Ég lít um öxl yfir ár sem gjörvallt internetið virðist sammála um að sé eitt það versta á þessari öld, þótt þar sé full djúpt í árinni tekið.
Við misstum ótal hetjur á sviði tón- og leiklistar, stjórnmál tóku skarpa öfgahægri dýfu allt frá Ameríku til Indónesíu, með stuttri viðkomu í Austurríki. Enn veit enginn hvað Bretar eru að spá í alvörunni, síst af öllu Bretar sjálfir. Á Íslandi kom í ljós að þrír ráðherrar, þar af forsætisráðherra sjálfur, ættu leynilega reikninga í gegnum lögmannsstofur sem aðstoða við skattsvik. Við þetta bætast öfgafullar aðgerðir Útlendingastofnunar, sem halda áfram sama hvað tautar eða raular. Inn í þennan heim steig ég mín fyrstu skref í pólitík.
Ég, líkt og aðrir, fékk alveg upp í kok í kringum Panamaskjölin. Með eldmóð og réttlátri reiði fylgdist ég með Kastljósi og Reykjavík Media, í samvinnu við stóran hóp blaðamanna víðs vegar að úr heiminum, fletta ofan af viðbjóðnum sem þrífst í skugga meðvirks fjármálakerfis og vanhæfra eftirlitsstofnana. Nú var komið nóg, eitthvað varð að gera og mætti ég á mín fyrstu mótmæli þetta ár. Ég hafði verið skráður í Pírata í um tvö ár og kosið þá síðast en þó aðallega vegna þess að ég þekkti til Helga Hrafns og vissi að hann væri ótrúlega skarpur og vel gerður maður. Eftir að hafa kynnt mér flokkinn betur fann ég algeran samhljóm við stefnu þeirra um gegnsæi og mannréttindi sem styrkti álit mitt á þeim. Þegar stefndi í að þingi yrði slitið snemma og gengið til kosninga sló ég til og skráði mig í prófkjör, hugsandi að ég þyrfti að tryggja að þarna væri nú nóg af fólki með viti ef eitthvað ætti að gera.
Ekki leist mér á blikuna þegar i ljós kom að um hundrað manns hefðu skráð sig í framboð í prófkjörinu og hélt ég á fund sem ætlaður var til að frambjóðendur gætu kynnt sig og kynnst öðrum. Ég hef aldrei verið eins ánægður með ofmat á eigin ágæti og á þessum fyrsta fundi. Í kringum mig stóð stór hópur af flinkara, greindara og færara fólki en ég verð nokkurn tíma og ég sá að hér myndi verða til mjög góður listi. Sem varð svo raunin og vermdi ég á endanum neðri part lista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi -Suður í 15. sæti. Daginn eftir var ég kosinn sem varamaður í stjórn Pírata í Reykjavík (PíR).
Þá byrjaði ballið fyrir alvöru. Við í PíR stóðum fyrir “Pólitískum Ómöguleikum”, þar sem framboðslistar höfuðborgarsvæðisins þreyttu kappi í ýmsum misgáfulegum keppnisgreinum og við hristum saman liðsheildina með miklu fjöri um kvöldið. Ég var farinn að sjá að þarna ætti ég heima, hlutfallið milli snillinga og hálfvita töluvert betra en almennt gerist. Vinnan í kringum kosningarnar var mikil. Við bárum út bæklinga, héldum fundi svo að frambjóðendur gætu kynnt sig í hverfunum og ýmislegt fleira. Þetta endaði á rúmlega tuttugu tíma vinnudegi á kjördag þar sem ég sinnti eftirliti með kosningunum ásamt hörkuduglegum Svía að nafni Tomas Kronvall, en hann kom ásamt fríðu föruneyti frá bræðrum okkar í Svíþjóð; alls voru Píratar frá um ellefu þjóðum komnir til að leggja hönd á plóg í sjálfboðavinnu. Kvöldið endaði á heljarinnar húllumhæi á Bryggjan Brugghús sem fór fram án mín og annara eftirlitsmanna, sem fylgdum talningu atkvæða inn í nóttina.
Eftir kosningar lít ég bara frekar björtum augum á lífið, þó nóttin sé vissulega löng. Þingflokkur Pírata hefur rúmlega þrefaldast og framganga hans í stjórnarmyndunarviðræðum hefur gert jarm afturhaldsíhaldsseggja í eigu fjármagnsafla um óstjórntækan eins málefnis flokk enn hjákátlegra en áður. Þó ekki hafi tekist að mynda fimm flokka stjórn í þessari lotu gengur þingflokkurinn keikur frá verkinu. Samstaða náðist á mörgum sviðum og það er margt sem þarf að gera inni á Alþingi þessa dagana, sem senn fara að lengjast. Sama hvort Píratar verða í ríkistjórn eða ekki þá munu þessar pólitísku vetrarsólstöður brátt heyra sögunni til og ég hef trú á að þá muni birta yfir Íslandi. Og kannski heiminum.