Félagslegur stöðugleiki – horft til framtíðar

Auglýsing

Það hefur engin lognmolla ríkt á íslenskum vinnumarkaði síðustu árin og er árið 2016 engin undantekning frá því. Skrifað var undir kjarasamning í upphafi árs og var það annar samningurinn á innan við ári. Stór skref voru tekin í vegferð okkar að bættum lífskjörum launafólks og jafnréttis á vinnumarkaði en við upplifðum einnig mikil vonbrigði þegar ljóst var að ekki tækist að ná samkomulagi um nýtt samningalíkan. Þó flestar hagtölur sýni sterka stöðu íslensks efnahagslífs og færi okkur von um bjartari tíma er ekki tímabært að slaka á klónni. Enn er óvissa á vinnumarkaði og staðan ótrygg. 

Nýtt samningalíkan ekki í augsýn

Síðustu ár hafa einkennst af meiri ólgu á vinnumarkaði en við höfum lengi séð. Kjarasamningurinn í janúar var annar kjarasamningurinn á almennum vinnumarkaði á nokkurra mánaða tímabili og var undirritaður í kjölfar langvinnra átaka og forsendubrests. Markmið með þessum samningi var að tryggja jafnræði í kjaraþróun og samræmingu lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Vonir stóðu til þess að í kjölfarið gætu aðilar á vinnumarkaði unnið saman að því að innleiða ný vinnubrögð við kjarasamningagerð eins og lagt var upp með fyrir þremur árum þegar formlegt samstarf okkar um nýtt kjarasamningalíkan hófst. Með nýju samningalíkani viljum við renna styrkari stoðum undir efnahagslegan og félagslegan stöðugleika á sama hátt og nágrönnum okkar á hinum Norðurlöndunum hefur tekist. 

Forsenda þess að hægt sé að semja um nýjar leiðir í kjarasamningagerð er hins vegar jafnræði, bæði í launaþróun og lífeyrismálum. Kjarasamningurinn frá því í janúar fól í sér skuldbindingu um hvoru tveggja, svo fremi að sátt næðist um lífeyrismálin. Það gekk ekki eftir, því miður. Ágreiningur stjórnvalda og samtaka opinberra starfsmanna um breytingar á lífeyrismálum varð til þess að viðræður um nýtt samningalíkan fóru út um þúfur. 

Auglýsing

Þegar þessi orð eru rituð er hins vegar nýbúið að samþykkja á Alþingi frumvarp um jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði. Þó ekki hafi ríkt einhugur um þetta frumvarp vona ég að það færi okkur tækifæri til að taka upp þráðinn á nýjan leik í viðræðum um nýtt samningalíkan á vinnumarkaði. En til þess að svo geti orðið, verða allir að koma að borðinu. Samningar eru í eðli sínu málamiðlun, enginn nær öllum sínum kröfum fram. Átök á vinnumarkaði og andstaða við nauðsynlegar breytingar eru ekki leiðin að því samfélagi sem við stefnum öll að. Okkar barátta í verkalýðshreyfingunni snýr fyrst og fremst að því að verja hagsmuni okkar félagsmanna – en við gerum það ekki í stríði við stjórnvöld eða hvert annað.

Stóru skrefin í húsnæðismálum

Húsnæðismálin hafa lengi verið ein af megináherslum verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi enda er öruggt og viðráðanlegt húsnæði ein grunnforsenda mannsæmandi lífs. Á árinu náðust stórir áfangar í baráttu okkar fyrir öruggari húsnæði tekjulægri, samþykktar voru breytingar á lögum um húsnæðismál og hið opinbera skuldbatt sig til að leggja fjármagn í byggingu nýrra íbúða. Því ber að fagna, en það er deginum ljósara að meira þarf til.

Alþýðusambandið ákvað, á aldarafmæli sínu sem sambandið fagnaði í ár, að standa fyrir stofnun almenns íbúðafélags þar sem áhersla verður lögð á þá lægst launuðu. Fleiri í verkalýðshreyfingunni hafa síðan ákveðið að leggja okkur lið í þessu mikilvæga verkefni. Ljóst er að gríðarleg eftirspurn er eftir fjölbreyttara búsetuformi og við munum ekki láta staðar numið hér. Þörfin er brýn og okkur ekkert að vanbúnaði. En nú er bara að bretta upp ermarnar og koma vinnunni af stað. 

