Um og upp úr 1970 var mokveiði á loðnu síðvetrar ár hvert. Slíkur var atgangurinn í veiðunum að verksmiðjur höfðu ekki undan að vinna aflann. Loðnunni var jafnvel ekið á tún og í hraungjótur í Vestmannaeyjum ( eins og frægar myndir Sigurgeirs Jónassonar sýna glöggt). Sjómenn og útgerðarmenn gerðu sér smám saman grein fyrir að stór hluti hráefnisins eyðilagðist í atganginum og báðu stjórnvöld að hafa vit fyrir sér. Loðnunefnd var sett á laggirnar, kallaði til starfa færustu stærðfræðinga þjóðarinnar og fékk vald til að ákveða hvenær skip héldu til veiða og hvar þau lönduðu! Því er þetta rifjað upp að nú í desember ákvað ráðherranefnd um efnahagsmál að fela sérfræðingum stjórnarráðsins að fá hugmyndir ferðaþjónustuaðila um viðbrögð við mokveiði á túristum. Fram til þessa hafa aðgerðir stjórnvalda fyrst og fremst falist í landkynningu (m.a. með niðurgreiðslu á Hollywood kvikmyndum!). Seðlabankinn hefur reynt að hamla gegn afleiðingum gjaldeyrisinnstreymis með uppkaupum gjaldeyris með ærnum tilkostnaði. Að öðru leyti virðist hið opinbera ekki með á nótunum. Hér á eftir eru dregnar upp sviðsmyndir til að skýra þann vanda sem við er að etja.
Sviðsmynd 1: Aðgerðarleysi
Aðgerðarleysi er áframhald núverandi stefnu. Seðlabankinn myndi væntanlega verða að hætta uppkaupum á gjaldeyri. Vegna gengisstyrkingar myndu útflutningsfyrirtæki ýmist flytja úr landi (tölvu- og tæknifyrirtæki) eða hætta starfsemi alfarið (fullvinnsla sjávarafurða og sum ferðaþjónustufyrirtæki). Mörg ferðaþjónustufyrirtæki myndu lækka kostnað með því að skipta við erlendar starfsmannaleigur svipað og gerist í ræstingageiranum nú þegar. Verð á hótelgistingu og AirBnB gistingu mun lækka í krónum talið. Hótel munu fækka stjörnum, starfsliði og þjónustustigi. Umsvif í innflutningi myndu aukast. Atvinnuleysi meðal innfæddra gæti aukist, en jafnvægi gæti smám saman komast á við talsvert hærra raungengi á mælikvarða verðlags en nú er en með umtalsverðri lækkun launa í krónutölu vegna þrýstings frá framboði starfsmannaleiga á erlendu skammtímavinnuafli. Bil milli tekjuhárra og tekjulágra gæti aukast mikið. Framboð á opinberri þjónustu sem ekki tengist ferðaþjónustu mun líklega minnka. Skattpeningar innlendra skattgreiðenda verða notaðir til að greiða fyrir rekstur flugvalla, vegaviðhald og löggæslu. Heilbrigiðiskerfið og velferðarkerfið geta dregist mikið saman frá því sem nú er. Líklegt er að upp verði sett einkasjúkrahús sem sinni ferðamönnum sem eru í viðskiptum við erlend heilsutryggingarfyrirtæki. Innlendingar munu njóta þess að innfluttur varningur verður ódýr samanborið við innlendan.
Sviðsmynd 2: Þensluletjandi ríkissjóður
Þessi sviðsmynd er mjög áþekk sviðsmynd 1 nema að ekki verður aðeins flutt frá frá velferðar- og heilbrigðis og menntamálum, heldur verður heildarumfang hins opinbera minnkað verulega. Markmið slíks niðurskurðar væri að aðstoða Seðlabankann við að halda aftur af gengishækkun krónunnar (aðhaldssöm fjármálastefna í bland við aðhaldssama peningamálastefnu). Þessari stefnu gæti fylgt miklar uppsagnir í heilbrigðis- og menntageiranum, og mun meira atvinnuleysi í upphafi en í sviðsmynd 1. (Innan sviga má geta þess að margir stjórnmálamenn virðast hrifnir af þessari sviðsmynd ef marka má fréttir af stjórnarmyndunarviðræðum). Aðlögunarferlið samkvæmt þessari sviðsmynd yrði svipað og samkvæmt sviðsmynd 1, en tæki líklega skemmri tíma.
