgreiðslu samkvæmt hinum nýju lögum. Afgangur þess er í takt við 5 ára ríkisfjármálaáætlun, liðlega 1% af landsframleiðslu. Það veldur hins vegar áhyggjum að þingið afgreiddi á síðustu starfsdögum fyrir kosningar útgjaldaloforð upp á vel á annan tug milljarða, sem ekki er tekið tillit til í þessu frumvarpi. Það samsvarar þorra þess afgangs sem áætlaður er á fjárlögum samkvæmt frumvarpinu.
Við hljótum að spyrja okkur við upphaf þessarar fjárlagaumræðu hvort við höfum raunverulega lært af hagstjórnarmistökum liðinna áratuga. Mikil þensla í efnahagslífinu gerir enn mikilvægara en áður að mikils aðhalds sé gætt í ríkisfjármálunum. Á árunum 2003 til 2007 jukust útgjöld ríkissjóðs um liðlega 17% að raunvirði og var það aðhaldsleysi mikið gagnrýnt. Sé horft til fjárlagafrumvarpsins núna hafa útgjöldin aukist um liðlega 17% frá árinu 2013, með fyrirvara um samanburðarhæfni vegna breyttrar framsetningar. Þó svo undirstaða efnahagslífsins sé traustari nú en þá, er þetta afar varhugaverð þróun. Veruleg hætta er á að við séum að endurtaka þau alvarlegu mistök sem gerð hafa verið í hagstjórn hér á landi á undanförnum áratugum.
Fjárlagaumræðan nú er því prófsteinn á vilja þingsins til að breyta og bæta vinnubrögð við fjárlagagerðina. Við þingmenn verðum að tryggja að fjármál hins opinbera verði ekki enn og aftur til þess að kynda undir þenslu í þjóðarbúskapnum við aðstæður sem mega lítt við meira brennsluefni í þeim efnum. Þó svo vissulega sé kallað eftir auknum útgjöldum til ýmissa brýnna verkefna, svo sem uppbyggingu innviða sem og til heilbrigðis- og velferðarmála verðum við að gæta þess að endurtaka ekki hagstjórnarmistök fyrri tíma og missa taumhaldið á fjármálum ríkissjóðs. Í þeim efnum má heldur ekki gleyma því að stundum snýst viðfangsefnið um forgangsröðun en ekki bara aukningu útgjalda.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.