2016 - Ár fjölmiðlanna

Kjarninn birtir pistla eftir fulltrúa þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi í lok ársins 2016. Björn Valur Gíslason er varaformaður Vinstri grænna.

Auglýsing

Árið 2016 hefur einkennst að stórum hluta af pólitískri óreiðu. Það hófst með áramótaávarpi Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta Íslands, sem sagðist þá ætla að draga sig í hlé en þó samt ekki, í það minnsta ekki að fullu. Hann kvaðst myndu taka sér stöðu á hliðarlínunni sem þátttakandi í stjórnmálum, háð hans eigin vilja og óbundið af þeim skorðum sem forsetaembættið setur honum, eins og það var orðað. Það fór þó á endanum þannig að Ólafur Ragnar gaf aftur kost á sér til embættisins þar sem hann mat það sem svo að ekki væru þá komnir fram nægilega hæfir frambjóðendar til að hann gæti afhent þeim keflið. Hann dró síðan framboð sitt til baka og hætti öðru sinni við að bjóða sig fram, annars vegar vegna upplýsinga sem hann varðaði í Panamaskjölunum en ekki síður þegar ljóst var að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, gaf kost á sér til embættis forseta Íslands. Framboð ritstjórans sem áður hafði sett svo djúp og sár spor í samfélagið sem ráðherra og Seðlabankastjóri varð síðan ekki til að auka hróður hans eða varpa ljóma á pólitíska arfleifð hans. Það má þó segja að í það sinn hafi þjóðin haft betur gegn úrsérgengnum pólitískum brellum hins gamla foringja sjálfstæðisflokksins og hafnaði honum með afgerandi hætti.

Ríkisstjórn sjálfstæðisflokks og framsóknar, sem tók við völdum vorið 2013 og bjó við góðan meirihluta á Alþingi, liðaðist svo í sundur og féll á vordögum 2016. Banamein hennar var spilling. Þrír af fjórum ráðherrum evrópskra landa sem nefndir voru í Panamaskjölunum voru ráðherrar þessarar ríkisstjórnar. Ný ríkisstjórn var reist á rústum þeirrar sem féll eftir að einn þremenninganna, sjálfur forsætisráðherra landsins, var neyddur af eigin flokksmönnum til að segja af sér í kjölfar stærstu mótmæla sögunnar framan við Alþingishúsið. Hinir tveir sitja enn. Forsætisráðherrann fyrrverandi var svo endurkjörinn á þing með nokkrum ágætum í kosningunum í haust.

Niðurstaða kosninganna í lok október varð svo enn til að auka á óreiðuna sem þó var nokkur fyrir. Samkvæmt niðurstöðum þeirra var útilokað að mynda ríkisstjórn færri en þriggja flokka. Aðeins tveir möguleikar á meirihlutastjórn voru í stöðunni, ríkisstjórn fimm flokka án sjálfstæðisflokksins eða ríkisstjórn með sjálfstæðisflokki. Formaður Viðreisnar, stærðfræðingurinn Benedikt Jóhannesson, reiknaði sig því strax í lykilstöðu með því að merkja sér fjóra þingmenn Bjartrar framtíðar. Þannig varð vægi Viðreisnar í íslenskum stjórnmálum langt umfram fylgi og flokkurinn hefur síðan flakkað á milli stjórnarmyndunarviðræðna og virðist láta sig litlu varða hver viðmælandinn er hverju sinni. Samkvæmt úrslitum kosninganna styrktu hægriöflin heldur stöðu sína, fengu 40 þingmenn kjörna á móti 10 þingmönnum vinstrimanna. Aðrir eru svo að hálfu beggja vegna eftir því hvernig vindarnir blása.

Auglýsing

Staðan á Alþingi, þegar þessi grein er skrifuð, er þannig að fjármálaráðherra fallinnar ríkisstjórnar hefur lagt fram fjárlagafrumvarp sitt og tekjuöflunarfrumvörp fyrir næsta ár. Málin eru til umfjöllunar í tveimur þingnefndum; fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Fyrri nefndinni er stýrt af þingmanni sjálfstæðisflokksins. Þeirri síðari stýrir hægrimaðurinn og stærðfræðingurinn Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. Í þessu ljósi er ekki að vænta mikilla breytinga á fjárlagafrumvarpinu. Að öðru leyti starfar Alþingi ekki.

