Við árslok lítum við gjarnan yfir farinn veg og setjum okkur markmið fyrir næsta ár. Við lærum af reynslu fráfarandi árs og nýtum til bóta hið næstkomandi ár. Þegar ég geri upp mitt eigið ár er það samofið þeirri atburðarás sem hófst þegar boðað var til kosninga með skömmum fyrirvara.
Kosningaskjálfti hófst og á þeim mikla óvissutíma voru fáir reiðubúnir til að ganga til kosninga. Þá hófst uppspretta nýrra flokka sem urðu til vegna óánægju með það hvernig samfélaginu er háttað. Sjálfur var ég viðstaddur og tók raunar virkan þátt í stofnun flokks sem kennir sig við betrumbætur og viðreisn samfélagsins. Það er þroskandi fyrir ungan mann eins og mig að taka mín fyrstu skref á sviði stjórnmála samhliða fæðingu nýs stjórnmálaafls. Reynslan göfgar nefnilega.
Mikilvæg verkefni framundan
Þetta á við um samfélagið jafn mikið og það á við um einstaklinginn og draga má lærdóm af ýmsu sem átti sér stað á nýliðnu ári. Það hófst með viðburðarríkum hætti þegar fólk lýsti ítrekað yfir óánægju sinni með stöðu samfélagsins, en það var kornið sem fyllti mælinn þegar ljósi var varpað á eigur íslenskra ráðamanna í svonefndum skattaskjólum. Tilfinning manna var sú að ekkert raunverulegt uppgjör siðferðis hefði átt sér stað í kjölfar íslenska efnahagshrunsins.
Reynslunni ríkari geta stjórnmálamenn næstu ára einbeitt sér að því að leysa úr öllu slíku og efla samtalið við þjóðina. Framundan eru erfið og brýn verkefni og núverandi staða stjórnmála bætir þar ekki úr skák. Það ætti því að vera verkefni allra að huga að stórum markmiðum framtíðarinnar, takast á við vandamálin af fullum krafti og boða raunhæfar lausnir í þeim málum sem við viljum leysa. Þetta þarf að gera í sameiningu og með samstarfi allra.
Málin framundan
Í kjölfar efnahagshrunsins og samdráttar í hagkerfinu var innviðauppbygging að mestu látin sitja á hakanum. Samhliða fjárskorti og öldrun þjóðarinnar hefur álag og kostnaður aukist mikið í heilbrigðiskerfinu. Hvað fjárveitingu til menntamála varðar er hætta á að undirfjármögnun ógni stöðu háskólanna allverulega. Með auknum fjölda ferðamanna á síðustu árum er ljóst að styrkja þarf samgöngukerfið umtalsvert. Staðreyndin er sú að bæta þarf í grunnþjónustu samfélagsins.
Lítill ágreiningur er um það og allir flokkar eru sammála því að forgangsraða skuli fjármunum ríkissjóðs í þágu grunnstoða. Það er að vísu tvennt sem stendur þar í vegi. Í fyrsta lagi sú staðreynd að afla þurfi tekna fyrir allri útgjaldaaukningu til viðbótar við fyrirhugaða aukningu, þar sem útgjöldin geta ekki verið umfram tekjur. Í öðru lagi sú staðreynd að hætta er á að hagkerfið ofhitni með miklum auknum útgjöldum og aukinni fjárfestingu ríkisins. Það er sérstaklega varasamt þegar þensla er nú þegar eins mikil og raun ber vitni. Hér er fyrst og fremst tvennt í stöðunni.
Einn valkostur er mikil aukning útgjalda og mikil hækkun skatta til að fjármagna þá aukningu. Að vísu þyrfti að afla svo mikilla tekna að hækka þyrfti skatta á almenning, auk þess sem skattleggja þyrfti einkaneyslu almennings í auknum mæli til að halda aftur af þensluáhrifum útgjaldaaukningarinnar. Við það má bæta að tekjustofnar færu lækkandi samhliða niðursveiflu í hagkerfinu. Vandinn er þá að slík aukning yrði varla sjálfbær til lengri tíma litið.