Sviðsmynd 3: “Loðnunefndarleiðin”, Norska leiðin
Fyrstu sviðsmyndirnar tvær eru fremur nöturlegar og líklega ekki sjálfbærar því það verður að teljast ólíklegt að það þjóðfélag sem myndi byggjast upp á þeirra grunni yrði í færum til að veita ferðamönnum þá þjónustu sem þeir sækjast eftir. Sömuleiðis fela þessar leiðir báðar í sér umtalsverða rányrkju á þeim auðlindum sem ferðamennskan byggir tilveru sína á. Ferðamenn koma ekki til Íslands til að standa fyrst í biðröð á Lögbergi, svo við Geysi, svo við Gullfoss, svo við flugvélarflak á Skeiðarársandi, svo í Víkurfjöru, svo við Jökulsárlón. Jafnframt er líklegt að brottflutningur fólks frá landinu yrði umtalsverður þar sem launastig myndi ráðast af greiðslugetu lágframleiðinna ferðaþjónustustarfa. En hvað er þá til ráða? Er hægt að fara “loðnunefndarleiðina”? Að sjálfsögðu er það mögulegt. Vandinn nú felst í því að við ríkjandi verðlag og skattheimtu þá þolir hluti af ferðaþjónustunni miklu hærra gengi en afgangurinn af útflutningsgreinunum. Auðvelt er að bæta úr því með því að hækka skattheimtuna gagnvart þessum hluta ferðaþjónustunnar (fyrst og fremst flugfélögin og bílaleigurnar. Bílaleigurnar fá umtalsverðan stuðning í formi niðurfelldra aðflutningsgjalda!). Slá má tvær flugur í einu höggi með því að nota umtalsverðan hluta af þeim tekjum sem af slíkri skattheimtu fengist til að auka gjaldeyrisvarasjóðinn. Þessi aðferð er nákvæmlega sú aðferð sem Norðmenn hafa farið undanfarin 25 ár. Í stað þess að veita olíutekjum inn í hagkerfið með tilheyrandi gengisstyrkingu hafa fjármunirnir verið fjárfestir í erlendum eignum. Aðeins vaxtatekjur sjóðsins hafa komið til ráðstöfunar innanlands.
Niðurstaða: Grundvöllur ferðaþjónustunnar eins og hún er rekin í dag er ekki sjálfbær. Greinin gengur á þær auðlindir sem eru undirstaða hennar rétt eins og tilfellið var með ofnýtingu auðlinda sjávar á seinni helmingi 20. aldarinnar. Ef greinin á að vera sjálfbær þarf að fækka ferðamönnum svo hver og einn sem kemur eigi raunverulega kost á þeirri upplifun sem sóst er eftir. Jafnframt þarf að búa svo um hnútana að ferðaþjónustan greiði eðlilegt verð fyrir afnot af vegakerfinu, löggæslukerfinu, björgunarþjónustu Landhelgisgæslunnar og heilbrigðiskerfinu. En þetta er ekki nóg því það þarf að tryggja að sambúð ferðaþjónustunnar og annarra útflutningsgreina sé í eðlilegu jafnvægi. Til að finna það jafnvægi ætti það að vera fyrsta verk ráðherranefndar um efnahagsmál að fá sérfræðinga norska olíusjóðsins til skrafs og ráðagerða. Það er mikilvægara að læra af því sem vel er gert en að hlusta enn og aftur á kveinstafakveðskap innlendra hagsmunaaðila.
Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.