Framundan eru gríðarlega krefjandi tímar fyrir íslenska stjórnmálamenn. Ákvarðanir þeirra í efnahagsmálum á næstu dögum og vikum geta haft mikil áhrif á kjör landsmanna allra. Það er því mikilvægara nú en oftast áður að landinu verði stjórnað af ábyrgð og festu í stað lausungar og ábyrgðarleysis. Því verður forystufólk okkar í stjórnmálum hvar í flokki sem það er að taka hlutverk sitt alvarlega og tryggja landinu sem fyrst starfhæf stjórn í stað stjórnleysis og óreiðu. Enn mikilvægara er það þó að landinu verði stjórnað af fólki sem ber almannahag sér fyrir brjósti í stað sérhagsmuna. Of margir stjórnmálamenn láta sér þessi mál í léttu rúmi liggja og hafa helgað sig dægurþrasinu enda er það oft til meiri vinsælda fallið. Það á samt ekki við um alla og á það fólk setjum við allt okkar traust.

Ráðherrar og þingmenn fráfarandi ríkisstjórnar hafa gagnrýnt fjölmiðla mjög hart á undanförnum árum. Sumir þeirra hafa sniðgengið fjölmiðla og grafið undan trúverðugleika þeirra með aðferðum sem ekki hafa tíðkast í vestrænu lýðræðisríki til þessa. Þetta hefur samt, og sem betur fer, ekki orðið til þess að draga máttinn úr óháðum fjölmiðlum sem hafa fjallað um ólík samfélagsleg málefni með gagnrýnum en um leið málefnalegum hætti. Þannig var það vegna margra mánaða rannsóknarvinnu fjölmiðla sem upp komst um aflandsfélög þriggja íslenskra ráðherra og leiddi til falls ríkisstjórnarinnar og kosninga. Fjölmiðlar flettu síðan ítrekað ofan af stórfelldu svindli gegn neytendum í landinu og ber málefni MS eða Brúneggjasvindlið þar hæst. Fjölmiðlar hafa einnig kafað dýpra og fjallað með  gagnrýnni hætti um stjórnmál en oft áður að mínu mati og þannig upplýst okkur almenning um málefni sem varðar okkur öll og við eigum að taka afstöðu til. Það væri verðugt verkefni fyrir nýkjörið þing þegar það kemur saman að styrkja laga- og rekstrarumhverfi frjálsra fjölmiðla. Það þarf að koma upp sérstökum sjóði sem fjölmiðlar geti sótt í til að sinna nauðsynlegri rannsóknarvinnu og það verður að skapa þeim umhverfi sem styrkir fjárhagslegt sjálfstæði þeirra.

Árið 2016 var ár fjölmiðlanna.

Höfundur er varaformaður Vinstri grænna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var bólusett í Laugardalshöllinni í gær. Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og verk Libiu og Ólafs áður en það var tekið niður af gafli Hafnarborgar.
Bæjarstjóri hafnar því að hafa gerst sek um ritskoðun þegar listaverk var fjarlægt
Fulltrúar minnihlutans í Hafnarfirðii segja fjarlægingu listaverks Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar af gafli Hafnarborgar síðastliðinn sunnudag „alvarlega aðför að tjáningarfrelsi“ og vilja að bæjaryfirvöld biðji tvíeykið afsökunar.
Kjarninn 7. maí 2021
Svæðið fyrir og eftir að Rio Tinto hafði farið yfir það með stórvirkum vinnuvélum.
Hluthafar Rio Tinto hafna starfskjarastefnu sem ofurlaun forstjórans fyrrverandi byggðu á
Fyrstu viðbrögð Rio Tinto og forstjóra þess, þegar upp komst að fyrirtækið hefði eyðilagt 46 þúsund ára gamla steinhella, voru að segjast ekki hafa vitað að þeir væru heilagir í hugum frumbyggjanna. Þessar afsakanir voru hluthöfum ekki að skapi.
Kjarninn 6. maí 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra.
Telur ásakanir um meint brot Samherja ekki hafa skaðað orðspor íslenskra fyrirtækja
Fjármála- og efnahagsráðherra segist aldrei hafa fengið símtal, ábendingu eða umkvörtun frá nokkrum einasta aðila sem heldur því fram að ásakanir um lögbrot Samherja séu að valda einhverjum verulegum vandræðum fyrir íslenskan útflutning.
Kjarninn 6. maí 2021
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Landsbankinn hagnaðist um 7,6 milljarða króna á þremur mánuðum
Hlutdeild Landsbanka Íslands á íbúðalánamarkaði hefur stóraukist milli ára og er nú 26,8 prósent. Hún hefur aldrei verið hærri. Eigið fé bankans er nú 261,4 milljarðar króna.
Kjarninn 6. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None