Verjum réttindin – grunnurinn að starfinu

Svört atvinnustarfsemi og brot gegn réttindum launafólks, bæði ítrekuð og alvarleg, komu iðulega til umfjöllunar á árinu 2016. Slík brot eru því miður fylgifiskar uppsveiflu eins og við upplifum þessi misseri, ekki síst í ferðaþjónustu og byggingageiranum. Spáð er gríðarlegri fjölgun starfa á næstu árum og mikilvægt að standa vörð um grundvallarréttindi á vinnumarkaði. Réttindin sem við njótum í dag kostuðu þá sem á undan okkur komu fórnir og okkur ber skylda til að verja þau með ráð og dáð. Kjarninn í baráttu verkalýðshreyfingarinnar er einfaldlega að tryggja öllum lágmarksréttindi á vinnumarkaði - að tryggja að kjarasamningar séu virtir og mannréttindi í hávegum höfð. 

Erlendir starfsmenn og ungt fólk sem er að kynnast vinnumarkaðnum í fyrsta skipti er sérstaklega í hættu hvað þetta varðar. Laun undir lágmarkskjörum, veikindaréttur ekki virtur, yfirvinna ógreidd, jafnaðarkaup, launalaus vinna og sjálfboðavinna eru bara nokkur dæmi um það sem stéttarfélögin hafa þurft að glíma við á síðustu misserum. Einn réttur, ekkert svindl er verkefni sem ASÍ hefur lagt mikla áherslu á með góðum árangri. Vinnustaðaeftirlit hefur verið eflt og samstarf aðila á vinnumarkaði tekur nú til fleiri þátta en áður. Þetta er rétta leiðin til að standa vörð um störfin okkar og réttindi. 

Hvað næst?

Ný störf og nýjar kröfur kalla á breyttar áherslur í verkalýðshreyfingunni. Á næstu árum verðum við að bregðast við, endurskoða hvernig við gerum hlutina og á hvað við leggjum áherslu. Menntun mun spila stórt hlutverk í þeim miklu þjóðfélagsbreytingum sem við sjáum gerast. Þess vegna eru starfmenntamálin okkur svona hugleikin og þess vegna eru þau æ fyrirferðarmeiri í starfsemi stéttarfélaga. Þarna gefst okkur tækifæri til að styrkja félagsmenn okkar og opna fyrir þeim ný tækifæri. Þetta er jákvæð þróun sem við eigum að vera í fararbroddi fyrir. 

En við sjáum einnig aðra þróun á vinnumarkaði sem er ekki eins jákvæð en kallar á virka þátttöku verkalýðshreyfingarinnar. Ég leyfi mér að fullyrða að sjúkrajóðir flestra, ef ekki allra stéttarfélaga, hafi þurft að bregðast við fjölgun skjólstæðinga með stoðkerfisvandamál eða geðræna röskun. Enn og aftur er það unga fólkið sem stendur höllum fæti. Hér verðum við að grípa í taumana, ekki bara verkalýðshreyfingin heldur samfélagið allt. Þetta snýst allt um forgangsröðun. 

Sýnum samhug í verki

Þær hagtölur sem við lítum iðulega til gefa ástæðu til bjartsýni á næsta ári. Atvinnuleysi það sem af er þessu ári hefur að meðaltali verið liðlega 2%, kaupmáttur launa jókst um nær 8% á fyrstu níu mánuðum ársins og hagvöxtur um 6% á sama tímabili.

En svona mælingar segja hins vegar ekki alla söguna. Við getum hvorki slegið því föstu að við séum komin í varanlegt skjól né að allir njóti góðs af þessari góðu stöðu. Tölur um landsframleiðslu, kaupmátt og atvinnuleysi eru hvorki óskeikul né alhliða mæling á velferð, vellíðan launafólks eða stöðu hagkerfisins heldur einungis vísbending. Nýleg rannsókn Barnaheilla bendir til þess að 14% barna á Íslandi eigi í hættu á að búa við fátækt eða félagslega einangrun. Rauði krossinn hefur einnig bent á að þúsundir líði efnislegan skort, börn og fullorðnir.  