Annar valkostur er hófleg aukning útgjalda með því að endurraða fjárfestingum ríkisins í þágu grunnstoða í auknum mæli. Spara má töluverða fjármuni með því að nýta þá betur, svo sem með aukinni lækkun ríkisskulda og þar með lækkun árlegra vaxtaútgjalda ríkissjóðs, en sú upphæð nemur hátt í 80 milljörðum kr. samkvæmt fjárlögum næsta árs, sem er um 11% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Auk þessa væri hægt að leita til gjaldtöku fyrir auðlindanotkun í auknum mæli til að afla tekna. Þar ber helst að nefna árlega fyrningu og uppboð veiðiheimilda.
Stöðugleiki og sátt
Skapa þarf hvort tveggja sátt og stöðugleika í samfélaginu. Þetta á sérstaklega við um efnahagsmálin, hvort sem það eru ríkisfjármál eða peningamál. Varðandi hið síðarnefnda er staðreynd málsins sú að núna er vaxtastig er mjög hátt og ósjálfbær styrking krónunnar mikil. Það býður hættunni heim. Þess vegna þarf að eiga sér stað stefnubreyting í peningamálum og huga þarf að breyttu gengisyfirkomulagi. Slíkt yrði öllum til hagsbóta og gæti jafnvel orðið helsta kjarabót íslenskra heimila.
Í atvinnumálum þarf að taka vandamálin föstum tökum. Hvað ferðaþjónustu varðar þarf að koma skipulagi á straum ferðamanna og sjá til þess að innviðir séu nægilega sterkir til að taka á móti þeim. Í sjávarútvegsmálum þarf að koma á sátt um gjaldtöku, þar sem hún hefur nú verið í lægri kantinum um nokkurra ára skeið. Hún má þó ekki raska verðmætaskapandi virðiskeðju og fyrirsjáanleika rekstrar í greininni. Í landbúnaðarmálum þarf að koma til móts við þann stóra hóp neytenda sem kallar eftir breytingu og bættum kjörum neytenda. Það á ekki að líðast að tíu ára bindandi búvörulög séu samþykkt án nokkurs samráðs við neytendur, þá sérstaklega þegar slíkur samningur kemur til með að kosta ríkissjóð um 240-260 milljarða kr. á tímabilinu.
Endurvekja þarf traustið
Nauðsynlegt er að endurheimta það traust til stjórnmálamanna sem glatast hefur á síðustu árum. Efnahagshrunið árið 2008 opinberaði gjá milli þings og þjóðar, en vandamálið var hvort tveggja af efnahagslegum og siðferðislegum toga. Þó að ég hafi ekki verið nema 12 ára að aldri á þeim tíma, þá var auðvelt að sjá að mikill siðferðisbrestur hefði átt sér stað. Reynslunni ríkari þurfum við að læra af þessu og efla samtal og samráð milli þings og þjóðar.
Einnig þarf að efla stjórnarhætti. Það er eðlilegt að erfitt takist að mynda starhæfa ríkisstjórn þegar flokkar eru jafn margir og ólíkir og raun ber vitni. Væru allir flokkar sammála um allt á þingi væri það ansi hugmyndasnautt og einsleitt. Þess vegna er fjölbreytni og málefnalegur ágreiningur af hinu góða, en þá þarf ágreiningurinn líka að vera á málefnalegum grunni, fremur en á persónulegum grunni.
Að lokum
Þegar við lítum yfir farinn veg liggur fyrir að leysa þurfi mikilvæg mál á næstunni. Það gerist ekki nema í sameiningu og með góðu samstarfi. Huga þarf vel að góðu siðferði og stjórnarháttum þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar, þar sem hagsmunir almennings eru hafðir í forgrunni. Flokkar þurfa að sameinast um að koma mikilvægum umbótum til almannaheilla í gegn. Efla þarf þannig grunnstoðir samfélagsins, en um leið viðhalda stöðugleika. Þá fyrst er hægt að tryggja sátt í samfélaginu. Þá fyrst lærum við af mistökum fyrri ára. Þá fyrst sjáum við fram á almennilega viðreisn samfélagsins.