Ég er viss um að það eru margir sammála mér þegar ég segi að ferðalög geta lífgað upp á lífið og gefið manni orku og innblástur. Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á að ferðast og það má segja að þessi áhugi hafi drifið mig áfram í nám í ferðamálafræði við Háskóla Íslands á sínum tíma. Nú starfa ég innan um hugmyndaríka frumkvöðla og ég fylltist eldmóði að fylgjast með þeim hafa metnað og drifkraft á við jarðýtu til að koma sprotafyrirtækjum sínum á laggirnar.
Nýsköpun er ótrúlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag og ýtir undir atvinnu- og verðmætasköpun. Ef við horfum til framtíðar þá hafa sérfræðingar spáð því að mörg þau störf sem við sinnum í dag verði ekki til með sama hætti eftir nokkur ár. Þau verði þá ýmist unnin af vélum eða vélmennum sem búa yfir gervigreind. Fjarlæg framtíðarsýn myndu flestir segja en nálgast þó svo hratt. Við þurfum því að huga að því að finna nýstárslegar lausnir við vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag og uppfylla þarfir komandi kynslóða.
Ferðaþjónustan er ein mikilvægasta grein atvinnulífsins og fjöldi ferðamanna hefur aukist jafnt og þétt og spár sýna fram á enn meiri aukningu á næstunni. Ég tel að það leynist mörg tækifæri til nýsköpunar í ferðaþjónustu og vil sérstaklega nefna afþreyingu, tæknilausnir og aðrar lausnir sem styðja við innviði greinarinnar. Nú er því um að gera að sleppa hugmyndafluginu lausu, taka hugarflugsfundi með vinum og kunningjum og dusta rykið af gömlu hugmyndunum í skúffunni! Við eigum svo mikið inni og þótt við höfum ekki öll tækifæri til að láta frumkvöðladrauminn rætast þá er um að gera að gefa góðum hugmyndum einhversskonar farveg - þó það sé í höndum annarra en manns sjálfs.
Vegferðin frá hugmynd að starfandi fyrirtæki getur verið ævintýri líkust en er þó oftast full af áskorunum og hindrunum sem þarf að yfirstíga. Á Íslandi í dag má finna stuðningsnet sem getur stutt við bakið á frumkvöðlum hvort sem þeir eru á hugmyndarstigi eða lengra komnir. Ég starfa hjá Icelandic Startups sem hefur það að markmiði að styðja frumkvöðla og sprotafyrirtæki til vaxtar. Við erum jafnframt framkvæmdaraðili verkefnisins Startup Tourism.
Startup Tourism er tíu vikna viðskiptahraðall þar sem allt að tíu sprotafyrirtæki í ferðaþjónustu fá tækifæri til að þróa viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn sérfræðinga þeim að kostnaðarlausu. Markmið verkefnisins er að hvetja til nýsköpunar í ferðaþjónustu í sínum víðasta skilningi og styrkja stoðir nýrra fyrirtækja í greininni.
Ég vil hvetja frumkvöðla í ferðaþjónustu til að nýta sér það stuðningsnet sem finna má á Íslandi. Sérfræðingar innan ferðaþjónustunnar á Íslandi, frumkvöðlar og fjárfestar búa að mikilli reynslu sem þeir eru tilbúnir að deila með nýjum sprotum. Við þurfum ekki hvert og eitt að finna upp hjólið og það er einmitt samfélaginu til góða að við hjálpumst að við verðmætasköpunina.
Taktu skrefið, ferðalagið getur hafist hér og nú.
Höfundur er verkefnastjóri hjá Icelandic Startups.