Fátækt er ekki bara vandi fortíðar eða eitthvað sem er vandamál í útlöndum. Allt of margir glíma við efnislegan og félagslegan skort á íslandi í dag. Munum eftir þeim sem þurfa á aðstoð okkar að halda nú þegar við fögnum jólum. 

Ég óska landsmönnum öllum farsældar á nýju ári.

Höfundur er formaður VR. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í dómsal í dag.
„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
Það er mat ákæruvaldsins að Marek sé ekki að segja nákvæmlega allt sem hann muni frá deginum sem bruninn á Bræðraborgarstíg varð. Verjandi fer fram á að ef hann verði fundinn sekur og ósakhæfur verði hann ekki dæmdur til öryggisgæslu.
Kjarninn 5. maí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir ljóst að spennandi tímar séu framundan, vegna fyrirhugaðrar sölu ríkisins á hluta af hlut sínum í Íslandsbanka.
Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi
Eigið fé Íslandsbanka nam 185 milljörðum króna í lok mars. Bankastjórinn segir spennandi tíma framundan, í ljósi þess að stefnt sé að skráningu bankans á verðbréfamarkað að undangengnu útboði á hluta af hlut ríkisins í honum.
Kjarninn 5. maí 2021
Höfuðstöðvar Arion banka í Borgartúninu
Arion hagnast um 6 milljarða á þremur mánuðum
Þrátt fyrir lága vexti og efnahagssamdrátt var hagnaður Arion banka á fyrsta fjórðungi þessa árs mun meiri en á sama tímabili í fyrra.
Kjarninn 5. maí 2021
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
„Þeirra er ævintýralega ósanngjarna lýðræðið sem við búum við“
Björn Leví segir að skipting sæta milli þingflokka sé mjög ójöfn. Auðveldasta lausnin til að leysa vandamálið sé að fjölga jöfnunarsætum – það sé ekki flókið né ósanngjarnt.
Kjarninn 5. maí 2021
Samkvæmt því sem segir í nafnlausum skoðanadálki Morgunblaðsins í dag „gæti orðið bið á því“ að blaðið sendi fulltrúa sinn á fund félaga í BÍ til þess að ræða umdeilda skoðanaauglýsingu Samherja sem beindist gegn fréttamanninum Helga Seljan.
Morgunblaðsmenn ekki spenntir fyrir því að ræða auglýsingu Samherja við félagsmenn BÍ
Í ritstjórnardálki í Morgunblaðinu segir að það „gæti orðið bið á því“ að yfirmenn blaðsins þekkist boð um að mæta á fund félaga í Blaðamannafélaginu til að ræða siðferðileg álitaefni í tengslum við birtingu umdeildrar auglýsingar frá Samherja á mbl.is.
Kjarninn 5. maí 2021
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Umræða um málefni innflytjenda gengur fram af þingmanni – Skömm að tala málið niður
Þingmaður Vinstri grænni segir að Íslendingar eigi að sýna þann þroska að geta sinnt útlendingamálum með almennilegum hætti og gera það sem best – „við sem rík þjóð“. Umræða Miðflokksmanna hafi gengið fram af henni í gær.
Kjarninn 5. maí 2021
Þriðjungur fyrstu ferðagjafarinnar fór til tíu fyrirtækja
Nú stendur til að endurnýja ferðagjöf stjórnvalda til að örva eftirspurn innanlands. Rúmur helmingur þeirra sem áttu rétt fyrstu ferðagjöfinni hafa nýtt hana. Á meðal þeirra sem fengu mest í sinn hlut voru eldsneytissalar og skyndibitakeðjur.
Kjarninn 5. maí 2021
Hluti þingliðs Miðflokksins á björtum og fallegum sumardegi fyrr á kjörtímabilinu.
Stillt upp á lista hjá Miðflokknum í öllum kjördæmum
Fimm manna uppstillingarnefndir munu setja saman framboðslista Miðflokksins í öllum kjördæmum landsins fyrir komandi kosningar, en ekki kosið í sæti á lista á félagsfundum. Fylgi flokksins hefur verið í nokkurri lægð að undanförnu.
Kjarninn 5. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None